Endurnýjun málmbrautarinnar mikilvæg grænum umskiptum á Norðurlöndum

06.07.21 | Fréttir
Malmtog i Kiruna
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Sé ekki hugað nægilega að innviðum getur myndast flöskuháls í grænum umskiptum á Norðurlöndum. Málmbrautin í Norður-Svíþjóð er dæmi um að iðnaðurinn hafi axlað ábyrgð en skortur á viðhaldi torveldar iðnaðinum að leggja sitt af mörkum til markmiðanna í Parísarsamkomulaginu.

Reiknað er með að fjárfestingar í iðnaði í Norrbotten nemi um 700 milljörðum sænskra króna á næstu tveimur áratugum. Umfang dagvöru- og lyfjaflutninga til Norður-Noregs eykst, beinar samgönguleiðir fyrir vöruflutninga frá Narvik til meginlands Evrópu og Kína eru á teikniborðinu og starfsemi í kringum sjávarfæði í Noregi vex fiskur um hrygg.

Langar, þungar og hægfara málmlestir aka eftir einstefnuteinum Málmbrautarinnar, knúnar rafmagni, og eru útskotin að hluta til stutt þar sem lestir geta mæst og hönnunin komin til ára sinna. Þar við bætast langar vöruflutningalestir og styttri og hraðskreiðari farþegalestir. Málmflutningarnir þurfa á frekari tengimöguleikum að halda.

Áætlaðar fjárfestingar LKAB gætu dregið úr losun koldíoxíðs um 35 milljónir tonna.

Bo Krovig, forstjóri stefnumarkandi verkefna hjá LKAB

Samkvæmt sænska námufyrirtækinu LKAB er málmbrautin flöskuháls sem stendur atvinnulífinu fyrir þrifum sem og væntanlegum framkvæmdum í Norrbotten að ógleymdu atvinnulífinu í Norður-Noregi og norðurhluta Finnlands. Bo Krovig, sem er forstjóri stefnumarkandi verkefna hjá LKAB, hikar ekki við að segja brýna nauðsyn krefja fjárfestinga í nýjum innviðum.

„Hætt er við að iðnaðurinn í Norrbotten tapi forystu sinni í evrópskum umskiptum verði málmbrautin ekki endurnýjuð. Þá minnka einnig möguleikarnir á að ná markmiðum Parísarsamkomulagsins. Aðeins áætlaðar fjárfestingar LKAB gætu dregið úr losun koldíoxíðs um 35 milljónir tonna,“ segir Bo Krovig.

Skýr skilaboð til Norðurlandaráðs

LKAB kynnti álitaefnið fyrir Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni í lok júní. Pyri Niemi, formaður nefndarinnar, tekur skýrt fram að grípa verði til ráðstafana og ekki síðar en nú þegar. Hann leggur jafnframt áherslu á að málið snerti ekki eingöngu Svíþjóð heldur alla Norðurkollu.

„Uppbygging málmbrautarinnar er samnorrænt verkefni sem eykur hagvöxt á allri Norðurkollu og í löndunum þremur sem það áhrærir. Hún er mikilvæg vaxandi útflutningi á laxi og öðru sjávarfangi frá Noregi gegnum Svíþjóð, vöruframboði í Norður-Noregi og síauknum farþegaflutningum til að viðhalda hæfni á vinnumarkaðinum. Allt veldur þetta aukinni flutningsþörf og vekur athygli á nauðsyn þess að hafa öfluga innviði,“ segir Pyri Niemi.

Uppbygging málmbrautarinnar er samnorrænt verkefni sem eykur hagvöxt á allri Norðurkollu og í löndunum þremur sem það áhrærir.

Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

Sjálfbærni er lykilorð og innviðir ráða úrslitum um hvort Norðurlönd nái hinum metnaðarfullu markmiðum Parísarsamkomulagsins. Hvort tveggja er með sama hætti mikilvægt til að Norðurlönd geti uppfyllt eigin framtíðarsýn um að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði heims árið 2030. Pyry Niemi tekur skýrt fram að liggi á að setja fyrirsjáanleg rammaskilyrði.

„ Áframhaldandi óvissa um samgöngunetið skapar óvissu um hvort við náum markmiðunum um að hætta notkun jarðefnaeldsneytis og að treysta hagvöxt. Nauðsynlegt er að ráðast í uppbyggingu og endurnýjun á málmbrautinni ef á að mæta loftslagsvandanum sem allur heimurinn á við að etja og samhliða tryggja þær framkvæmdir í iðnaði sem áætlaðar eru. Það þarf að endurræsa Norðurlönd eftir heimsfaraldurinn. Það er orðið tímabært að málmbrautin verði tvöfölduð,“ segir Pyri Niemi að lokum.