Vistfræðilegir straumar í nýju safnriti helguðu norrænum barna- og ungmennabókmenntum

01.02.21 | Fréttir
Antologi_ på tværs af norden_Kathrina Skarðsá
Photographer
Kathrina Skarðsá

Mynd eftir Kathrinu Skarðsá

Loftslagsvandinn og umhverfismálin verða æ fyrirferðarmeiri í bókmenntum fyrir börn og ungmenni. Í nýju safnriti er dregin upp mynd af bæði kvíða og trú á framtíðina í norrænum barna- og ungmennabókmenntum frá vistfræðilegu sjónarmiði. Safnritið er afurð einstaks samstarfs norrænna fræðimanna, rithöfunda og myndskreyta.

Plastið og þau vandamál sem af því hljótast, dystópísk ævintýri, náttúrusögur og loftslagshetjur fylla bókahillur unglingaherbergja í dag. Undir stöðugum fréttaflutningi af loftslagsvá, mengun og tegundum í útrýmingarhættu er engin furða að umhverfismálin verði æ fyrirferðarmeiri í bókmenntum fyrir börn og unglinga.

Nýja safnritið, På tværs af Norden - Økokritiske strømninger i nordisk barn- och ungdomslitteratur („Þvert á Norðurlönd – Vistfræðilegir straumar í norrænum barna- og ungmennabókmenntum), veitir innsýn í nýjustu strauma í þessum efnum og sýnir hvernig loftslagsvánni og sviptingum í umhverfi okkar er miðlað til ungra lesenda á Norðurlöndum. Safnritið, sem er annað í röð þriggja, inniheldur fræðilegar ritgerðir, hárbeittar frásagnir og einstakar myndskreytingar.

Loftslagsvandinn: kvíði og trú á framtíðina

Esseyjuprósi um plast og loftslagsmál, aðalpersónur úr plöntu- og dýraríkinu, umhverfisaðgerðasinnar, sorp sem frásagnarstef og siðfræði einkenna meðal annars þau þemu og nálgun sem birtast í hinum níu ritgerðum safnritsins. Lydia Wistisen, lektor í barna- og unglingabókmenntum við menningar- og fagurfræðistofnun Stokkhólmsháskóla, á grein í safnritinu undir yfirskriftinni „Barnboken i skräpocen: en undersökning av relationen mellan natur, kultur och skräp i Linda Bondestams Mitt bottenliv“ (2020) („Barnabókin á sorpöld: rannsókn á tengslum náttúru, menningar og sorps í Mitt bottenliv eftir Lindu Bondestam). Wistisen segir:

„Í bókinni Mitt bottenliv er náttúran ekki aðgerðalaust fórnarlamb rányrkju mannsins og birtingarmynd sorps og mengunar er jafnan hugmyndarík og fagurfræðilega krefjandi. Sé aftur vikið að tilvitnuninni [sjá neðar] þá dregur Bondestam upp mynd af jörð sem hefur viðkvæmt vistkerfi en jafnframt sterkan lífsvilja. Tálknamöndrur sem dreifa sér í hundraðatali yfir bókaropnu minna um margt á útbreiðslu mannfólks á jörðinni. Bókin veitir ekki afgerandi svör en kannski hefur allt mannfólk verið numið á brott, kannski hefur öld tálknamandranna tekið við af öld sorpsins.“

„Enginn vissi hvar stóru bitarnir lentu en við leiddum sjaldan hugann að því.“ (Tilvitnun í bókina Mitt Bottenliv (2020) eftir Lindu Bondestam.)

 

Sérsamdar sögur með vistfræðilegu þema

Safnritið er einstakt að því leyti að auk ritgerða inniheldur það sjö sögur með vistfræðilegum áherslum sem unnar voru í samstarfi nokkurra þeirra myndskreyta og höfunda sem tóku þátt í hinu þriggja daga málþingi „Heimur í umbreytingu“, sem liggur til grundvallar safnritinu. Þar á meðal er sagan „Den befæstede verden“ eftir Ragnheiði Eyjólfsdóttur og Kamilu Slocinska, „Tusen padder gjennom gresset“ eftir Tyru Teodoru Tronstad og Karen Filskov og „Aksel Pedersens Dykk“ eftir Arne Svingen og Lindu Bondestam.

 

Sofie Hermansen Eriksdatter, verkefnisstjóri málþingsins og safnritsins og skrifstofustjóri Bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs, er spennt fyrir verkefninu:

„Það er einstaklega spennandi að fá að eiga þátt í þeim samlegðaráhrifum sem myndast á þessum vettvangi þar sem fræðimenn, rithöfundar og myndskreytar á sviði norrænna barna- og unglingabókmennta fá tækifæri til að sækja sér innblástur og miðla öðrum af þekkingu sinni, verkum og reynslu. Að geta auk þess birt sjö nýjar sögur með sterkum frásögnum og fallegum myndskreytingum, sérstaklega samdar fyrir þetta tilefni, gerir safnritið í ár alveg einstakt.“

 

Einstakt norrænt samstarf

„Þvert á Norðurlönd“ er samstarfsvettvangur þar sem nýjum rannsóknum og þekkingu varðandi barna- og unglingabókmenntir á Norðurlöndum er miðlað. Málþingið sem fram fór haustið 2020, „Heimur í umbreytingu - vistfræðilegir straumar í norrænum barna- og unglingabókmenntum“, var annað í röð þriggja málþinga. Þar komu 35 rithöfundar, myndskreytar, útgefendur, fræðimenn og aðrir sem starfa á sviði norrænna barna- og ungmennabókmennta saman til að rýna í vistfræðilega strauma í norrænum samtímabókmenntum fyrir þennan aldurshóp.

 

Textarnir í safnritinu eru skrifaðir á dönsku, norsku og sænsku.

Um verkefnið

Verkefnið er hluti af „LØFTET“, átaki norrænu menningarmálaráðherranna á sviði barna- og unglingabókmennta sem staðið hefur síðan 2013 þegar stofnað var til norrænu barna- og unglingabókmenntaverðlaunanna. Markmiðið með þessu þriggja ára verkefni þar sem haldið er árlegt málþing er að skapa jarðveg fyrir öfluga þekkingarmiðlun innan norræna barna- og unglingabókasamfélagsins gegnum kraftmikinn, breiðan og þverfaglegan hóp þátttakenda.