Norðurlönd í samstarf um rannsóknir á heimsfaröldrum

14.04.20 | Fréttir
Arne Flåøyen
Photographer
Kurt Gaasø
Mikil þörf er á nýrri þekkingu á bóluefni, meðferðarúrræðum, sem og þeim ólíku aðferðum sem norrænu ríkin hafa beitt í heimsfaraldi kórónuveiru sem nú stendur yfir. Norðurlönd ætla að efla rannsóknasamstarf svo að löndin geti betur búið sig undir heimsfaraldra framtíðar.

Vísindafólk um allan heim vinnur nú að því að finna lækningu við COVID-19, sjúkdómnum sem kórónuveiran veldur. Alþjóðaheilbrigðismálastofnunin, WHO, gaf fyrr á árinu út tilmæli um nauðsyn rannsókna og nú ætla Norðurlönd einnig að efla rannsóknir sínar á heimsfaraldi kórónuveiru. 

Arne Flåøyen, forstjóri NordForsk, segir NordForsk gegna hlutverki í vinnunni fram undan.

- Mikið rannsóknarstarf fer fram um þessar mundir og flest rannsóknarverkefnin snúa að veirunni sjálfri, þróun bóluefnis og þróun meðferðar við sjúkdómnum. Þetta eru rannsóknir sem geta farið fram hvar sem er í heiminum. NordForsk hefur einblínt á rannsóknir sem skapa norrænt notagildi, það er sérstaða okkar. Við viljum því styðja við rannsóknir sem einungis er hægt að gera á Norðurlöndum og sem geta nýst samfélögum okkar. Niðurstöður úr rannsóknasamstarfi geta gert okkur betur í stakk búin til að eiga við heimsfaraldra framtíðar og önnur stór vandamál sem herja á samfélög okkar á sama hátt og á sama tíma. 

Þrjú ný rannsóknarverkefni

NordForsk, rannsóknaráð Norrænu ráðherranefndarinnar, vill setja af stað þrjú rannsóknaverkefni sem hverju um sig er ætlað að varpa ljósi á heimsfaraldurinn. Tvær rannsóknanna munu einblína meðal annars á bóluefni og meðferðir við sjúkdómnum og byggja á klínískum rannsóknum en þriðja rannsóknin mun einblína á samfélagslegt öryggi og á hvernig ríkisstjórnir Norðurlanda standa þegar kemur að viðbúnaði og hættustjórnun. 

Arne Flåøyen, forstjóri NordForsk, telur að mikið megi læra af viðbrögðum norrænu ríkjanna við heimsfaraldrinum. 

- COVID-19 er stærsti vandi sem herjað hefur á Norðurlönd frá seinni heimsstyrjöld. Samfélög okkar standa frammi fyrir mikilli prófraun og við reynum að bregðast við stöðunni á besta mögulega hátt. Við tölum gjarnan um að Norðurlönd séu samþættasta svæði heims, en í raunverulegu hættuástandi eins og nú er uppi sjáum við að það er vandasamt að samhæfa aðgerðir þvert á landamæri,“ segir Arne Flåøyen og bætir við:  

- Hvert ríki hefur sína eigin áætlun og eigin lausnir við COVID-19. Frá sjónarhorni rannsakandans má líkja því sem við sjáum núna við vandaða rannsókn á því hvernig aðilar reyna að leysa sama vandann með ólíkum leiðum. Í gegnum rannsóknarsamstarf getum við lært hvert af öðru og gert samfélög okkar betur í stakk búin til að takast á við heimsfaraldra framtíðar.