Kemur lakari gagnkvæmur tungumálaskilningur niður á samheldni Norðurlandabúa?

19.03.21 | Fréttir
Språkforståelse
Photographer
Unsplash
Við Norðurlandabúar höfum lengi haldið því fram að tungumál og menning tengi okkur böndum. Gegnum söguna hafa Norðurlönd haft tengsl gegnum menningu sína, tungumál og stjórnmál. En hve góðan skilning höfum við á skandinavísku málunum í dag og hvað merkir það fyrir samfélag okkar? Ný skýrsla frá Norrænu ráðherranefndinni gefur svipmynd af norrænu málsamfélagi á meðal ungra Norðurlandabúa.

Tungumálalandslagið er annað í dag en fyrir 70 árum síðan, þegar norrænt samstarf tók á sig formlega mynd. Unga fólkið í dag hefur alist upp í hnattvæddum heimi þar sem enska er allsráðandi og norrænu málin kunna að virðast dálítið fjarlægari en áður. Norrænu málin eru heldur ekki bara norska, sænska og danska. Á Norðurlöndum er einnig töluð íslenska, finnska, grænlenska, færeyska og samíska. Í Finnlandi þurfa finnskumælandi skólabörn að læra sænsku. Á Grænlandi og í Færeyjum læra skólabörn dönsku.

Á þeim grundvelli spurði Norræna ráðherranefndin meira en 2000 ungmenni á aldrinum 16–25 ára í öllum norrænu löndunum hvaða augum þau litu tungumál og menningu, og hve vel þau teldu að þau skildu hvert annað á skandinavísku tungumálunum.

Í mörgum landanna er fjöldi ungmenna ósammála þeirri fullyrðingu að auðvelt sé að skilja dönsku, norsku eða sænsku. Á sama tíma segja næstum allir þátttakendur að enska sé auðveld

Truls Stende, greiningar- og gagnadeild Norrænu ráðherranefndarinnar

Skýrsluna skrifuðu Andrea Skjold Frøshaug og Truls Stende hjá greiningar- og gagnadeildinni á skrifstofu Norrænu ráðherranefndarinnar. Að sögn Truls Stende koma niðurstöður skýrslunnar lítið á óvart, þó að þær sýni að mörgum ungmennum þyki erfitt að skilja skandinavísku málin.

„Miklu munar á löndunum þegar skoðað er hve mörg ungmenni telja auðvelt að skilja skandinavísku málin. Og í mörgum landanna er fjöldi ungmenna ósammála þeirri fullyrðingu að auðvelt sé að skilja dönsku, norsku eða sænsku. Á sama tíma segja næstum allir þátttakendur að enska sé auðveld,“ bendir Stende á.

Niðurstöður

Í könnuninni sem liggur til grundvallar skýrslunni var unga fólkið spurt um skilning og vald á ólíkum tungumálum – með áherslu á skandinavísku tungumálin. Hér má nefna nokkrar niðurstöður:

  • Á Norðurlöndum í heild telja 62 prósent ungs fólks að auðvelt sé að skilja norsku og sænsku.
  • Aðeins 26 prósent telja auðvelt að skilja dönsku.
  • Flestum finnst auðvelt að skilja skandinavísk tungumál í Færeyjum og Noregi.
  • Einkum í Finnlandi, á Grænlandi og Íslandi eru tiltölulega margir ósammála þeirri fullyrðingu að auðvelt sé að skilja eitt eða fleiri skandinavísku tungumálanna.
  • Nánast allt ungt fólk á Norðurlöndum (95 prósent) telur auðvelt að skilja ensku. Áhrif ensku eru almennt mikil. Hvorki meira né minna en 65 prósent svara að stundum sé auðveldara að tjá sig á ensku en á móðurmálinu og 62 prósent svara að enska hafi mikil áhrif á tungumál þeirra.
  • Jafnframt eru tveir af hverjum þremur sammála þeirri fullyrðingu að skilningur á skandinavískum tungumálum sé mikilvægur liður í norrænu samfélagi.

Eigum við í tungumálakreppu?

Niðurstöður skýrslunnar „Er sameiginlegur málskilningur á Norðurlöndum?“ eru í takt við þá þróun sem sést hefur í rannsóknum frá fyrsta áratug 21. aldar. Eldri rannsóknir sýna einnig að unga fólkið skilur skandinavísku verr en áður og hefur mun betra vald á ensku en fyrri kynslóðir. Þetta stafar að einhverju leyti af áhrifum úr ensku og því að tækninýjungar og samfélagsmiðlar hafa breytt samskiptamynstrum ungs fólks, málnotkun þess og menningarneyslu.

Af þessum niðurstöðum mætti ætla að norrænt samstarf ætti í vanda. En kannski er tungumálaskilningur ekki eins mikilvægur fyrir norræna samkennd og við höfum haldið.

Truls Stende, greiningar- og gagnadeild Norrænu ráðherranefndarinnar

Þegar heil 60 prósent ungmenna segjast velja að tala ensku í grannlöndunum fremur en skandinavísku málin mætti halda að hin norræna samkennd væri að líða undir lok, en því er Truls Stende ekki sammála.

„Af þessum niðurstöðum mætti ætla að norrænt samstarf ætti í vanda. En kannski er tungumálaskilningur ekki eins mikilvægur fyrir norræna samkennd og við höfum haldið. Í könnun frá 2017 svöruðu flestir þátttakendur að mikilvægasta ástæða þess að norrænu löndin ættu að eiga í samstarfi væri svipuð samfélagsskipan og sameiginleg gildi, frekar en það að skilja tungumál hinna þjóðanna,“ segir Stende.

Þrátt fyrir að unga fólkið telji að tungumál sé ekki það mikilvægasta í samstarfi norrænu landanna benda niðurstöðurnar einnig til þess að það telji tungumálið mikilvægt þegar kemur að skilningi í persónulegum samskiptum. Niðurstöðurnar gefa því þá mynd að málið snúist ekki um annað hvort eða, heldur frekar um bæði og.

Þau sem vilja vita meira geta lesið skýrsluna á vefnum með því að opna tengilinn hér að neðan. Einnig má hlaða henni niður á PDF-formi.