Norðurlandaráð: Kórónuveirufaraldurinn hefur afhjúpað stór vandamál

03.11.21 | Fréttir
Hans Wallmark

Hans Wallmark til Nordisk Råds Session 2021

Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Frá sjónarhorni alþjóðasamfélagsins hafa Norðurlönd spjarað sig vel í kórónuveirufaraldinum. Ekki er þó jafn mikill samhljómur í afstöðu íbúa á Norðurlöndum og meðlimum Norðurlandaráðs.

Margar réttar ákvarðanir hafa verið teknar en ríkisstjórnir hafa einnig tekið ákvarðanir sem hafa staðið í vegi fyrir landamæralausum Norðurlöndum með traustið að leiðarljósi. Þetta kom fram á umræðum dagsins á meðal forsætisráðherra og þingmanna á þingi Norðurlandaráðs 2021.

Á 73. þingi Norðurlandaráðs í Kaupmannahöfn bauð Norðurlandaráð norrænu forsætisráðherrunum í umræður um hvað Norðurlönd geta lært af kórónuveirufaraldrinum. Almenn samstaða ríkti um að við í okkar heimshluta höfum brugðist betur við erfiðum aðstæðum síðasta árs en flest ríki. Ýmsar aðgerðir ríkisstjórnanna mættu þó uppbyggilegri gagnrýni Norðurlandaráðs.

„Norðurlönd hafa almennt spjarað sig nokkuð vel í heimsfaraldrinum og margar réttar ákvarðanir hafa verið teknar – en þó einnig sumar sem eru ekki jafn réttar, eða jafnvel slæmar,“ voru orð forseta Norðurlandaráðs, Bertel Haarder. Hann vísaði til nýju skoðanakönnunarinnar „Støtte og skuffelse“ (stuðningur og vonbrigði) sem sýnir að aðeins 1 af hverjum 10 norrænum borgurum telur að löndin hafi unnið vel saman í kórónuveirufaraldrinum.

Vantraust fer vaxandi – sérstaklega á landamærasvæðum

Það að aðeins 1 af hverjum 10 borgurum telji að norrænu löndin hafi unnið vel saman í kórónuveirufaraldrinum skýrist meðal annars af áskorunum á landamærasvæðum.

„Markmiðið um að við verðum samþættasta og sjálfbærasta svæði heims er mjög fjarlægt fólki sem býr á landamærasvæðum,“ sagði sænski samstarfsráðherrann Anna Hallberg.

 

Skiptar skoðanir voru um víðtækar lokanir á landamærum milli norrænna landa í heimsfaraldrinum. Flestir forsætisráðherrarnir töluðu fyrir nauðsyn þess að loka landamærum til að halda veirunni utan þeirra á meðan margir meðlimir Norðurlandaráðs bentu á þörf þess að leita lausna sem geta tryggt opin landamæri fyrir íbúa svæðanna, einnig á krísutímum.

Nánara samstarf og aukinn neyðarviðbúnaður

Víðtæk samstaða ríkti milli Norðurlandaráðs og Norrænu ráðherranefndarinnar um að í norrænu samstarfi hefði lærdómur verið dreginn af faraldrinum og að í framtíðinni verði brugðist enn betur við álíka aðstæðum. Það þarf auka samræmingu og upplýsingamiðlun, bæta viðbúnað og auka þátttöku í viðbúnaðarstarfi.

„Sameiginlegt markmið okkar verður að vera að efla norrænt samstarf og neyðarviðbúnað okkar og halda fast í sýn okkar um að verða samþættasta og sjálfbærasta svæði heims árið 2030,“ sagði Sanna Marin, forsætisráðherra Finnlands.