Saman gegn brotastarfsemi í byggingariðnaðinum

27.10.20 | Fréttir
Byggeplads i Reykjavik
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Öll norrænu löndin bera hag af því að vinna gegn brotastarfsemi í byggingariðnaðinum. Stofnun landsbundinna skráa yfir fyrirtæki í byggingariðnaði er ein af mörgum aðgerðum sem Norræn vinstri græn leggja til. Skrárnar þurfa að aðgengilegar bæði einkaaðilum og opinberum aðilum á öllum Norðurlöndum til þess að þeir geti sigtað út fyrirtæki sem stunda skipulagða brotastarfsemi.

Í framhaldi af tillögu flokkahópa Norrænna vinstri grænna mun Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vinna að því að fá ríkisstjórnir landanna til að taka brotastarsemi í byggingariðnaði fastari tökum.

Norrænt samstarf hefur gert stéttarfélögum í Svíþjóð, Danmörku og Noregi kleift að afhjúpa félagsleg undirboð og slæmar vinnuaðstæður innan byggingariðnaðarins. Aðgerðirnar hafa meðal annars sýnt fram á peningaþvætti, mansal, skattalagabrot, vangreiðslur opinberra gjalda og kennitöluflakk.

Þessi tegund skipulagðrar brotastarfsemi er skaðleg bæði starfsmönnum og efnahagnum.

Lorena Delgado Varas, Norrænum vinstri grænum

Þegar Norðurlandaráð spurði ríkisstjórnir Norðurlanda um málefnið árið 2019 sýndu svörin að yfirvöld landanna búa ekki yfir nægilegum úrræðum til að geta fylgst með þróun í tengslum við alþjóðlega brotastarfsemi. Það var Lorena Delgado Varas, fulltrúi í Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni og Norrænum vinstri grænum, sem kynnti tillöguna fyrir hönd flokkahópsins. Hún er ánægð með að nefndin muni nú vinna frekar með tillöguna.

„Vinnumarkaðir Norðurlanda byggja á trausti og virðingu fyrir reglum. Nú þegar við sjáum norræna vinnumarkaði almennt og sérstaklega byggingariðnaðinn verða fyrir árásum aðila sem stunda glæpastarfsemi verðum við að grípa til aðgerða. Þessi tegund skipulagðrar brotastarfsemi er skaðleg bæði starfsmönnum og efnahagnum. Við getum aðeins varðveitt norræna traustið ef við erum öll þess fullviss að reglunum sé fylgt,“ segir Lorena Delgado Varas.

    Tillagan

    Baráttan gegn brotastarfsemi í byggingariðnaði hefur verið rædd á fjölda funda í Norðurlandaráði á undanförnum árum. Norðurlandaráð hefur einnig samþykkt yfirlýsingu um aðgerðir gegn slíkri brotastarfsemi en niðurstöðurnar eru ekki enn ljósar. Nú telja Norræn vinstri græn að tími sé kominn til að fara frá orðum til aðgerða. Nefndin er einhuga um þetta og vill því halda áfarm að vinna að tillögunni um að ríkisstjórnir Norðurlanda:

    • Komi á fót landsbundnum skrám yfir fyrirtæki í byggingariðnaði til nota í opinberum útboðum og útboðum einkaaðila.
    • Skrárnar skulu innihalda eftirfarandi upplýsingar: Skatta einstaklinga og fyrirtækja, raunverulegt eignarhald fyrirtækja, ársreikninga fyrirtækja, upplýsingar um gjaldþrot og gjaldþrotasögu með og án persónuupplýsingum og upplýsingar um greiðslu virðisaukaskatts, skatta og opinberra gjalda.
    • Bjóði upp á sameiginlegan norrænan aðgang að landsbundnu skránum.
    • Uppfæri núverandi löggjöf til að gera landsbundnu skrárnar mögulegar sem og norrænan aðgang að þeim.
    • Komi á endurskoðunarskyldu fyrir öll fyrirtæki, þar á meðal einstaklingsrekstur.

    Augljóst er að eitthvað þarf að gera og sem stendur virðast aðilar sem stunda glæpastarfsemi vera skrefi á undan yfirvöldum.

    Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

    Eitthvað þarf að gera

    Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar, telur þetta vera góða og vel unna tillögu frá Norrænum vinstri grænum. Hann hlakkar til frekari vinnu nefndarinnar að tillögunni á næsta fundi hennar í janúar 2021. Þá mun nefndin einnig bjóða norrænu vinnumarkaðsráðherrunum að fá kynningu á vinnunni gegn misferli og kerfisbundinni misnotkun á vinnumarkaði.

    „Augljóst er að eitthvað þarf að gera og sem stendur virðast aðilar sem stunda glæpastarfsemi vera skrefi á undan yfirvöldum. Ríkisstjórnir Norðurlanda verða að gera eitthvað í þessu máli. Í þessari baráttu erum við sterkari þegar við stöndum saman,“ segir Pyry Niemi.