Háskólamenntun á Íslandi

Aðgangur að háskólamenntun á Íslandi
Hér er að finna upplýsingar um háskólamenntun á Íslandi.

Háskólar á Íslandi

Þeir sem hyggja á nám í háskóla skulu hafa lokið stúdentsprófi eða jafngildu prófi. Leyfilegt er að ákveða sérstök inntökuskilyrði í háskóla og láta nemendur gangast undir inntökupróf eða stöðupróf. Norrænir ríkisborgarar eiga sama rétt til að sækja um nám og íslenskir ríkisborgarar.

Á Íslandi eru starfandi sjö háskólar ásamt nokkrum háskólasetrum á landsbyggðinni. Þar af eru fimm þeirra ríkisháskólar. Allar nánari upplýsingar um inntökuskilyrði og inntökureglur háskóladeilda ásamt kennslu- og námskrám, umsóknareyðublöðum og upplýsingum um skráningar- og skólagjöld er að finna á vefjum háskólanna.

Hvað þarftu að vita áður en þú hefur háskólanám á Íslandi?

Tungumálakunnátta

Meginreglan er sú að nám í íslenskum menntastofnunum fer fram á íslensku. Undantekningar eru þó á þessu bæði í grunn- og framhaldsnámi. Nám í erlendum tungumálum fer þannig að mestu leyti fram á viðkomandi tungumáli og eins eru í boði örfáar námsleiðir á grunnstigi sem kenndar eru alfarið á ensku.

Margir háskólar bjóða upp á einstök námskeið eða heilar námsleiðir á ensku. Flestir háskólar og margar deildir innan þeirra eru einnig með alþjóðafulltrúa sem aðstoðar erlenda nema. Námsefni í flestum fögum er á ensku, hins vegar er námsefni í staðbundnum fögum eins og lögfræði á íslensku. Í vissum fögum er hluti námsefnis á norðurlandatungumálum.

Fjármögnun náms

Í einkareknum háskólum eru greidd skólagjöld en í ríkisreknum háskólum er greitt skráningargjald.

Menntasjóður námsmanna (LÍN) getur veitt námsmönnum lán á meðan á námstíma stendur. 

Almennar upplýsingar um nám á Íslandi

Aðgangur að grunnnámi í háskóla

Almennu reglurnar eru þær að umsækjendur sem hefja nám í háskólum á Íslandi skulu hafa lokið stúdentsprófi, eða öðru lokaprófi á þriðja hæfniþrepi samkvæmt aðalnámskrá framhaldsskóla, eða sambærilegu prófi frá erlendum skóla. Hver háskóli fyrir sig setur sér reglur varðandi undanþágur frá þessum reglum. 

Umsóknarfrestir eru mismunandi milli háskóla og því er mælt með því að skoða vel upplýsingar frá hverjum skóla fyrir sig. 

Hvernig sækirðu um háskólanám á Íslandi?

Allar nánari upplýsingar um inntökuskilyrði og inntökureglur háskóladeilda ásamt kennslu- og námskrám, umsóknareyðublöðum og upplýsingum um skráningar- og skólagjöld er að finna á vefjum háskólanna.

Aðgangur að framhaldsnámi í háskóla

Við alla háskóla á Íslandi er hægt að stunda framhaldsnám að undangengnu grunnnámi. Hægt er að velja um fjölda námsleiða og best að skoða vel heimasíður skólanna til þess að lesa um námsgreinar og aðgangskröfur. 

Erlent samstarf háskóla á Íslandi

Háskólar á Íslandi eru virkir í erlendu samstarfi, t.d. á sviði Erasmus og Nordplus. Best er að skoða heimasíður skólanna til þess að fá upplýsingar um alþjóðlegt samstarf hvers skóla. Innan hvers skóla er starfrækt alþjóðadeild sem getur gefið nánari upplýsingar. 

Háskólamenntun á Norðurlöndunum

Nánari upplýsingar

Nánari upplýsingar um háskólamenntun á Íslandi má finna á heimasíðum háskólanna og á vefsíðu Menntamálstofnunnar. 

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna