„Jafnréttisstarf á forskólastigi á allt of mikið undir einstaka eldhugum“

07.09.21 | Fréttir
Manlig pedagog i förskola
Photographer
Johnér
Á forskólastigi eru einstök tækifæri til að vinna gegn skaðlegum viðmiðum sem hafa áhrif á þroska barna, nám þeirra og val. Þrátt fyrir það er jafnréttisstarf í forskólum á Norðurlöndum sjaldan nægilega reglulegt og fast í sessi. Þetta sýnir ný rannsókn sem norrænu jafnréttismálaráðherrarnir fengu inn á borð hjá sér í gær.

„Við mótumst af kynjaviðmiðum, kynhlutverkum og mismunandi staðalmyndum um kyn þegar í bernsku. Við lærum hvers sé vænst af okkur eftir því af hvaða kyni við erum, hvað þyki við hæfi og hvaða tækifæri við höfum.

Þessar skoðanir hafa áhrif á líðan okkar og geta hamlað til dæmis náms- og starfsvali.

Þegar byggja skal upp samfélag á grunni jafnréttis er nauðsynlegt að hafa auga með þróun jafnréttisstarfs á sviði kennslufræði fyrir minnstu börnin,“ segir Thomas Blomqvist, jafnréttismálaráðherra Finnlands og formaður ársins í ár í Norrænu ráðherranefndinni um jafnréttismál og LGBTI.


 

Átaksverkefni frekar en fastir liðir

Kennsluaðferðir sem stuðla að jafnrétti á forskólastigi eru einnig lykillinn að auknu jafnrétti á vinnumarkaði. Um það eru norrænu löndin sammála. 

Í þeim öllum hefur verið ráðist í fjölda verkefna um jafnrétti á forskólastigi. Þótt hægt sé að benda á árangursrík dæmi um sjálfbært og reglulegt starf er vandinn oft sá að jafnréttisstarfinu lýkur um leið og verkefnunum lýkur.

Þetta kemur fram í nýrri skýrslu sem nefnist „Ändra föreställningar och bryt traditioner!“ eða „Breytum viðhorfum og höfnum vanafestu“.

„Enn á jafnréttisstarf á forskólastigi allt of mikið undir einstaka eldhugum,“ sagði Sara Sundell skýrsluhöfundur.

Afdráttarlaus lög eru til bóta 

Í skýrslunni er lagaumgerð lýst og námsáætlunum sem fylgt er við leiðsögn og kennslu á forskólastigi á Norðurlöndum. 

Fjallað er um hvert land fyrir sig og þá löggjöf og áætlanir sem unnið er eftir í sveitarfélögunum. 
 

Á fundi jafnréttismálaráðherranna í gær (6. september) varð ljóst að öll löndin álíta forskólakennslu skipta höfuðmáli í þeirri viðleitni að brjóta upp kynjaskiptan vinnumarkað sem er út af fyrir sig mikilvæg forsenda samkeppnishæfra og félagslega sjálfbærra Norðurlanda.


Ráðherrarnir ræddu hvernig löndin gætu aðstoðað hvert annað við að efla jafnréttisstarfið á forskólastigi.

Jafnrétti minna en við höldum

Skýrsluhöfundarnir Nea Alasaari og Sara Sundell komu á fund ráðherranna og veittu þeim ráð. 

„Sýnileiki og þekking ráða úrslitum um hvernig til tekst. Við höldum oft að jafnrétti sé meira en það er. Því minni þekkingu og reynslu sem starfsfólk á forskólastigi hefur af vinnu við jafnrétti og stöðluð viðmið, þeim mun minna veit það um eigin kynbundnar væntingar,“ sagði Sara Sundell.


Fleira gerir jafnréttisstarf árangursríkt á forskólastigi eftir því sem segir í skýrslunni, svo sem þáttur stjórnenda, jafnréttisáætlanir, þátttaka barna og foreldra og svo skiptir miklu máli að löggjöf, námsáætlanir og stjórntæki geri kröfu um jafnrétti í kennslu í forskólum. 

Skýrslan var kynnt og rædd á vefþinginu „Promoting Gender Equality in Early Childhood Education and Care – Knowledge and Tools“” sem hægt er að skoða upptöku af: