Hversu sjálfum sér nægar eru norrænar eyjar um matvæli?

Skýrslan kortleggur sjálfsnægtir varðandi matvæli í fimm norrænum eyjasamfélögum, þ.e. að hve miklu leyti þau matvæli sem neytt er á eynni eru einnig framleidd þar. Á öðrum endanum eru Álandseyjar þar sem er að finna fjölbreytilega framleiðslu á mjólk og osti, kartöflum og korni, fiski og grænmeti. Á hinum endanum er Borgundarhólmur þar sem ræktað er hágæðagrænmeti í litlu magni en einnig mikið flutt út af svínakjöti. Þar á milli eru Ísland, þar sem sjálfsnægtarstig er næsthæst, og svo Færeyjar og Grænland.
Er framleiðsla í heimabyggð alltaf sjálfbær?
Spurningin sem lá til grundvallar rannsókninni er hvort meiri sjálfsnægtir um matvæli geri matvælakerfin um leið sjálfbærari.
„Svarið veltur á því hvað það er sem er framleitt og hvernig. Ef matvælaframleiðsla í heimabyggð er pláss-, orku- og vatnsfrek getur verið sjálfbærara að hún fari fram annars staðar. Það er ekki hægt að setja samasemmerki á milli matvælaframleiðslu í heimabyggð og sjálfbærni,“ segir Louise Ormstrup Vestergård, verkefnastjóri og vísindamaður hjá norrænu rannsóknarstofnuninni Nordregio.
Andstæðir pólar í umræðunni
Sögulega séð hafa pólitísk rök lotið að því að auka sjálfsnægtir til þess að lönd verði ekki of háð öðrum og á hinn bóginn efnahagsleg rök sem lotið hafa að því að opna landamæri til fulls. En hvað með sjálfbærni?
„Ég held að það kæmi sér hvorki vel fyrir sjálfbærni né styrk matvælakerfanna að öll matvæli væru framleidd í heimabyggð. Of hátt sjálfsnægtarstig getur verið ósjálfbært í bæði félagslegu og umhverfislegu tilliti, jafnt heima fyrir sem á heimsvísu. Áhersla okkar hefur verið á það hvað hægt sé að gera til að auka sjálfbærni í matvælaframleiðslu í heimabyggð,“ segir Louise Ormstrup Vestergård.
Nýtt prótín á Borgundarhólmi
Samkvæmt skýrslunni myndi breyting á framleiðslunni, frá kjötframleiðslu yfir í matvæli úr jurtaríkinu, auka sjálfsnægtarstigið með sjálfbærum hætti, einkum á Álandseyjum og Borgundarhólmi. Sem gott dæmi um þetta greinir skýrslan frá verkefni á Borgundarhólmi, Food Bornholm, þar sem 13 bændur hafa tekið höndum saman til að kanna möguleika á því að rækta prótín sem leyst getur kjöt af hólmi, en eftir því hafa neytendur kallað og það gæti stuðlað að fjölbreyttari framleiðslu á eyjunni.
Helsti þrándur í götu sjálfsnægta um matvæli á öllum eyjunum er samkeppni frá ódýrum, innfluttum matvælum. Einnig getur verið erfiðleikum bundið að gera matvæli sem framleidd eru í heimabyggð aðgengileg fyrir neytendur.
11 tillögur til að auka sjálfsnægtir
RekoRingen á Álandseyjum er nefnt sem gott dæmi um það að framleiðendur sameinist um að mæta neytendum með beinum hætti. Settar eru fram 11 tillögur í skýrslunni, bæði til að hækka sjálfsnægtarstig með sjálfbærum hætti og til að bæta möguleikana á því að reikna út sjálfsnægtarstig af meira öryggi.
„Mikið vantar af nægilega nákvæmum gögnum. Ef til vill væri hægt að samræma gögn og vinna saman að því á Norðurlöndum að fá betri mynd af sjálfsnægtum þegar kemur að matvælum.
Sjálfsnægtarstig á eyjunum sem rannsóknin tók til:
- Álandseyjar: 59 prósent
- Ísland: 53 prósent
- Færeyjar: 22 prósent
- Grænland: 17 prósent
- Borgundarhólmur: 6 prósent