Norðurlöndin geta ekki verið þekkt fyrir að sitja eftir

03.09.19 | Fréttir
Pyry Niemi
Photographer
Andre Jamholt/norden.org
- Eystrasaltsríkin og Benelúx-ríkin hafa tekið í notkun gagnkvæma og sjálfkrafa viðurkenningu á æðri menntun. Norðurlönd geta ekki verið þekkt fyrir að sitja eftir, segir Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vill nú setja aukinn kraft í vinnuna við að koma í gagnið slíku gagnkvæmu og sjálfvirku viðurkenningarkerfi fyrir æðri menntun í Norðurlöndum, Eystrasaltsríkjunum og Benelúx-ríkjunum.

Sjálfkrafa viðurkenning á menntun og starfsfærni Norðurlandabúa á sambærilegum starfssviðum kemur í veg fyrir alvarlega stjórnsýsluhindrun á Norðurlöndum. Með þeim hætti má komast hjá vandkvæmðum vegna mismunandi matsferla og auka skilvirkni í umsýslu.

Vandamálið er að ólíkar reglur gilda um starfsfærnikröfur og menntun á milli Norðurlanda. Það getur til dæmis þýtt að menntun sem stenst kröfur í einu landi stenst ekki alltaf kröfur í öðru norrænu landi.

Í dag eru það stjórnvöld í hverju landi sem leggja mat á menntun og starfsfærni umsækjenda hvað varðar lögvarðar starfsgreinar. Stjórnvöld geta gert kröfur til hvers umsækjanda um frekari menntun eða starfsreynslu og í reynd geta þessar kröfur verið svo umfangsmiklar, og málsmeðferðin svo flókin og mikil, að þær jafngildi í raun höfnun.

Á landamærasvæðinu á milli Svíþjóðar og Danmerkur hindrar flókið viðurkenningarferli um það bil 25.000 manns í því að sækja vinnu yfir Eyrarsund. Þetta er meðal þess sem fram kemur í skýrslu sem Damvad Analytics vann árið 2017, „Samhällsekonomisk analys av gränshinder. Kostnader för Greater Copenhagen“.

Á landamærasvæðinu á milli Svíþjóðar og Danmerkur hindrar flókið viðurkenningarferli um það bil 25.000 manns í því að sækja vinnu yfir Eyrarsund.

Damvad Analytics - Samhällsekonomisk analys av gränshinder Kostnader för Greater Copenhagen

Aðrar þjóðir lengra komnar

Árið 2018 gerðu Eystrasaltsríkin og Benelúx-ríkin með sér samninga um sjálfkrafa og gagnkvæma viðurkenningu á æðri menntun á milli ríkjanna. Nú vilja þau ganga lengra og kanna hvort hægt sé að gera hið sama varðandi lögvarðar starfsgreinar.

- Þegar Eystrasaltsríkin og Benelúx-ríkin hafa tekið í notkun gagnkvæma og sjálfkrafa viðurkenningu á æðri menntun geta Norðurlönd ekki verið þekkt fyrir að sitja eftir, segir Pyri Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar.

Á Norðurlöndum er löng hefð fyrir samstarfi sem byggist á trausti. Að mati hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar er því erfitt að sjá að nokkrar ástæður séu fyrir þvi að Norðurlönd ættu ekki að geta gert með sér svipaða samninga og Eystrasaltsráðið og Benelúx-sambandið. Slíkur samningur væri sömuleiðis í takti við framkvæmdaáætlun Norrænu ráðherranefndarinnar um hreyfanleika 2019–2021 sem hefur sama markmið.

- Nefndin skráir með ánægju hjá sér markmiðið fyrir Norrænu ráðherranefndina og lítur á þessa tillögu Norðurlandaráðs sem stuðning við frekara starf. Við höfum miklar væntingar um að sjá fljótlega árangur sem mun létta Norðurlandabúum lífið þegar þeir flytja og starfa í öðru Norðurlandi, segir fulltrúi Álandseyja, Mikael Staffas frá flokkahópi miðjumanna.

Tillagan var samþykkt einróma í Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndinni og verður nú send áfram til endanlegar umfjöllunar á þingi Norðurlandaráðs í Stokkólmi í lok október.

Við höfum miklar væntingar um að sjá fljótlega árangur sem mun létta Norðurlandabúum lífið þegar þeir flytja og starfa í öðru Norðurlandi.

Mikael Staffas, flokkahópi miðjumanna