Nýr spurningalisti kannar stöðuna á landamærasvæðunum eftir faraldurinn

06.07.22 | Fréttir
Människor på en tågperrong med munskydd mot covid-19.

Covid-19

Ljósmyndari
Ricky John Molloy / Norden.org
Hvernig upplifir fólk, sem býr og starfar á landamærasvæðum á Norðurlöndum og ferðast yfir landamæri vegna vinnu, tímann eftir kórónuveirutakmarkanirnar? Eru enn hindranir til staðar eða er nú hægt að ferðast sársaukalaust yfir landamærin? Það ætlar norræna Stjórnsýsluhindranaráðið sér að kanna með nýjum spurningalista.

Þetta er fjórði spurningalistinn sem Stjórnsýsluhindranaráðið stendur fyrir. Honum er ætlað að fylgja eftir fyrri lista sem lagður var fyrir í miðjum faraldrinum þegar takmarkanir landanna komu illa niður á landamærasvæðunum.

Í þetta sinn vill Stjórnsýsluhindranaráðið, sem vinnur að frjálsri för fyrir einstaklinga og fyrirtæki, fá upplýsingar um hvernig ferðir yfir landamærin ganga þegar takmörkunum vegna COVID hefur verið aflétt.

„Nýju upplýsingarnar eiga að sýna okkur hvort lífið á landamærasvæðunum sé orðið eðlilegt á ný eða hvort enn séu til staðar hindranir sem þarf að takast á við. Vonandi fáum við einnig upplýsingar um það hvort faraldurinn hafi haft einhverjar langvarandi afleiðingar fyrir ferðir yfir landamæri okkar,“ segir Vibeke Hammer Madsen, formaður Stjórnsýsluhindranaráðsins.

Á fyrst og fremst við um landamærasvæði og daglega ferðalanga

Spurningalistinn er ætlaður fólki sem býr, starfar, stundar nám eða rekur fyrirtæki á landamærasvæði og þeim sem ferðast á milli tveggja norrænna landa vegna vinnu, náms, fyrirtækis eða af öðrum ástæðum.

Hann á fyrst og fremst við um þau svæði þar sem mest er um daglegar ferðir til og frá vinnu yfir landamæri. Þó geta þátttakendur tilgreint aðrar landasamsetningar eins og til dæmis þau sem ferðast á milli Danmerkur og Noregs eða á milli Álandseyja og Svíþjóðar.

Fjórði spurninglistinn verður lagður fyrir í gegnum netið með sama hætti og hinir fyrri. Eins og áður vinnur Stjórnsýsluhindranaráðið með upplýsingaþjónustu Norrænu ráðherranefndarinnar, Info Norden, Øresunddirekt, Grensetjänsten Norge-Sverige og Gränstjänsten Sverige-Finland-Norge.

Spurningalistinn verður aðgengilegur á vefsvæðum samstarfsstofnananna út júlímánuð.

Skýrslur til ráðherranna

Frá því um miðjan mars 2020 hafa upplýsingaþjónusturnar reglulega veitt Stjórnsýsluhindranaráðinu upplýsingar um kórónuveirutengdar hindranir og hefur ráðið komið upplýsingunum áfram, meðal annars til norrænu samstarfsráðherranna. Niðurstöður fjórða spurningalistans verða einnig afhentar ráðherrunum.

Tilgangur spurningalistanna er að beina athygli að þeim vandamálum sem hljótast af mismunandi takmörkunum landanna og þannig stuðla að því að efla norrænt samstarf á krísutímum, einkum með tilliti til frjálsrar farar á milli landanna.

Fyrsti spurningalistinn var lagður fyrir í júní 2020, annar í desember sama ár og sá þriðji fyrir einu ári.