Leiðbeiningar: flutt frá Grænlandi

Flytte fra Danmark til udlandet
Hér eru helstu atriði sem þú þarft að gæta að við undirbúning á flutningi þínum frá Grænlandi til annars norræns lands.

Hafir þú ríkisborgararétt í Danmörku eða öðru norrænu landi áttu rétt á að flytja til hvaða norræna lands sem er án þess að sækja um vegabréfsáritun, atvinnuleyfi eða dvalarleyfi. Einungis er hægt að vera skráð/ur í þjóðskrá í einu norrænu landi í einu. Fylgdu reglum fyrir skráningu í þjóðskrá þess lands sem þú flytur til.

Þú þarft að skrá þig í þjóðskrá þíns nýja búsetulands þegar þú:

  • Flytur til Danmerkur, Noregs, Færeyja eða Íslands í meira en sex mánuði
  • Flytur til Svíþjóðar í meira en 12 mánuði

Búir þú í tveimur löndum samtímis skaltu skrá þig í þjóðskrá þess lands sem þú dvelur meira í.

Hvað þarf að hafa í huga þegar flutt er til Danmerkur?

Við flutninga til Danmerkur þarf að tilkynna nýju búsetusveitarfélagi um flutningana innan við fimm dögum eftir komuna til Danmerkur. Það gerir þú með rafræna auðkenninu NemID á síðunni Borger.dk. Hafir þú ekki NemID skaltu leita til borgaraþjónustu þess sveitarfélags sem þú flytur til.

Vinna

Athugaðu að menntun sem fólk hefur aflað sér á Grænlandi er ekki endilega viðurkennd annars staðar á Norðurlöndum. Þú getur því lent í því að þurfa að bæta við þig menntun til að fá atvinnu í nýja búsetulandinu. Best er að kynna sér möguleikana fyrirfram.

Það sama á við ef þú vinnur innan starfsgreinar þar sem sérstakra starfsréttinda er krafist.

Börn

Mundu að skrá börn þín í dagvistun og skóla um leið og þú veist hvert þið flytjið. Kynntu þér einnig þær bætur frá hinu opinbera sem í boði eru fyrir barnafjölskyldur.

Fáir þú greitt barnameðlag sem einstætt foreldri frá grænlensku sveitarfélagi skaltu hafa meðlagsúrskurðinn meðferðis í nýja sveitarfélagið.

Húsnæði

Borgir þú sjálf/t/ur fyrir rafmagn, vatn og hita í húsnæði þínu á Grænlandi skaltu muna að afskrá þig hjá Nukissiorfiit til að forðast að greiða fyrir notkunina eftir að þú ert flutt/ur. Það geturðu gert rafrænt með NemID-auðkenni þínu á vefsvæði borgaraþjónustunnar Sullissivik.

Hafir þú pantað sorphirðuþjónustu skaltu líka muna að afpanta hana. Það geturðu gert með NemID-auðkenni þínu á vefsvæði borgaraþjónustunnar Sullissivik eða á þjónustuskrifstofu sveitarfélagsins.

Áframsendur póstur

Tele-Post áframsendir póst á nýja heimilisfangið þitt í sex mánuði eftir flutninga, hafir þú skilað inn eyðublaði með nýju heimilisfangi.

Almannatryggingar

Flytjir þú til annars norræns ríkis til að vinna færðu aðild að almannatryggingum í nýja landinu frá og með þeim degi sem þú hefur störf. Hafðu samband við viðeigandi yfirvöld í landinu sem þú flytur til að ganga frá almannatryggingum þínum.

Lífeyrisgreiðslur

Hafir þú greitt í lífeyrissjóð á Grænlandi getur þú valið að láta peningana liggja í þeim sjóði uns þú ferð á eftirlaun. Þú getur einnig látið millifæra lífeyrissparnaðinn yfir í annan lífeyrissjóð utan Grænlands. Athugaðu að gjald er innheimt fyrir millifærslu lífeyrissparnaðar.

Ökuskírteini

Flytjir þú til Danmerkur gildir grænlenska ökuskírteinið þitt í 180 daga frá flutningi. Eftir það þarftu að framvísa dönsku ökuskírteini. Til að skipta grænlenska skírteininu út fyrir danskt þarftu að þreyta ökupróf eða fara í tvo ökutíma hjá dönskum ökukennara.

Flytjir þú til annars norræns lands með grænlenskt ökuskírteini þarftu að sækja um að fá því skipt út í nýja landinu. Löndin geta haft mismunandi reglur um hvernig á að skipta grænlensku ökuskírteini út fyrir skírteini gefið út af viðkomandi landi.

Flytjir þú til lands utan ESB/EES þarft þú að hafa alþjóðlegt ökuskírteini. Hafir þú tekið grænlenskt ökupróf getur þú ekki fengið alþjóðlegt ökuskírteini út á það. Þú getur hins vegar fengið alþjóðlegt ökuskírteini út á danskt ökupróf.

Tungumálanámskeið

Afar lítið er um grænlenskumælandi fólk utan Grænlands. Þú ættir því að hugleiða hvort þú hefur þörf fyrir tungumálakennslu áður en þú flytur eða við komuna til nýja landsins. Þó að þú talir góða dönsku gæti verið gott að sækja námskeið í sænsku eða norsku ef þú flytur til annars norræns lands en Danmerkur.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna