Nám á háskólastigi í Finnlandi

Korkea-asteen koulutus Suomessa
Hér er fjallað um bóknám og iðnnám á háskólastigi í Finnlandi og um Norræna samninginn um aðgang að æðri menntun.

Í Finnlandi er hægt að stunda nám á háskólastigi í bóklegum greinum og iðngreinum. Kennt er á finnsku, sænsku og ensku.

Sótt er um háskólanám á vefsvæðinu  Study in Finland (Opintopolku), en þar eru einnig upplýsingar um námsframboð á öðrum skólastigum. Nánari upplýsingar um umsóknarferli eru á síðunni Að sækja um nám á háskólastigi í Finnlandi.

Iðnnám á háskólastigi

Finnskir iðnháskólar veita menntun í iðngreinum og fleiri greinum. Menntaskóla- eða iðnskólapróf veitir réttindi til náms við iðnháskóla. Sótt er um skólavist að vori eða hausti gegnum  sameiginlegt umsóknakerfi  og yfirleitt fara fram inntökupróf. Námsframboðið er fjölbreyttara þegar sótt er um að vori.

Iðnnám á háskólastigi er án endurgjalds fyrir ríkisborgara aðildarlanda ESB og EES og Sviss. Ríkisborgarar annarra landa gætu þurft að greiða skólagjöld.

Í flestum finnskum iðnháskólum er kennt á finnsku en í sumum skólum fer þó öll kennsla fram á sænsku. Að auki bjóða margir iðnháskólar upp á námsleiðir á ensku. Skólar á háskólastigi gera mismunandi kröfur um tungumálakunnáttu og er umsækjendum ráðlagt að kynna sér stefnu þess skóla sem sækja á um nám við.

Það tekur þrjú og hálft til fjögur og hálft ár að ljúka grunnnámi við iðnháskóla, að meðtöldu starfsnámi í eina önn. Til að fá inngöngu í framhaldsnám við iðnháskóla þarf nemandi að hafa lokið grunnnámi sem veitir réttindi til náms við viðkomandi deild og auk þess starfað innan viðkomandi greinar í að minnsta kosti þrjú ár. Það tekur eitt til eitt og hálft ár í fullu námi að ljúka framhaldsnámi við iðnháskóla.

Háskólanám

Yfirleitt er sótt um nám á finnsku og sænsku gegnum  sameiginlegt umsóknakerfi fyrir allt landið. Margar námsleiðir á meistarastigi, einkum þær enskumælandi, eru þó ekki inni í sameiginlega umsóknakerfinu heldur þarf að sækja um þær gegnum viðkomandi skóla. 

Viðmiðunartími til að ljúka grunnnámi í háskóla er þrjú ár en tvö ár til að ljúka meistaranámi. Taka skal að hámarki sjö ár samanlagt að ljúka grunn- og meistaranámi. Venjan er að nemendur ljúki fyrst grunnnámi og öðlist þannig réttindi til að stunda meistaranám við sömu deild. Að meistaranámi loknu er hægt að sækja um frekara framhaldsnám.

Háskólar eru ýmist ein- eða tvítyngdir (á finnsku og/eða sænsku). Eins er töluvert um kennslu og rannsóknir á ensku.

Háskólanám er án endurgjalds fyrir ríkisborgara frá aðildarlöndum ESB og EES og Sviss. Ríkisborgarar annarra landa gætu þurft að greiða skólagjöld. Nemendum sem stunda grunn- eða framhaldsnám við háskóla er skylt að eiga aðild að nemendafélagi og greiða því félagsgjöld.

Norræni samningurinn um aðgang að æðri menntun

Norræni samningurinn um aðgang að æðri menntun tryggir öllum norrænum ríkisborgurum umsóknarrétt til náms við opinberar háskólastofnanir í öðrum norrænum löndum á sömu eða sambærilegum forsendum og heimamönnum. Samkvæmt samningnum geta finnskir háskólar viðurkennt nám, sem lokið hefur verið í öðru norrænu landi, sem hluta af finnskri háskólagráðu. Sá skóli sem sótt er um hjá sér þá um að meta fyrra nám umsækjanda. Það borgar sig að kanna með góðum fyrirvara hvaða fylgiskjala er krafist til að háskóli í Finnlandi geti viðurkennt menntun frá öðru norrænu landi.

Hafðu samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna