Endurvinnsla á vindorkuverum kallar á samnorræna stefnu

04.11.21 | Fréttir
Windmills
Photographer
Norden.org
Það er mikilvægur hluti af grænum umskiptum að auka við nýtingu á vindorku en hvað gerist þegar vindorkuverin verða gömul? Til þess að niðurrif á vindorkuverum og endurvinnsla úrgangs frá vindorkugeiranum geti verið sjálfbær er að mati Norðurlandaráðs þörf á samnorrænni stefnu.

„Vindorkuver eru góð fyrir loftslagið og skapa störf en við berum líka ábyrgð á að úrgangsefni frá þeim, svo sem glertrefjar, séu endurunnin með réttum hætti þegar kemur að því að loka verunum. Það má ekki grafa þau í jörð, henda þeim í sjóinn eða safna þeim upp á öskuhaugum,“ segir danski þingmaðurinn Anders Kronborg úr flokkahópi jafnaðarmanna.

Takmarkaðir möguleikar á endurvinnslu

Norðurlandaráð mælist til þess að Norræna ráðherranefndin marki samnorræna stefnu til að endurvinna vindorkuver með sjálfbærum hætti. Sem stendur eru möguleikarnir á því að endurvinna samsett efni frá vindkorkugeiranum takmarkaðir, einkum hvað vindmylluvængi snertir.

Græn frá upphafi og allt til loka

Vandamál tengd úrgangi frá vindorkugeiranum munu aukast á Norðurlöndum í takt við orkuskipti. Fram til ársins 2030 er fyrirhugað að loka 3400 af 4200 vindorkuverum í Danmörku. Í Noregi standa menn einnig frammi fyrir áskorunum tengdum auknum úrgangi og vilja ásamt Svíum og Finnum sjá sameiginlega stefnu um hvernig skuli meðhöndla hann.

„Það svæði í heiminum sem er í fararbroddi í grænum umskiptum á að sjálfsögðu líka að vera í fararbroddi í endurvinnslu á vindorkuverum. Það er skylda okkar gagnvart börnum okkar og barnabörnum. Vindorkuver eiga að vera græn frá upphafi og allt til loka,“ segir Anders Kronborg.