Ráðherrar vilja efla norrænt samstarf um samgöngumál

07.05.20 | Fréttir
Malmtåg
Photographer
Johannes Jansson/norden.org
Norrænu samgönguráðherrarnir vilja efla samstarfið á sviði samgöngumála. Ráðherrarnir efndu til óformlegs stafræns fundar þann 7. maí og voru sammála um að auka samstarfið á fjölda sviða, einkum hvað varðar grænar og sjálfbærar lausnir.

Samgöngugeirinn gegnir mikilvægu hlutverki í grænum umskiptum og þróunin er hröð þegar kemur að rafrænum samgöngum, sjálfbærari orkugjöfum og aðgerðum til að gera innviði sjálfbærari til framtíðar. Stór hluti samgangna á Norðurlöndum fer yfir landamæri og því vilja norrænu samgönguráðherrarnir kanna á hvaða sviðum sé vert að auka samstarfið milli landanna.

Á fundinum var velt upp fjölda raunhæfra og hugsanlegra samstarfssviða og urðu ráðherrarnir ásáttir um að koma á fót starfshópi sem falið yrði að greina þau svið sem mestur akkur væri í að eiga samstarf á innan ramma Norrænu ráðherranefndarinnar.

Ráðherrarnir ræddu einnig Covid-19 og einkum þær áskoranir sem fylgja því að opna samfélög landanna smám saman aftur eftir heimsfaraldurinn. Ráðherrarnir slógu því föstu að norrænu löndin stæðu þar frammi fyrir svipuðum viðfangsefnum og gætu lært heilmikið hvert af öðru.

Rík áhersla á sjálfbærar lausnir

Árið 2019 samþykkti Norræna ráðherranefndin nýja framtíðarsýn með því yfirlýsta markmiði að Norðurlönd væru orðin sjálfbærasta svæði heims árið 2030. Til að svo megi verða er þörf á samnorrænum þverlægum aðgerðum, meðal annars í samgöngumálum.

Á fundi sínum lögðu norrænu samgönguráðherrarnir áherslu á aðgerðir sem miðuðu að sjálfbærum lausnum.

„Danska ríkisstjórnin hefur sett sér það skýra markmið að dregið verði úr heildarlosun koltvísýrings í Danmörku um 70 prósent fram til ársins 2030. Það getur aðeins tekist ef við leggjum okkar af mörkum í samgöngumálum. Þess vegna vinn ég ötullega að því að tryggja að skýra, græna áherslu sé að finna í þeim samningum og samþykktum sem ég stofna til og kem að á næstu árum, því enginn vafi leikur á því að loftslagsvandinn er mikill og alvarlegur. Ég lít því afar jákvæðum augum hið nána samstarf sem norrænu löndin eiga sín á milli. Mikilvægt er að við höfum sterk, græn Norðurlönd sem innblástur, bæði fyrir okkur sjálf og önnur lönd heimsins,“ segir samgönguráðherra Danmerkur, Benny Engelbrecht, sem var fundarstjóri.