Samnorrænar aðgerðir í tengslum við kórónuveirufaraldurinn

17.04.20 | Fréttir
Mogens Jensen
Photographer
Ask Lyno-Hansen
Norrænu ríkin sameinast um rannsóknir og aðrar markvissar aðgerðir til þess að hjálpa svæðinu að komast út úr þeim erfiðu aðstæðum sem COVID-19 hefur leitt af sér. Á aukafundi sínum 17. apríl ákváðu norrænu samstarfsráðherrarnir að leggja áherslu á þessar aðgerðir í fjárhagsáætlunum Norrænu ráðherranefndarinnar árin 2020 og 2021.

Hluti styrkjanna er ætlaður heilbrigðisgeiranum. Útfærsla styrkjanna og endanlegar fjárhæðir verða ákveðnar nánar þegar hægt verður að beina sjónum að afleiðingum faraldursins, bæði innan heilbrigðiskerfisins og á öðrum sviðum samfélagins á komandi árum. Markmiðið er meðal annars að stofna til eins skilvirkrar miðlunar þekkingar og reynslu og kostur er og beina stuðningnum að þeim sviðum þar sem hann kemur að bestum notum. 

Norrænu ráðherrarnir hafa verið í stöðugu sambandi á tímum kórónuveirufaraldursins, bæði á tvíhliða fundum og á fjölmörgum óformlegum fundum.

Danmörk, Grænland og Færeyjar fara með formennsku í Norrænu ráðherranefndinni árið 2020. Danski samstarfsráðherrann, Mogens Jensen, segir að norrænt samstarf sé nýtt með skilvirkum hætti í viðbrögðum við afleiðingunum af COVID-19. 

„Við höfum mikið gagn af því að miðla reynslu og starfa saman á fleiri sviðum á Norðurlöndum. Þetta á vitanlega við um heilbrigðiskerfið en einnig aðra hluta samfélagsins - sérstaklega þegar kemur að afleiðingum faraldursins. Markmið okkar er líka að byggja samfélög okkar upp eftir faraldurinn á grænan og sjálfbæran hátt,“ segir Mogens Jensen.

„Fyrir okkur sem förum með formennsku í ráðherranefndinni skiptir miklu máli að Norræna ráðherranefndin bregðist hratt við áskorunum sem nú blasa við. Ég er ánægður með að þessi sérstaki fundur samstarfsráðherranna skyldi vera svona sammála um að forgangsraða aðgerðum í tengslum við COVID-19. Stuðningsaðgerðirnar verða útfærðar nánar í nánustu framtíð.“ 

Vinna við framtíðarsýn heldur áfram

Mogens Jensen leggur einnig áherslu á að aðlaga þurfi vinnuna innan Norrænu ráðherranefndarinnar að framtíðarsýninni sem forsætisráðherrarnir samþykktu haustið 2019. 

„Vinnan við aðgerðaáætlanir fyrir græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd heldur áfram með það að markmiði að við verðum enn betri í að finna pólitískar lausnir á sviðum sem skipta Norðurlandabúa máli. Ekki hefur dregið úr mikilvægi þeirrar vinnu í kórónuveirufaraldrinum. Markmið okkar er að norrænt samstarf verði öflugra að faraldrinum loknum."

Styrkir til heilbrigðisþjónustu og rannsókna

Rannsóknaráætlun hjá Nordforsk, sem er stofnun innan vébanda Norrænu ráðherranefndarinnar, var einnig liður í aðgerðaáætluninni sem rædd var á ráðherrafundinum. Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar er ánægð með ákvörðun fundarins.

„Við erum ánægð með að löndin nýti hið trausta og skilvirka fyrirkomulag samstarfs sem ráðherranefndin býr yfir,“ segir hún.

Vinna gegn stjórnsýsluhindrunum stendur yfir jafnt og þétt 

Samstarfsráðherrarnir fylgdu einnig eftir fyrri ákvörðun um að vinna að því að draga úr tilteknum vandamálum sem eru afleiðingar aðgerðanna við landamæri, til dæmis í tengslum við almannatryggingar fólks sem ferðast yfir landamæri vegna vinnu sinnar.

Norræna ráðherranefndin hefur á síðustu vikum jafnt og þétt safnað upplýsingum fyrir ríkisstjórnir landanna varðandi þær áskoranir sem blasa við fólki sem sækir vinnu yfir landamæri. Mörg þessara vandamála hefur verið hægt að leysa en eftir standa ýmis vandamál, meðal annars í tengslum við skattamál. Ráðherrarnir voru sammála um að leggja áfram ríka áherslu á að leysa þessi vandamál.

Contact information