Jorodd Asphjell nýr forseti Norðurlandaráðs

03.11.22 | Fréttir
Jorodd Asphjell Helge Orten
Photographer
Magnus Fröderberg/Norden.org
Jorodd Asphjell hefur verið kosinn forseti Norðurlandaráðs árið 2023. Helge Orten var kjörinn varaforseti. Hvor tveggja er frá Noregi sem fer með formennsku í Norðurlandaráði á næsta ári. Á árinu 2023 ætla Norðmenn að leggja áherslu á örugg, græn og ung Norðurlönd.

Jorodd Asphjell hefur setið í Norðurlandaráði frá 2009 og kemur úr flokkahópi jafnaðarmanna. Hann á jafnframt sæti í forsætisnefnd ráðsins. Hann hóf feril sinn í Norðurlandaráði sem varamaður árið 2009 og frá 2012 hefur hann verið þingmaður.

Asphell segist vilja efla norrænt samstarf á krísutímum.

„Við lifum á óvissutímum. Við fórum frá heimsfaraldri sem hafði áhrif á öllum sviðum samfélagsins yfir í stríð í Evrópu. Í formennskutíð sinni munu Norðmenn leggja mikla áherslu á norrænt viðbúnaðarsamstarf. Við munum nýta reynslu okkar af því að takast á við faraldurinn til að efla samstarf norrænu landanna á sviði viðbúnaðarmála. Með inngöngu Finna og Svía í Atlantshafsbandalagið verður norrænt varnarsamstarf jafnframt nánara,“ segir Jorodd Asphjell.

Örugg Norðurlönd

Helge Orten er formaður flokkahóps hægrimanna og á sæti í forsætisnefnd ráðsins. Hann bendir á tækifærin sem felast í því fyrir Norðurlönd að öll löndin eigi aðild að Atlantshafsbandalaginu.

„Bráðum eru vonandi öll norrænu löndin aðilar að Atlantshafsbandalaginu. Í því felast gríðarleg tækifæri á mörgum sviðum. Við í Norðurlandaráði höfum lengi sagt að við þurfum meira norrænt samstarf á sviði utanríkis- og öryggismála. Nú fáum við tækifæri til þess,“ segir Helge Orten.

Asphjell og Helge Orten voru kosnir einróma á þingi Norðurlandaráðs í Helsingfors 2. nóvember. Þeir taka við embættum um áramót.

Ný staða í öryggismálum setur mikið mark á formennskuáætlun Noregs árið 2023 þar sem sjónum er beint að aukinni þörf á norrænu varnarsamstarfi. Örugg Norðurlönd eru helsta forgangsmál formennskuáætlunarinnar.

Græn umskipti í orkukreppunni

Orkukreppan og loftslagsvandinn eru einnig nefnd sem mikilvæg mál í norsku formennskuáætluninni. Samkvæmt henni eiga Norðurlönd að vera leiðandi í þróuninni með því að byggja upp nýja orkugjafa með áherslu á sjálfærni.

„Við stöndum frammi fyrir loftslagskrísu. Við verðum að draga úr losun. Grænar lausnir á sviði orkumála og samgangna skipta höfuðmáli. Orkukreppa undanfarins árs hefur leitt enn betur í ljós að við verðum að koma upp nýjum orkugjöfum. Norðurlönd geta verið brautryðjendur,“ segir Helge Orten.

Drögum lærdóm af faraldrinum

Noregur vill að Norðurlandabúar upplifi öryggi og græn Norðurlönd eru forsenda þess. Viðbrögð við heimsfaraldrinum eru að mati formennskunnar nokkuð sem Norðurlandaráð getur dregið lærdóm af til að takast á við loftslagsvandann.

Í formennskuáætluninni er áhersla lögð á að græn Norðurlönd séu ekki aðeins nauðsynleg í tengslum við öryggi á Norðurlöndum heldur séu þau skylda okkar gagnvart komandi kynslóðum.

Ung Norðurlönd

Auk öruggra og grænna Norðurlanda vilja Norðmenn í formennskutíð sinni setja þátttöku ungs fólks í samfélaginu og stjórnmálum í forgang. Noregur vill stöðva þá þróun að ungt fólk lendi utan vinnumarkaðar og telur tækifæri til menntunar þvert á landamæri Norðurlanda mikilvæg en undirstrikar að menntunin þurfi að svara þörfum framtíðarinnar.

Formennskuáætlun Noregs lítur á ungt fólk sem samstarfsaðila og telur það búa yfir þekkingu og úrræðum sem eru nauðsynleg norrænu samstarfi.

„Ungt fólk er framtíðin. Við verðum að vinna saman að því að tryggja menntun þess, vinnu og þátttöku í samfélaginu. Örugg og græn Norðurlönd eru forsenda fyrir framtíð unga fólksins. Það býr yfir þekkingu og úrræðum. Sú hefð að taka tillit til barna og ungs fólks er rík á Norðurlöndum. Ungt fólk skiptir höfuðmáli fyrir samfélög okkar og lýðræðið,“ segir Jorodd Asphjell.

Noregur undirstrikar einnig að þær ákvarðanir sem teknar eru í loftslagsmálum nú hafi áhrif á framtíð ungs fólks. Faraldurinn hafði áhrif á andlega heilsu ungs fólks. Formennskuáætlun Noregs vill læra af því hvernig tekist var á við hann til að geta betur hugað að heilsu ungs fólks þegar brugðist er við krísum.

Norðurlandaráð er opinber samstarfsvettvangur þjóðþinga Norðurlanda. Ráðið skipa 87 fulltrúar frá Danmörku, Finnlandi, Íslandi, Noregi, Svíþjóð og Álandseyjum, Færeyjum og Grænlandi.