Stefnubreyting fram undan – norrænt samstarf verður grænna

04.02.20 | Fréttir
MR-Sam
Ljósmyndari
Mary Gestrin
Það er auðvelt að segja að Norðurlönd eigi að verða sjálfbærasta og samþættasta svæði í heimi – en það er töluvert erfiðara að láta gjörðir fylgja orðum. Forsætisráðherrar Norðurlanda samþykktu í fyrra nýja framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf. Síðan þá hefur staðið yfir undirbúningur fyrir eftirfylgni þeirra metnaðarfullu markmiða sem sett eru fram í framtíðarsýninni. Nú hefur áætlunin verið nánar skilgreind og ljóst er að stórar breytingar eru fram undan.

Í nýrri framtíðarsýn fyrir samstarfið eru eftirfarandi þrjú svið í forgangi: græn Norðurlönd, samkeppnishæf Norðurlönd og félagslega sjálfbær Norðurlönd. Þessi þemu verða rauður þráður í öllu starfinu og tekið verður mið af þeim við gerð fjárhagsáætlunar.

Á fundi norrænu samstarfsráðherranna í Kaupmannahöfn þann 4. febrúar voru markmið næstu ára staðfest. Ráðherrarnir vilja að vægi grænna gilda verði stóraukið í samstarfinu. Á lista yfir áþreifanleg markmið er meðal annars að stuðla að og rannsaka kolefnishlutleysi, styðja við hringrásar- og lífhagkerfi og vinna að því að tryggja líffræðilegan fjölbreytileika.

Norðurlandabúar þátttakendur í undirbúningnum

- Með þessari ákvörðun sýnum við að nýja framtíðarsýnin er ekki bara orðin tóm – þvert á móti er um að ræða raunverulega stefnubreytingu í samstarfinu, segir Mogens Jensen, norrænn samstarfsráðherra Danmerkur.

Hann undirstrikar að samráð hafi verið haft við öll löndin og öll stig stjórnmálanna, sem og auðvitað Norðurlandaráð, í undirbúningnum.

- Að þessu sinni fengum við einnig fulltrúa úr borgaralegu samfélagi til að taka þátt, segir Mogens Jensen.

-Það er gríðarlega mikilvægt að íbúar á Norðurlöndum, sérstaklega ungt fólk, upplifi að árangur af norrænu samstarfi gagnist þeim og hafi tengingu við líf þeirra, segir hann. Í haust stóðum við fyrir umræðum í öllum höfuðborgum Norðurlandanna þar sem við söfnuðum saman sjónarmiðum og væntingum Norðurlandabúa af öllum stigum samfélagsins. Niðurstöðurnar úr þessum umræðum endurspeglast í markmiðum okkar.

Með þessari ákvörðun sýnum við að nýja framtíðarsýnin er ekki bara orðin tóm – þvert á móti er um að ræða raunverulega stefnubreytingu í samstarfinu

Mogens Jensen

Ráðherrarnir settu saman lista með 12 markmiðum sem er ætlað að móta samstarfið fram til ársins 2024. Auk skrefa í átt að grænna hagkerfi, er bent á þau tækifæri sem ný tækni hefur í för með sér.

Samkeppnishæfni verður efld með átaki í stafrænni þróun, rannsóknum og nýsköpun. Vinnumarkaðurinn verður þróaður svo hægt sé að nýta sem best tækifærin sem tækniþróun og vaxandi lífhagkerfi hafa í för með sér.

- Á sama tíma eigum við að muna að samstarf okkar grundvallast á menningu og sameiginlegu gildismati, segir Mogens Jensen. Menntun, jafnrétti og velferð eru undirstöður norræna velferðarkerfisins og þessi svið verða auðvitað áfram kjarni samstarfsins, segir hann.

Forgangsröðunin birtist líka í fjárhagsáætlun

Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri, er ánægð með skýra stefnumótun ráðherranna.

- Mér virðist bæði brýnt og þýðingarmikið að við þróum norrænt samstarf áfram með skýra framtíðarsýn fyrir augunum, segir hún.

Áhrif framtíðarsýnarinnar og stefnumótandi markmiða má þegar sjá í starfi þessa árs, en frá og með næsta ári munu þau einnig móta fjárhagsáætlun fyrir samstarfið.

- Það verður tilfærsla í græna átt, segir Mogens Jensen. Menning og menntun verða áfram lykilsvið í norrænu samstarfi, en við þurfum að setja meira fjármagn í umhverfis- og sjálfbærnisstarf ef við eigum að ná þeim árangri sem við viljum.

Endanleg ákvörðun um fjárhagsáætlun fyrir árið 2021 verður tekin á þingi Norðurlandaráðs í október.

Mér virðist bæði brýnt og þýðingarmikið að við þróum norrænt samstarf áfram með skýra framtíðarsýn fyrir augunum

Paula Lehtomäki