Rödd Norðurlanda heyrist í viðræðum Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni

18.05.22 | Fréttir
FN-flagga
Photographer
Andrej Ivanov/AFP/Ritzau Scanpix
Leysa verður vanda minnkandi líffræðilegrar fjölbreytni með alþjóðasamningi með mælanlegum markmiðum og skýrum kröfum um framkvæmd. Þannig hljóðar sameiginleg áskorun umhverfis- og loftlagsráðherra Norðurlanda til Sameinuðu þjóðanna. Þau lofa því að auka sjálf aðgerðir sínar til að tryggja líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndum.

Líffræðileg fjölbreytni fer hratt minnkandi á Norðurlöndum rétt eins og annars staðar í heiminum. Líffræðileg fjölbreytni fellur þó gjarnan í skuggann af loftlagsvandanum. Fólk er almennt ekki meðvitað um að brátt verður gengið frá nýjum alþjóðasamningi Sameinuðu þjóðanna um líffræðilega fjölbreytni. Hugmyndin er að náttúran fái sitt eigið „Parísarsamkomulag“ á fundi í Kunming í Kína síðar í ár.

Norðurlöndin geta sett pressu

„Norðurlönd gegna mikilvægu hlutverki í ýmsum alþjóðlegum viðræðum um umhverfis- og loftlagsmál. Þess vegna er mjög jákvætt að við getum unnið saman að því að ná háleitum markmiðum okkar,“ segir Annika Strandhall, umhverfis- og loftlagsráðherra Svíþjóðar.


Þegar hún og hinir norrænu ráðherrarnir hittust í Ósló þann 3. maí komust þau að samkomulagi um sameiginlega norræna stefnu fyrir lokaviðræður Sameinuðu þjóðanna og grundvöll fyrir það hvernig leysa má úr vandanum heima fyrir.

Tími til að setja mælanleg markmið

Ráðherrarnir skrifa meðal annars að gera þurfi „róttækar breytingar“ til að vinna gegn minnkun líffræðilegrar fjölbreytni og að nýi alþjóðasamningurinn verði að kveða á um mælanleg markmið sem stuðli að aðgerðum sem fyrst í öllum löndum.

Alþjóðanáttúruverndarsjóðurinn í Danmörku hefur lengi kallað eftir norrænu samstarfi í viðræðunum og fagnar yfirlýsingu ráðherranna.

30 prósent náttúrunnar skal njóta verndar

„Það er jákvætt að norrænu umhverfisráðherrarnir setji sér háleit markmið um nýja alþjóðasamninginn um líffræðilega fjölbreytni. Þeir styðja meginmarkmiðið um að 30 prósent náttúrunnar njóti verndar árið 2030, en ég sakna þó beinna markmiða um hvernig minnka má alþjóðlegt vistspor okkar,“ segir Thor Hjartsen, Lead conservation specialist for biodiversity hjá Alþjóðanáttúruverndarsjóðnum í Danmörku. 

Auðugri lönd þurfa að greiða meira

Hann bendir á að einnig skipti miklu máli að auðug lönd á borð við Norðurlönd taki meiri ábyrgð á að fjármagna samninginn.
Á heimaslóðum vilja ráðherrarnir uppfæra aðgerðaáætlanir landanna um líffræðilega fjölbreytni til samræmis við nýja alþjóðasamninginn sem fyrst. Þeir skrifa einnig að þeir óski eftir fullu samstarfi við frumbyggja, staðbundin samfélög og ungmenni þegar samningurinn verður að veruleika á Norðurlöndum.

19 kröfur frá norrænum ungmennum

Þetta hefur einnig verið krafa norræna ungmennasamstarfsnetsins NYBN (Nordic Youth Biodiversity Network), sem með stuðningi 2500 norrænna ungmenna lagði fram 19 kröfur fyrir nýja alþjóðasamninginn. Margar af kröfum ungmennanna endurspeglast í yfirlýsingu umhverfisráðherranna.

„Styðjum suðurhluta heimsins!“

„Það er uppörvandi að ráðherrarnir vilji að ungmenni, frumbyggjar og staðbundin samfélög taki þátt framkvæmd nýja samningsins um líffræðilega fjölbreytni. Við vildum óska að þeir hefði einnig sett menntun um líffræðilega fjölbreytni á Norðurlöndum í meiri forgang og stutt suðurhluta heimsins í meira mæli en í dag,“ segir Annika Lepistö hjá Nordic Youth Biodiversity Network.

Lestu meira