Nám á háskólastigi í Finnlandi

Korkea-asteen koulutus Suomessa
Hér finnur þú upplýsingar um háskóla og iðnháskóla í Finnlandi og hvernig sækja á um inngöngu í þá. Einnig segir frá Norræna samningnum um aðgang að æðri menntun, sem tryggir að nám sem þú lýkur sé viðurkennt í öllum norrænu löndunum.

Í Finnlandi eru tvenns konar skólar á háskólastigi: iðnháskólar og háskólar. Kennt er á finnsku, sænsku og ensku.

Sótt er um háskólanám á þjónustuvefnum  StudyInfo (Opintopolku), en þar eru einnig upplýsingar um námsframboð á öðrum skólastigum.

Á þessari síðu hefur verið safnað saman upplýsingum um nám á háskólastigi, hvernig sækja má um það, um skiptinám og annað sem tengist námi á háskólastigi. Ef þú hefur áhuga á háskólanámi á Álandseyjum skaltu kynna þér efni síðunnar Leiðbeiningar: Nám á Álandseyjum.

Iðnnám á háskólastigi

Nám í finnskum iðnskólum er skipulagt út frá þörfum atvinnulífsins. Finnskir iðnháskólar veita menntun í iðngreinum og fleiri greinum. Menntaskóla- eða iðnskólapróf veitir réttindi til náms við iðnháskóla. Námið í iðnháskólum er meira í ætt við menntaskólanám en námið í háskólunum og í því felast fimm mánuðir af starfsnámi. Upplýsingar um einkunnagjöf eru á síðunni Einkunnaskalar í Finnlandi.

Iðnnám á háskólastigi er án endurgjalds fyrir ríkisborgara aðildarlanda ESB og EES og Sviss. Ríkisborgarar annarra landa gætu þurft að greiða skólagjöld.

Í flestum finnskum iðnháskólum er kennt á finnsku en í sumum skólum fer þó öll kennsla fram á sænsku. Að auki bjóða margir iðnháskólar upp á námsleiðir á ensku. Skólar á háskólastigi gera mismunandi kröfur um tungumálakunnáttu og er umsækjendum ráðlagt að kynna sér stefnu þess skóla sem sækja á um nám við.

Það tekur 3,5–4,5 ár að ljúka grunnnámi við iðnháskóla, að meðtöldu starfsnámi í eina önn. Til að fá inngöngu í framhaldsnám við iðnháskóla þarf nemandi að hafa lokið grunnnámi sem veitir réttindi til náms við viðkomandi deild og auk þess starfað innan viðkomandi greinar í að minnsta kosti tvö ár. Það tekur 1–1,5 ár í fullu námi að ljúka framhaldsnámi við iðnháskóla.

Nánari upplýsingar um iðnháskólanám eru á vefsvæði StudyInfo.

Háskólanám

Kennsla í háskólanámi grundvallast á fræðilegum eða listrænum rannsóknum. Háskólanámi er ætlað að efla færni nemenda til vísindalegrar hugsunar. Háskólagráða samanstendur yfirleitt af námi í aðal- og aukafögum, námi í tungumálum og tjáskiptum, starfsnámi og lokaritgerð. Upplýsingar um einkunnagjöf eru á síðunni Einkunnaskalar í Finnlandi.

Viðmiðunartími til að ljúka grunnnámi (kandídatsnámi) í háskóla er þrjú ár, en tvö ár til að ljúka framhaldsnámi (meistaranámi). Í flestum námsleiðum á það að taka samanlagt sjö ár að hámarki að ljúka grunn- og meistaranámi. Að meistaranámi loknu er hægt að sækja um frekara framhaldsnám, svo sem doktorsnám eða löggildingarnám.

Háskólar eru ýmist ein- eða tvítyngdir (á finnsku og/eða sænsku). Eins er töluvert um kennslu og rannsóknir á ensku.

Háskólanám er án endurgjalds fyrir ríkisborgara frá aðildarlöndum ESB og EES og Sviss. Ríkisborgarar annarra landa gætu þurft að greiða skólagjöld. Nemendum sem stunda grunn- eða framhaldsnám við háskóla er skylt að eiga aðild að nemendafélagi og greiða því félagsgjöld.

Nánari upplýsingar um háskólanám eru á vefsvæði StudyInfo.

Að sækja um nám á háskólastigi í Finnlandi

Umsóknartími um nám á finnsku og sænsku í iðnháskólum og háskólum er að vori og hausti í sameiginlegri rafrænni umsóknalotu á vefsvæðinu StudyInfo. Fyrir sumar námsleiðir á öðrum tungumálum er umsóknarlota í janúar. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði StudyInfo.

Margar námsleiðir á meistarastigi, einkum þær enskumælandi, eru þó ekki inni í sameiginlega umsóknakerfinu heldur þarf að sækja um þær gegnum viðkomandi skóla. Nánari upplýsingar um námsleiðir á ensku eru á vefsvæði StudyInfo.

Norræni samningurinn um aðgang að æðri menntun tryggir öllum íbúum Norðurlanda jafnan umsóknarrétt til náms við opinberar háskólastofnanir í öðrum norrænum löndum á sömu eða sambærilegum forsendum og heimamönnum. Þú getur því sótt um nám í iðnháskóla eða háskóla í sömu umsóknalotu og finnskir umsækjendur.

Iðnnám á háskólastigi

Stærstur hluti nemenda í grunnnám í iðnháskólum er valinn á grundvelli útskriftar úr framhaldsskóla, eða út á útskriftarskírteini sitt. Aðrir nemendur eru valdir á grundvelli inntökuprófa.

Ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi í öðru landi en Finnlandi og hefur ekki European Baccalaureate-gráðu (EB) eða International Baccalaureate-gráðu (IB) getur þú ekki fengið inngöngu í nám á háskólastigi í Finnlandi út á stúdentsskírteini eitt og sér. Þá getur þú fengið inngöngu á grundvelli inntökuprófs.

Einnig er sótt um inngöngu í iðnháskóla í sameiginlegri rafrænni umsóknalotu.

Að sækja um háskólanám

Stærstur hluti nemenda í háskólum er valinn á grundvelli stúdentsprófs, eða út á útskriftarskírteini sitt. Aðrir nemendur eru valdir á grundvelli inntökuprófa eða eftir öðrum leiðum, svo sem á grundvelli námsárangurs í opna háskólanum.

Ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi í öðru landi en Finnlandi og hefur ekki European Baccalaureate-gráðu (EB) eða International Baccalaureate-gráðu (IB) getur þú ekki fengið inngöngu í háskóla í Finnlandi út á stúdentsskírteini eitt og sér. Þá getur þú fengið inngöngu á grundvelli inntökuprófs.

Almenna reglan í finnskum háskólum er að með inngöngu í grunnnám í háskóla öðlist fólk einnig rétt til að stunda þar framhaldsnám. Doktorsnám er ekki með í sameiginlegum umsóknalotum háskólanna. Um það er sótt beint til þess háskóla sem um ræðir. Nánari upplýsingar eru á vefsvæði StudyInfo.

Annað sem hafa þarf í huga

Ef þú hefur lokið framhaldsskólanámi annars staðar en í Finnlandi þarftu að senda afrit af úskriftarskírteini með umsókn þinni. Ef skírteinið er á öðru tungumáli en finnsku, sænsku eða ensku þarft þú líka að senda löggilta þýðingu á finnsku, sænsku eða ensku.

Menntastofnanir ráða sjálfar forsendum sínum fyrir nemendavali og forsendurnar geta verið mismunandi eftir háskólum og námsleiðum. Á sumum námsleiðum eru takmarkanir sem tengjast viðkomandi starfssviði. Sumar námsleiðir taka aðeins inn nemendur sem hafa nægilega hreysti og líkamlega færni til að sinna verklegum þáttum námsins. Í sumum tilvikum er þess krafist að nemendur framvísi vottorði um að þeir hafi staðist vímuefnapróf, eða hreinu sakavottorði. Upplýsingar um takmarkanir sem tengjast tilteknum starfsgreinum er að finna í lýsingu á viðkomandi námi.

Athugaðu að ekki er víst að umsækjendur í nám verði boðaðir sérstaklega í inntökupróf, heldur þurfa þeir sjálfir að leita sér upplýsinga um stað og stund prófs fyrir það nám sem sótt var um. Þær upplýsingar er yfirleitt auðvelt að finna á heimasíðum háskólanna.

Langar þig í skiptinám til Finnlands eða frá Finnlandi til annars lands?

Í háskólanámi í Finnlandi hefur þú möguleika á að taka hluta af náminu í öðru landi. Yfirleitt er sótt um skiptinám gegnum þann skóla sem viðkomandi er í. Þekktustu skiptinámsáætlanirnar eru Erasmus+ og Nordplus. Þú getur fengið námsstyrk til skiptináms, og auk þess getur styrkur frá þínum háskóla verið falinn í skiptiáætluninni. Lengd skiptináms er yfirleitt ein önn eða eitt skólaár. Fáðu nánari upplýsingar um skiptinám á háskólastigi hjá þínum háskóla eða kynntu þér málið á vefsvæðinu Maailmalle.net.

Að skiptinámi loknu skaltu sækja um að einingarnar sem þú laukst í skiptináminu verði metnar inn í námið þitt heima. Nánari upplýsingar færðu hjá þinni menntastofnun.

Hvað þarf ég að vita um nám í Finnlandi?

Ef þú kemur til náms í Finnlandi er gott að hafa upplýsingar um húsnæðismál námsmanna, fjármögnun náms og skattlagningu, starfsnám, heilbrigðisþjónustu og almannatryggingar, auk afslátta fyrir námsmenn í Finnlandi. Við höfum safnað saman upplýsingum um þessi atriði á síðuna Leiðbeiningar: Nám í Finnlandi.

Viðurkenning á prófgráðum

Háskólar ráða sjálfir hvernig þeir meta nám erlendis inn í námsleiðir sínar. Norræni samningurinn um æðri menntun tryggir þó að háskólar á Norðurlöndum viðurkenni nám sem lokið er við aðra norræna háskóla.

Upplýsingar faglega viðurkenningu á prófgráðum í Finnlandi, eða því í hvaða tilvikum þarf að sækja um sérstakan úrskurð til að prófgráða frá öðru landi verði viðurkennd í Finnlandi eða starfsréttindi þar staðfest, eru á síðunni Fagleg viðurkenning á prófgráðum annarra landa í Finnlandi.

Fagleg viðurkenning á prófgráðum frá öðrum löndum í Finnlandi

Háskólar ráða sjálfir hvernig þeir meta nám erlendis inn í námsleiðir sínar. Það borgar sig að kanna með góðum fyrirvara hvaða fylgiskjala er krafist til að háskóli í Finnlandi geti viðurkennt menntun frá öðru norrænu landi.

Nánari upplýsingar um viðurkenningu á námi frá öðru landi í Finnlandi eru á vefsvæði fræðsluráðs í Finnlandi. Nánari upplýsingar um námsleiðir á ensku eru á vefsvæðinu StudyinFinland.

Viðurkenning á prófgráðum frá öðrum löndum í Finnlandi

Það er alþjóðlegt verklag við viðurkenningu prófgráða að sú stofnun sem tekur á móti námsfólki sér um að meta prófgráðu erlendis frá og þá hæfni sem hún veitir. 

Einnig má óska eftir vitnisburði um finnska námsgráðu frá Fræðsluráði. Fræðsluráð veitir, gegn gjaldi, faglegan vitnisburð til alþjóðlegrar notkunar um námsgráður frá Finnlandi. Slíkur vitnisburður er veittur um nám sem hefur verið lokið og sem fellur undir opinbert námsskipulag Finnlands.

Nánari upplýsingar eru á vefsvæði Fræðsluráðs í Finnlandi (Opetushallitus).

Nám á háskólastigi í öðrum norrænum löndum

Á þessum síðum finnur þú upplýsingar um nám á háskólastigi í öðrum norrænum löndum.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna