Norðurlönd knýja á um alþjóðlegan plastsamning

10.04.19 | Fréttir
Ministre i Island
Photographer
Birgir Ísleifur Gunnarsson.

Frá vinstri: Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar, Ola Elvestuen, loftslags- og umhverfismálaráðherra Noregs, Kimmo Tiilikainen, umhverfis-, húsnæðis- og orkumálaráðherra Finnlands, Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra Íslands, Jakob Ellemann-Jensen, umhverfis- og matvælaráðherra Danmerkur, Karen Motzfeldt, fulltrúi Grænlands á fundinum og Lars Ronnås, loftlagssendiherra Svíþjóðar.

Í sameiginlegri yfirlýsingu tala Norðurlönd fyrir því að gerður verði nýr alþjóðlegur samningur til að draga úr og fyrirbyggja losun plasts og örplasts í hafið.

Plastmengun í hafi er hnattrænn umhverfisvandi sem ógnar lífi og vistkerfum og hefur áhrif á meðal annars fiskveiðar, skipaumferð, útivist og ferðamennsku.

Stefnubreyting nauðsynleg

Lönd heimsins hafa viðurkennt vandann en ekki hefur verið lögð nægileg áhersla á mikilvægi þess að lönd setji sér öflugri alþjóðlegar skuldbindingar.

– Við þurfum stefnubreytingu svo að umræðan fari að snúast um hvað heimurinn getur áorkað í sameiningu. Ekkert land getur gert þetta eitt og óstutt, segir Ola Elvestuen, umhverfisráðherra Noregs, en Noregur átti frumkvæðið að nýrri norrænni plastyfirlýsingu sem umhverfisráðherrar Norðurlanda samþykktu á Íslandi þann 10. apríl síðastliðinn.  

Þurfum að ganga lengra

Í yfirlýsingunni tala umhverfisráðherrarnir fyrir því að gerður verði alþjóðlegur plastsamningur um verndun hafsins. Ráðherrarnir leggja áherslu á að vandinn sé í eðli sínu hnattrænn og að það þurfi sterkari aðgerðir á heimsvísu til að árangur geti náðst. 

Mikilvægt framlag Norðurlanda til starfs SÞ og ESB

Í yfirlýsingunni, sem meðal annars verður send til stofnanna ESB, UNEP, G7 og G20, er einnig biðlað til Norrænu ráðherranefndarinnar um að láta vinna skýrslu um hvaða atriði eigi að vera í alþjóðlegum samningi gegn örplast- og plastmengun í hafi.

Á fjórða umhverfisþingi SÞ (UNEA-4) í mars var ákveðið að halda skyldi áfram milliríkjasamstarfi sem snýr að mengun hafsvæða og útbreiðslu örplasts og að sérfræðihópurinn sem settur var til að skoða eflingu alþjóðlegra stjórnkerfa skuli starfa áfram.  

Forysta á alþjóðavísu

Norrænu skýrslunni verður skilað til sérfræðihópsins fyrir næsta fund hópsins í lok ársins 2019. Skýrslan mun einnig gagnast við að styrkja stöðu ESB í tengslum við fimmta umhverfisþing SÞ sem haldið verður árið 2021.

– Norðurlönd eiga að vera í fararbroddi í að draga úr umhverfisáhrifum plasts. Með þessari yfirlýsingu styrkjum við stöðu okkar sem leiðandi afl á alþjóðavísu, segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfisráðherra Íslands, en Ísland gegnir formennsku í Norrænu ráðherranefndinni á árinu 2019.