Niviaq Korneliussen hlaut bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021
Niviaq Korneliussen fær verðlaunin fyrir verk sem hefur að geyma frásögn sem er falleg en um leið sársaukafull og óvægin.
Múte B. Egede og Bárður á Steig Nielsen, formenn landsstjórna Grænlands og Færeyja, afhentu bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs 2021 í beinni útsendingu frá verðlaunahátíðinni í Skuespilhuset í Kaupmannahöfn á þriðjudagskvöld.
Þetta var í fyrsta sinn sem bókmenntaverðlaunin fara til Grænlands.
Rökstuðningur dómnefndar
Skáldsagan Naasuliardarpi („Blómadalurinn“) eftir Niviaq Korneliussen hefur hrifið dómnefndina með lifandi ákefð sinni. Bókin fjallar um ást, vináttu og um það að tilheyra samfélagi sem glímir við arfleifð nýlendustefnu. Hér er á ferð afar hjartnæmt verk sem veitir innsýn í tilveru Grænlendinga í dag og þau áföll sem enn setja mark sitt á daglegt líf þeirra. Frásögnin er falleg, en einnig sársaukafull og óvægin. Dauði fyrir eigin hendi fylgir aðalpersónunni ungu frá upphafi til söguloka, en þrátt fyrir allt myrkrið liggja þræðir ástar gegnum textann og geisla frá sér birtu og blíðu. Stíllinn er blátt áfram og þrunginn afar nákvæmri skynjun og þrátt fyrir að sögukonan komi að lokum á örvæntingarfulla endastöð og kalli lesandann til vitnis, þá lýsir skáldsagan þrá sem er öllu öðru yfirsterkari. Ekki aðeins eftir dauðanum, heldur einnig eftir lífinu. Þetta er máttug list sem mun standast tímans tönn.
Sjáið Niviaq Korneliussen taka við bókmenntaverðlaununum í Kaupmannahöfn
Um verðlaun Norðurlandaráðs
Norðurlandaráð veitir fimm verðlaun ár hvert: bókmenntaverðlaun, kvikmyndaverðlaun, tónlistarverðlaun, umhverfisverðlaun og barna- og unglingabókmenntaverðlaun. Hver verðlaun nema 300 þúsundum danskra króna og eru veitt í tengslum við árlegt þing Norðurlandaráðs.