Flóttakonur frá Úkraínu á Norðurlöndum

16.12.22 | Fréttir
Ukrainsk kvinde
Photographer
norden.org
Norðurlönd, ásamt Evrópu allri, standa frammi fyrir stærsta flóttamannastraumi frá seinni heimsstyrjöld með nýjum hópi flóttamanna, þ.e. úkraínskum konum. Þótt draumur þeirra sé að snúa aftur til Úkraínu vilja þær aðlagast samfélaginu og taka þátt á vinnumarkaðnum. Það stendur þeim þó fyrir þrifum að tala ekki norræn tungumál.

Olga Biecha er 29 ára og flúði frá Kyiv fyrir átta mánuðum undan innrás Rússa og rússneskum sprengjum sem rigndi yfir borgina, eins og hún kemst sjálf að orði. Afgangurinn af fjölskyldu hennar varð eftir en hún hélt af stað með ferðatösku í annarri hendinni og köttinn sinn í hinni. Nú býr hún í Stokkhólmi og þótt hún hafi sjálf kennt frönsku og sé á tungumálanámskeiði hefur henni enn ekki tekist að ná valdi á sænsku.

Tungumálið ræður úrslitum um vinnu

Olga sagði sögu sína ráðstefnu um aðlögunarmál í Ósló á vegum Norrænu ráðherranefndarinnar og atvinnu- og aðlögunarráðuneytis Noregs. Samkvæmt skýrslunni Implementation of temporary protection for refugees from Ukraine hafa u.þ.b. 160 þúsund flóttamenn sótt um vernd í norrænu löndunum. Flestir þeirra eru konur sem eins og Olga þurfa að læra tungumálið til að aðlagast samfélaginu og komast út á vinnumarkaðinn. Þátttakendum á ráðstefnunni ber almennt saman um að tungumálið ráði úrslitum.  „Góð tungumálakennsla skiptir höfuðmáli til að auka möguleika innflytjenda á að fá vinnu,“ segir Nora Sánchez Gassen, sérfræðingur hjá Nordregio.

Kryddkonurnar læra norsku

Þótt einhver munur sé á milli landa er sú félagslega þjónusta sem í boði er fyrir úkraínska flóttamenn í meginatriðum svipuð á Norðurlöndum, og að mati manna er mikið gert. Þó eru úrlausnarefni. Að sögn danska lektorsins Michael Svendsen Pedersen hjá háskólamiðstöðinni í Hróarskeldu snúast þau að hluta til um aðgengi yfirvalda að flóttafólkinu. Hann bendir á að þær aðgerðir sem byggjast á heildstæðri, hvetjandi og ekki síst inngildandi nálgun beri árangur. Sem dæmi um þetta nefndi hann verkefni frá sveitarfélaginu Meland í Noregi sem gengur undir nafninu Kryddkonurnar. Þar er áhersla lögð á mikilvægi tungumálsins til þess að flóttamennirnir standist matreiðslunámskeið. Þeir áttu að lesa uppskrift, ræða hana, mæla og vigta o.s.frv. „Það var markmið, það var tilgangur og það hvatti til náms,“ sagði Michael Svendsen Pedersen.

Það þarf að vera tilgangur

Það að það skipti máli fyrir aðstæður einstaklings að læra tungumál er mjög mikilvægur hvatningarþáttur, að sögn Michaels Svendsen Pedersen. En að sögn Olgu getur þessi hvatning reynst vera hindrun fyrir úkraínsku konurnar. Þótt þær vilji gjarnan leggja sitt af mörkum til norrænna samfélaga og fá vinnu ala þær í brjósti von um að snúa aftur til Úkraínu innan skamms. Og hvers vegna þá að leggja það á sig að læra tungumál? spyr hún. Jafnframt segir Olga að hvað sig varði hafi hún ekki verið á góðum stað í lífinu þegar hún kom frá Kyiv. Hún þjáðist af streitu og veiktist ítrekað af COVID-19, sem hindraði hana í tungumálanáminu. Þegar hún náði sér á strik hafði hún dugnað og gæfu til að finna vinnu þar sem ekki var krafist kunnáttu í sænsku, þar sem hún aðstoðar nú aðra úkraínska flóttamenn. Þá varð tímaskorturinn að hindrun. Fyrir margar úkraínskar konur sem eru einar á Norðurlöndum með börn skapar tíminn fjarri þeim einnig vandamál.

 

Óformleg námskeið í bland við formleg

Norræna ráðherranefndin hefur í samvinnu við atvinnu- og aðlögunarráðuneyti Noregs og Oxford Research kortlagt tungumálaverkefni í norrænu löndunum og gefur út skýrsluna Language Training for Adult Immigrants in the Nordic Countries í janúar 2023. Á meðal þess helsta sem fram kemur í skýrslunni er mikilvægi þátttöku, gæða í kennslu og þess að í boði séu óformleg námskeið í bland við formleg. Hægt verður að nálgast skýrsluna á heimasíðu Norrænu velferðarmiðstöðvarinnar.  Norræna velferðarmiðstöðin