Opið fyrir tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2019

Per Ole Frederiksen on behalf of The Natural Resource Council of Attu on the west coast of Greenland receiving the Nordic Council Environment Prize for 2018 from Norwegian prime minister Erna Solberg.
Per Ole Frederiksen tekur á móti umhverfisverðlaunum Norðurlandaráðs fyrir árið 2018 fyrir hönd náttúruauðlindaráðsins í Attu á vesturströnd Grænlands, frá Ernu Solberg, forsætisráðherra Noregs.
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2019 munu heiðra norræn verkefni sem styðjast við félagslega, tæknilega eða annars konar nýsköpun til þess að minnka vistspor okkar með því að gera meira og betur með minna.
Stórneytendur á vörum og þjónustu
Þemað endurspeglar og styður við sjálfbærnimarkmið SÞ númer 12, sjálfbæra neyslu og framleiðslu.
– Norðurlönd eru með stærstu neytendum heims þegar kemur að efnisfrekum varningi og þjónustu. Slíkt framleiðsluhagkerfi stuðlar að sóun og er jafnframt skammsýnt og því leitum við nú snjallra og skilvirkra lausna til að leggja grunn að sjálfbærri framtíð á Norðurlöndum, segir Ethel Forsberg, formaður norrænu dómnefndarinnar.
Skilafrestur til 15. maí
Hver sem er getur sent inn tilnefningu. Tilnefningar skulu berast eigi síðar en miðvikudaginn 15. maí 2019.
Hægt er að tilnefna norræn fyrirtæki, samtök eða einstakling sem starfa á Norðurlöndum og/eða í samstarfi við aðila utan Norðurlanda. Verkefnin þurfa jafnframt að hafa einhverja tengingu við Norðurlönd.
Um verðlaunin og afhendinguna
Tilnefningar til verðlaunanna verða kynntar í september og verðlaunin verða veitt í tuttugasta og fimmta sinn við athöfn í Stokkhólmi þann 29. október 2019.
Verðlaunahafinn hlýtur 350.000 danskar krónur.
Sigurvegarar fyrri ára
2018 Náttúruauðlindaráðið í Attu, vesturströnd Grænlands (GL) – veiðimenn á svæðinu skrásetja athuganir sínar á umhverfi sjávar og setja fram tillögur að betri stjórnunarháttum
2017 RePack (FI) – endurnýtanlegar umbúðir fyrir rafræn viðskipti
2016 Too Good To Go (DK) – stafræn nýsköpun sem styður við sjálfbæran lífstíl
2015 Orkufyrirtækið SEV (FO) – græn raforka
2014 Reykjavíkurborg (IS) – víðtækt og markvisst starf í þágu umhverfisverndar
2013 Selina Juul (DK) – barátta gegn matarsóun