Gæti samstarf Norðurlanda í krísum verið betra?

11.02.21 | Fréttir
MR-SAM møde

Thomas Blomqvist til digitalt MR-SAM møde

Photographer
Ville Andersson
Norrænu samstarfsráðherrarnir hafa áhyggjur af afleiðingum kórónuveirufaraldursins á Norðurlöndum. Þjóðhagsleg og heilsutengd áhrif faraldursins hafa miklar áskoranir í för með sér fyrir allt svæðið, en landamærasvæðin hafa orðið fyrir sérstaklega miklum áhrifum. Samstarfsráðherrarnir ræddu um Covid-19 og áhrif faraldursins á fyrsta fundi ársins, sem var haldinn stafrænt þann 11. febrúar.

Samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi, Thomas Blomqvist, sem stjórnaði fundi samstarfsráðherranna, hefur áhyggjur af því að þær aðgerðir sem beita hefur þurft til þess að vinna gegn kórónuveirunni hafi sérstaklega slæm áhrif á norrænu landamærasvæðin.

„Við erum í aðstæðum sem ekkert okkar gat fyrirséð fyrir ári síðan,“ segir hann. „En nú verðum við að reyna að líta til framtíðar og læra af reynslunni. Við verðum að vera betur undirbúin fyrir næstu krísu. Finnland hefur sett sér það markmið í formennsku sinni að skapa úrræði sem gera okkur kleift að bregðast betur við áskorunum í sameiningu.“

Samráð milli Stjórnsýsluhindranaráðs Norrænu ráðherranefndarinnar og norrænu samstarfsráðherranna verður aukið á meðan Finnland gegnir formennsku. Samkomulag hefur þegar náðst um kerfisbundna og stöðuga eftirfylgni með þeim vandamálum sem heimsfaraldurinn hefur valdið, og veldur enn, á svæðunum. Á fundinum á fimmtudaginn fengu samstarfsráðherrarnir upplýsingar um úttekt á vandamálum á landamærasvæðunum sem Stjórnsýsluhindranaráðið hefur látið útfæra.

Aukið samstarf um viðbúnaðarmál eykur öryggi

Ráðherrarnir ræddu einnig um samstarf Norðurlanda á sviði viðbúnaðarmála. Löndin eiga nú þegar í samstarfi á þessu sviði en á tímum heimsfaraldursins hefur komið í ljós að nánara samstarf gæti verið norrænu löndunum til góðs og aukið öryggi á erfiðleikatímum í framtíðinni.

Finnland leggur því til að úttekt verði gerð á samstarfi Norðurlanda á sviði viðbúnaðarmála, bæði til að fá betri mynd af stöðunni og til að geta dæmt um hvar tækifæri til þróunar liggja.

„Góðar forsendur eru fyrir frekari þróun samstarfsins. Við stöndum frammi fyrir svipuðum áskorunum og þess vegna er gagnlegt að skoða hvernig bæta megi samstarfið enn frekar,“ segir Thomas Blomqvist. „Á meðan Finnland gegnir formensku viljum við koma þessu málefni áleiðis á víðum grundvelli til að við náum viðvarandi árangri til langs tíma.“