Lykillinn að innleiðingu heimsmarkmiðanna á sveitarstjórnarstiginu

04.10.18 | Fréttir
Í nýrri skýrslu kemur fram að Norðurlöndin séu í fararbroddi í því að vinna að heimsmarkmiðunum á sveitarstjórnarstiginu. Tilgangur skýrslunnar Global Goals for Local Priorities er að veita sveitarfélögum upplýsingar um leiðir til þess að innleiða sjálfbærnimarkmið Sameinuðu þjóðanna og benda sérfræðingum og stefnumótendum á hvernig megi styðja sveitarfélög í þeirri vinnu sinni.

Ríkin leiða innleiðingu heimsmarkmiðanna. Engu að síður gegna sveitarfélögin lykilhlutverki við innleiðingu Dagskrár 2030. Þau standa næst íbúum, fyrirtækjum og samtökum. Norðurlöndin eru oft ofarlega á listum sem eiga að sýna hversu vel gengur að innleiða sjálfbærnimarkmiðin. Engu að síður er það víða svo að sveitarfélögin eru aðeins nýlega farin að tengja sjálfbærniaðgerðir sínar beint við sjálfbærnimarkmiðin.

„Sveitastjórnarstigið gegnir lykilhlutverki varðandi innleiðingu Dagskrár 2030. Ríki og sveitarfélög verða að vinna saman að því að færa Norðurlöndin nær því að ná 17. sjálfbærnimarkmiðinu,“ segir Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.

Sveitarstjórnastigið gegnir lykilhlutverki varðandi innleiðingu Dagskrár 2030. Ríki og sveitarfélög verða að vinna saman að því að færa Norðurlöndin nær því að ná 17. sjálfbærnimarkmiðinu.

Dagfinn Høybråten, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar

Í fararbroddi

Í nýju skýrslunni Global goals for local priorities er yfirlit yfir það hvernig sveitarfélög á Norðurlöndum standa að innleiðingu sjálfbærnimarkmiða Sameinuðu þjóðanna. Í skýrslunni er bent á 27 norræn sveitarfélög sem eru í fararbroddi í vinnunni að Dagskrá 2030 og forgangsröðun þeirra og aðgerðum lýst. Þar er einnig vakin athygli á áskorunum og árangri í vinnunni við sjálfbærnimarkmiðin. Tilgangur skýrslunnar er að veita sveitarfélögum upplýsingar um leiðir til þess að innleiða Dagskrá 2030 og benda sérfræðingum og stefnumótendum á hvernig megi styðja sveitarfélög í þeirri vinnu sinni.

Hvetjandi hugmyndir

Til að hvetja yfirvöld sveitarfélaga eru kynntar í skýrslunni hugmyndir frá 27 sveitarfélögum sem eru í fararbroddi um það hvernig er hægt að innleiða Dagskrá 2030 í gegnum nærsamfélagið. Leiðirnar sem sveitarfélögin kynna má draga saman í eftirfarandi punkta:

  • Samþætta sjálfbærnimarkmiðin í allri stefnumótun og áætlanagerð
  • Fá þátttöku allra hluta stjórnsýslu sveitarfélagsins
  • Fá íbúa til þátttöku
  • Hvetja ungt fólk til að taka þátt
  • Styðja við starfsemi sjálfbærra fyrirtækja og samtaka
  • Nota sjálfbærnimarkmiðin við borgarskipulag og uppbyggingu sjálfbærs húsnæðis
  • Byggja upp öflugt samstarfi

Í skýrslunni eru meðmæli til allra stiga stjórnsýslunnar sem eiga að varða leiðina áfram. Lykillinn er skýr samskipti um forgangsröðun og aðgerðir ríkisins varðandi Dagskrá 2030, leiðbeiningar um hvernig vinna skuli að 17. sjálfbærnimarkmiðinu og stuðningur við að meta árangur. Stuðningur á þessum sviðum mun ekki aðeins hjálpa þeim sveitarfélögum sem þegar eru í fararbroddi við áframhaldandi vinnu heldur getur hann einnig hvatt fleiri sveitarfélög til þess að leggja sitt af mörkum varðandi innleiðingu heimsmarkmiðanna.

Það er mikilvægt að Norræna ráðherranefndin og stjórnvöld ríkjanna leggi fram fé, skýri frá því hvernig Dagskrá 2030 skiptir máli í norrænu samhengi og meti það sem sveitarfélögin gera til þess að innleiða Dagskrá 2030 og hvernig til tekst.

Embættismaður á sveitarstjórnarstigi í Umeå, Svíþjóð

Skýrslan er gefin út af Nordregio fyrir hönd Norrænu ráðherranefndarinnar og er liður í áætluninni 2030 kynslóðin.