Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs: Sex áratugir af bókmenntum sem auðga andann

31.08.22 | Fréttir
Collage litteraturpriset 60 år
Photographer
norden.org
Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs hafa verið veitt frá árinu 1962 og fagna því 60 ára afmæli á þessu ári. Í sex áratugi hafa bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs verið veitt til bókmenntaverka sem feta nýjar slóðir og setja ný bókmenntaleg viðmið.

Í ár hlaut danski rithöfundurinn Solvej Balle* verðlaunin fyrir skáldsöguna „Om udregning af rumfang I, II og III“, verk sem dómnefndin lýsti sem meistarverki til tímans. Í fyrra hreppti Niviaq Korneliussen verðlaunin fyrir „Naasuliardarpi“ (Blomsterdalen), fyrst grænlenskra höfunda, fyrir fallega en jafnframt sársaukafulla og óvægna sögum um ást, vináttu og sjálfsvíg meðal ungs fólks á Grænlandi. Niviaq Korneliussen:

„Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs blésu nýju lífi í skáldsögu mína, Blomsterdalen, sem mér fannst hún verðskulda. Verðlaunin ýttu undir enn frekari umræður um þau vandamál sem ég kom inn á og einkum á Grænlandi höfðu þau mikla þýðingu varðandi umræðuna um það hvað hægt er að gera með bókmenntum. Með því að hljóta svona mikla viðurkenningu hef ég fengið tækifæri til að vinna áfram sem höfundur og næði til að einbeita mér að nýjum bókaverkefnum.“ Hún heldur áfram:

„Þetta var í fyrsta sinn sem grænlenskur höfundur hreppti bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs og það hafði það í för með sér að grænlenskar bókmenntir hafa fengið aukna athygli á Norðurlöndum. Það var kominn tími til því við erum uppi á tímum þegar við Grænlendingar höfum loksins fengið að segja sögu okkar sjálfra.“

Nýjar leiðir í bókmenntum

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs, sem einnig njóta athygli á alþjóðlegum vettvangi, hafa mikil áhrif um öll Norðurlönd og vekja áhuga norrænna lesenda á bókmenntaverkum sem þau hefðu annars ekki komist í kynni við. Sigurverkin hafa í gegnum tíðina endurspeglað samtíma sinn og opnað nýjar leiðir í bókmenntum. Í þessi 60 ár hefur það haft mikla þýðingu fyrir höfunda að hljóta bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs.

„Með bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fékk ég nýtt hugrekki. Hugrekki til þess að skrifa það sem ég þarf að skrifa. Þannig að það passi mér. Án tillits til hefða og venja. Beint frá hjartanu.“ Þetta segir Kirsten Thorup, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna „Erindring om kærligheden“ árið 2017.

Verðlaunin höfðu einnig mikla þýðingu fyrir Einar Má Guðmundsson sem hlaut þau árið 1995 fyrir verk sitt, Engla alheimsins: „Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru afar þýðingarmikil verðlaun, ekki aðeins innan Norðurlanda heldur eru þau jafnframt góður stökkpallur til annarra svæða í heiminum. Sjálfur hlaut ég mikla athygli í tengslum við að ég fékk verðlaunin árið 1995. Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eiga sinn þátt í þeirri sterku stöðu sem Norrænar bókmenntir hafa í dag.“

Með bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs fékk ég nýtt hugrekki. Hugrekki til þess að skrifa það sem ég þarf að skrifa. Þannig að það passi mér. Án tillits til hefða og venja. Beint frá hjartanu.

Kirsten Thorup, sem hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs fyrir skáldsöguna „Erindring om kærligheden“ árið 2017

Kveðja í tilefni af 60 ára afmæli

Herbjørg Wassmo, sem hlaut verðlaunin árið 1987 fyrir verkið „Hudløs himmel“ (Dreyrahiminn, íslensk þýðing Hannes Sigfússon) sendir eftirafarandi orð í tilefni af 60 ára afmælinu:

Helsingfors 1987

Líkt og í draumi úr alheiminum

Viðurkenning frá bókmenntasérfræðingum Norðurlandaráðs 

Nú, mörgum árum síðar, vil ég á ný þakka fyrir

að einhver veitti bókum mínum athygli

Ég sendi innilegar hamingjuóskir í tilefni 60 ára afmælisins

Húrra fyrir ykkur sem heiðrið bókmenntirnar

Afhent frá árinu 1962

Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs eru á meðal þekktustu og virtustu bókmenntaverðlauna í Evrópu. Þau eru elstu og fyrstu verðlaun Norðurlandaráðs og hafa verið veitt frá árinu 1962. Verðlaunaféð nemur 300 þúsundum danskra króna.

Norræn dómnefnd, sem skipuð er tveimur fulltrúum frá hverju norrænu landi, velur handahafa bókmenntaverðlaunanna. Sara Abdollahi, talskona dómnefndarinnar 2022, hefur eftirfarandi að segja um þýðingu bókmenntaverðlauna Norðurlandaráðs í gegnum árin:

„Fagurfræðileg gæði hafa mikla þýðingu fyrir menninguna, bókmenntirnar og listina. Öfugt við markaðinn og söluvörur snúast þau ekki um magn heldur um tilvist okkar og um möguleikana sem felast í skáldskapnum og tungumálinu. Að mínu viti er það kjarninn í bókmenntaverðlaunum Norðurlandaráðs. Verðlaunum sem í 60 ár hafa verið trú bókmenntunum en ekki auðmagni og tískustraumum.“

Bókmenntaverðlaunin eru veitt skáldverki sem ritað er á Norðurlandamáli. Það getur verið skáldsaga, leikverk, smásagna- eða ritgerðasafn sem uppfyllir strangar kröfur um bókmenntalegt og listrænt gildi. Markmiðið með verðlaununum er að vekja áhuga á bókmenntum og tungumálum grannþjóðanna sem og menningarlegri samkennd þeirra.

 

Textinn var uppfærður með vinningshafa ársins 2022 þann 21. desember 2022 

Nánar um bókmenntaverðlaunin: