Tungumálanámskeið fyrir innflytjendur í Svíþjóð

Mand læser bog i tog
Photographer
Yadid Levy / Norden.org
Það getur verið góð ákvörðun að taka námskeið í sænsku ef þú hyggst búa eða starfa í Svíþjóð og vilt geta tjáð þig betur. Hér eru gefnar upplýsingar um sænskukennslu og dönsku-, finnsku-, íslensku- og norskunámskeið í Svíþjóð.

Ef þú flytur til Svíþjóðar

Allir sem flytja til Svíþjóðar eiga rétt á ókeypis sænskukennslu sem nefnist „utbildning i svenska för invandrare“, skammstafað SFI. Í Svíþjóð er mikilvægt að kunna undirstöðuatriðin í sænsku til að forðast misskilning og geta spjarað sig í hversdagslífinu.

Margar ástæður geta verið fyrir því að þurfa að læra að tala og skrifa sænsku eða annað Norðurlandamál.

Í Svíþjóð er hægt að sækja sér nám fullorðinna í sænsku fyrir innflytjendur (SFI) til að afla sér grunnkunnáttu í sænsku. Sænskan auðveldar þér að eiga í munnlegum og skriflegum samskiptum í hversdagslífinu, félagslífi, námi og vinnu.

Hafðu þó í huga að í Svíþjóð er litið á kunnáttu í dönsku og norsku sem undirstöðu í sænsku. Það merkir að danskir og norskir ríkisborgarar eiga ekki rétt á SFI-námi þar sem tungumál landanna eru það lík að það telst ekki vera mikilvægt. Tungumálanám í sænsku er þó ekki forsenda þess að geta starfað, stundað nám eða búið í Svíþjóð.

SFI-nám í Svíþjóð

Ef þú flytur til Svíþjóðar áttu rétt á að stunda sænskunám fyrir innflytjendur (svenska för invandrare, skammstarfað  SFI) ef þú:

  • átt lögheimili í sveitarfélagi í Svíþjóð,
  • ert orðin(n) 16 ára,
  • og hefur enga undirstöðuþekkingu í sænskri tungu.

SFI-námið er þrepaskipt. Þrepið sem þú tekur fer eftir menntun þinni og prófi sem þú tekur.

  • Námsleið 1: Námskeið A – B eru fyrir nemendur með enga eða stutta skólagöngu að baki í heimalandinu.
  • Námsleið 2: Námskeið B – C eru fyrir hægfara nemendur eða meðalnemendur.
  • Námsleið 3: Námskeið C – D eru fyrir nemendur sem eru fljótir að tileinka sér nám, eru vanir að læra og geta unnið sjálfstætt.

Gefnar eru einkunnir eftir námskeiðin A, B, C, D. Ef þú nærð ekki lágmarkseinkunn (godkänd) færðu skírteini þar sem fram kemur hvað þú kannt miðað við kröfur sem gerðar voru á námskeiðinu.

Sænska fyrir innflytjendur gefur þér undirstöðu í sænskri tungu og um sænskt samfélag.

Þú getur sótt um SFI-nám hjá sænska sveitarfélaginu þar sem þú ert með lögheimili. Þú þarft að mæta í eigin persónu og sækja um hjá sveitarfélaginu.

Finnar sem búa í Finnlandi en starfa í Svíþjóð

Ef þú ert finnskur ríkisborgari og býrð í Finnlandi en starfar í Svíþjóð og ef þig vantar undirstöðukunnáttu í sænsku áttu rétt á sænskukennslu í því sveitarfélagi sem þú starfar í.

Þú átt rétt á að fá sænskukennslu frá og með seinni helmingi þess árs sem þú verður 16 ára.

Sveitarfélagið veitir þér nánari upplýsingar um það nám sem er í boði.

Kennsla í norrænum tungumálum í Svíþjóð

Ef þú hyggst stunda nám í sænsku eða dönsku, finnsku, norsku eða íslensku í Svíþjóð geturðu leitað upplýsinga um námskeið sem eru í boði hjá einhverjum hinna tíu námsflokka, sænskum háskólum, lýðháskólum, einkaaðilum eða sveitarfélaginu þínu.

Margir staðir bjóða upp á námskeið í bæði almennri sænsku og sérnámskeið fyrir fólk sem þarf að nota tungumálið í vinnu, til dæmis í heilbrigðisþjónustu. Einnig er hægt að velja um samtalsnámskeið, framburðarnámskeið og málfræðinámskeið á hraða sem hentar þér.

Sumir námsflokkar bjóða einnig upp á sænskukennslu sem sniðin er að nemendum sem tala reiprennandi dönsku eða norsku.

Móðurmálskennsla og sænskukennsla fyrir börn í Svíþjóð

Reglur um móðurmálskennslu í Svíþjóð eru mismunandi eftir því hvort um er að ræða þjóðtungu minnihlutahóps eða annað móðurmál.

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna