Ný skýrsla sýnir að fjárfestingar í norrænum gagnaverum geta tvöfaldast fram til ársins 2025

19.11.18 | Fréttir
IT
Ljósmyndari
Johannes Jansson/norden.org
Skýrsla sem Norræna ráðherranefndin hefur gefið út sýnir fram á öran vöxt norrænna gagnavera fram til ársins 2025 og búist er við árlegum fjárfestingum sem nemur 2-4,3 milljörðum evra.

COWI Group vann rannsóknina “Data Centre Opportunities in the Nordics – An Analysis of the Competitive Advantages” og var hún gefin út af Norrænu ráðherranefndinni. Í henni er aðdráttarafl Norðurlandanna borið saman við hið svokallaða FLAP-D svæði (Frankfurt, London, Amsterdam, París og Dublin), gagnvart sívaxandi gagnamagni um allan heim og þeirri áskorun að takast á við sjálfbæran vöxt skýja, streymis og tölvuþjónustu.

Í skýrslunni er komist að þeirri niðurstöðu að Norðurlöndin séu líkleg til þess að auka hlut sinn vegna fimm lykilkosta sem þau búa yfir: nægjanlegrar endurnýjanlegrar orku, áreiðanlegra orkubirgða, lágs orkuverðs, pólitísks stöðugleika og greiðrar leiðar á markað, fyrst og fremst vegna þess að viðskipti eru aðgengileg.

Gert er ráð fyrir að fjárfestingar á norræna gagnaversmarkaðinum muni nema 2-4,3 milljörðum evra á ári árið 2025. Þetta miðast við árlega afkastagetu upp á 280-580 megawött á ári. Norðurlöndin eru vel tengd Bretlandi, meginlandi Evrópu og Bandaríkjunum og umfangsmikið ljósleiðarakerfi sem tengir Norðurlönd við Norður-Ameríku og Asíu er á skipulagsstigi.

„Norðurlöndin uppfylla öll helstu skilyrði.“

“Hýsingarfyrirtæki og risafyrirtæki eins og Facebook, Google, Amazon Web Services og Apple hafa fjárfest verulega í norrænum gagnaverum upp á síðkastið. Norðurlöndin uppfylla öll helstu skilyrði vegna staðarvals, allt frá áreiðanlegri endurnýjanlegri orku til ljósleiðarakerfis á heimsmælikvarða. Þetta veitir sterka stöðu gagnvart fjárfestingum fyrirtækja bæði í starfsemi sem þegar er fyrir hendi og í nýrri starfsemi,“ segir Jakob Dybdal Christensen, markaðsstjóri COWI og einn aðalhöfunda skýrslunnar. 

Auk raforkuframleiðslu sem er endurnýjanleg að tveimur þriðju hlutum á svæðinu og byggir til dæmis á lífmassa, vatnsafli, jarðhita og vindi, er samkeppnislegt gildi þess að auka samstarf þvert á landamæri á Norðurlöndum undirstrikað í skýrslunni.