Finnland leggur áherslu á velferðarmál á vettvangi Norðurlandaráðs

04.04.22 | Fréttir
Kristina Hafoss och Erkki Tuomioja på Temasessionen 2022.
Photographer
Lars Dareberg / Norden.org

Kristina Háfoss, framkvæmdastjóri Norðurlandaráðs, og Erkki Tuomioja, forseti þess, á þemaþingi Norðurlandaráðs 2022.

Græn umskipti, hækkandi meðalaldur og æ færri sem vinna og greiða fyrir velferð okkar. Þetta eru bara nokkur þeirra úrlausnarefna sem norræna velferðarlíkanið stendur frammi fyrir. Það borgar sig að standa vörð um þetta líkan að mati Finnlands sem leggur áherslu á velferðarmál sem eitt mikilvægasta málefnasviðið á vettvangi Norðurlandaráðs í ár.

Grunnvandamálið er vel þekkt og nokkuð sem öll norrænu löndin eiga sameiginlegt. Í framtíðinni munu of fáir vinna og greiða skatt og þar með fjármagna norræna velferðarlíkanið.

Finnland hefur sem formennskuland í Norðurlandaráði tekið sett þetta mál á dagskrá í ár. Finnar vilja vinna gagnrýna úttekt á því hvernig norræna velferðarlíkanið virkar í dag ásamt því að skilgreina áskoranir þess í framtíðinni. Markmiðið er að tryggja forsendur norræna velferðarlíkansins til framtíðar.

Margar ástæður

Forseti Norðurlandaráðs 2022, jafnaðarmaðurinn Erkki Tuomioja, bendir á nokkrar ástæður fyrir áskorunum dagsins. Meðal annars nefnir hann hækkandi meðalaldur, hnattvæðingu og aðlögunarmál ásamt „mettun“ velferðarlíkansins sem að hans sögn leiddi til „nýfrjálshyggjuárásar á grunnstoðir velferðarlíkansins“ fyrir 5–10 árum.

Tuomioja telur þó að norræna líkanið setji lönd okkar í betri stöðu til að takast á við áskoranirnar en önnur lönd.

„Norræna velferðarlíkanið veitir löndunum góðar forsendur til að verða leiðandi í sjálfbærri þróun, vistrænt, félagslega og efnahagslega,“ segir Tuomioja.

Efnahagsmálin eru hornsteinn

Lulu Ranne, varaformaður Norðurlandaráðs sem tilheyrir Sönnum Finnum og Norrænu frelsi innan Norðurlandaráðs, bendir á að allar víddir sjálfbærrar þróunar verði að vera í innbyrðis jafnvægi. Hún bendir sérstaklega á efnahagsmálin.

„Efnahagsmálin eru mikilvægasti hornsteinn þess að við getum veitt ríkisborgurum okkar öryggi og sömuleiðis er efnahagslegur stöðugleik forsenda sjálfbærs velferðarlíkans. Hagkerfi Norðurlanda standa frammi fyrir nýjum áskorunum og þá reynir á norræna líkanið,“ segir Lulu Ranne.

Framtíð velferðar var þema umræðna

Áskoranir og framtíð norræna velferðarlíkansins voru síðast til umfjöllunar á þemaþingi Norðurlandaráðs í Malmö í mars þar sem sérstakur umræðutími var helgaður málinu.

Ráðherra þróunarmála og samstarfsráðherra Norðurlanda í Noregi, Anne Beathe Tvinnerim, sem er formaður samstarfsráðherranna á árinu 2022, benti á það í ræðu sinni að geta landa okkar til að fjármagna norræna velferðarlíkanið er háð því hversu vel okkur gengur að skapa ný störf og fá fleira fólk til þátttöku á vinnumarkaðnum.

Mikilvægt innlegg í umræðuna fjallaði um áhrif loftslagsbreytinga á félagslegt öryggi, meðal annars vegna þess að græn umskipti munu óhjákvæmilega hafa það í för með sér að mörg störf hverfa og önnur verða til í staðinn.

Jafnframt var lögð á það áhersla í umræðunni að þróa verði norræna velferðarlíkanið og að horfa verði til framtíðar við ákvarðanatöku. Þó var um það breið samstaða að norræna líkanið sé einstakt og þess virði að standa vörð um.