Miklar væntingar til frjálsra félagasamtaka

19.11.21 | Fréttir
Civilsamfund
Photographer
Arthur C Ammelbeeck
150 fulltrúar og ráðamenn frjálsra félagasamtaka á Norðurlöndum hafa fundað með ráðherrum og stjórnmálamönnum til að ræða hvernig félagasamtök á Norðurlöndum geta unnið saman að því að skapa félagslega sjálfbær Norðurlönd.

Nýlega var haldinn norrænn toppfundur fyrir borgaralegt samfélag með áherslu á félagslega sjálfbærni. Þar komu saman fulltrúar og ráðamenn frjálsra félagasamtaka ásamt tveimur samstarfsráðherrum Norðurlanda, þeim Flemming Møller Mortensen frá Danmörku og Thomas Blomqvist frá Finnlandi, Astrid Krag, ráðherra félags- og öldrunarmála í Danmörku, Bertel Haarder, forseta Norðurlandaráðs og Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar. Umræðuefni þeirra var hvernig félagasamtök geti með sem bestum hætti stuðlað að því að skapa lausnir sem raungera framtíðarsýnina um félagslega sjálfbær Norðurlönd árið 2030. Á fundinum sagði Thomas Blomqvist, samstarfsráðherra Norðurlanda í Finnlandi, að samfélög séu metin eftir því hvernig þau séu í stakk búin til að hugsa um þá borgara sína sem höllustum fæti standa. Í því samhengi nefndi hann að kórónuveiran hefði ekki einfaldað þetta verkefni og benti m.a. á aukið heimilisofbeldi.

 

Frjáls félagasamtök geta fengið stjórnmálamenn að borðinu

Á fundinum var m.a. fjallað um að að Norræna ráðherranefndin hefur stofnað norrænt samstarfsnet frjálsra félagasamtaka. Samstarfsnetið samanstendur af frjálsum félagasamtökum á Norðurlöndum. Markmiðið er að raddir borgarasamfélagsins nái eyrum Norrænu ráðherranefndarinnar svo uppfylla megi Framtíðarsýn okkar 2030. Fyrsti fundur samstarfsnetsins fór fram daginn áður en toppfundurinn fór fram með þátttöku samstarfsráðherranna Thomas Blomqvist (FI), Flemming Møller Mortensen (DK), Anne Beathe Kristiansen (NO), Sigurðar Inga Jóhannssonar (IS) og Annette Holmberg-Jansson (AX) ásamt Paulu Lehtomäki, framkvæmdastjóra Norrænu ráðherranefndarinnar.

Thomas Blomqvist hefur miklar væntingar til samstarfsnetsins og vonar að samstarf yfirvalda og frjálsra félagasamtaka geti lagt sitt af mörkum til þess að færa úrlausnarefni og lausnir nær stjórnmálamönnum og skapa ramma sem veitir frjálsum félagasamtökum innblástur þvert á landamæri:

„Við þurfum að nýta okkur þau tilbrigði sem felast í lausnum hvers norræns lands og fá innblástur úr þeim,“ sagði Thomas Blomqvist. Ráðherrann er ekki einn um að hafa væntingar til samstarfsnetsins. Joel Ahlgren frá sænsku hugmyndasmiðjunni Global Utmaning er verkefnastjóri samstarfsnetsins. Hann er tilbúinn að takast á við úrlausnarefnin og hefur einnig væntingar í hina áttina:

„Við verðum vör við mikinn áhuga frá ráðherrunum og vonum að samstarfsnetið geti haft áhrif á norrænt samstarf og þannig starf norrænu landanna,“ segir Joel Ahlgren.

 

Fylgjum þeim sem eru í forystu

Flemming Møller Mortensen, samstarfsráðherra Norðurlanda í Danmörku, vonar að samstarfsnetið skapi orku á milli norrænu landanna, frjálsra félagasamtaka og yfirvalda. Í því sambandi benti ráðherrann á að það verði alltaf svo að einhverjir verði lengra komnir en aðrir og það þurfi hin löndin að nýta sér með jákvæðum hætti og láta það hvetja sig til dáða:

„Þegar eitt land er í fararbroddi eiga hin löndin að láta það hvetja sig til dáða. Slíkur hugsanaháttur ásamt mikilli orku er mikilvægur hluti af samstarfsneti frjálsra félagasamtaka og þar leikur ungt fólk lykilhlutverk,“ segir Flemming Møller Mortensen.

Næsta skref – beinar tillögur

Áhersla toppfundarins var á fullorðna sem standa höllum fæti sem og fólk á aldrinum 15–18 ára. Tilgangur fundarins var að efla þekkingarmiðlun, umræðu og mótun á sameiginlegri sýn um þátttöku borgarasamfélagsins í þróun og eflingu hins norræna velferðarlíkans og því að raungera hina samnorrænu stefnumarkandi áherslu um félagslega sjálfbær Norðurlönd. Það voru Center for Frivilligt Socialt Arbejde og hugmyndasmiðjan Mandag Morgen sem héldu fundinn með fjárveitingu frá Norrænu ráðherranefndinni. Í janúar 2022 mun hið nýja norræna samstarfsnet leggja fram tillögur um eflingu aðgerða norræna borgarasamfélagsins til Norrænu ráðherranefndarinnar og Norðurlandaráðs.

Civilsamfundstopmødet med Flemming Møller Christensen