Svona á að bæta lífsgæði LGBTI-fólks á Norðurlöndum

05.11.20 | Fréttir
Samkönat par
Ljósmyndari
Johnér
Norðurlöndin eru meðal þeirra framsæknustu í heimi á sviði LGBTI. En þrátt fyrir að mikilvægar lagasetningar séu fyrir hendi þá eru enn miklar áskoranir á þessu sviði. Þess vegna hafa jafnréttismálaráðherrarnir ákveðið að auka metnaðinn. Markmið nýrrar stefnumörkunar er að LGBTI-fólk geti lifað frjálsu, opnu og góðu lífi á Norðurlöndum.

Þetta er í fyrsta sinn sem unnin er stefnumörkun vegna LGBTI-fólks á Norðurlöndum. Jafnréttismálaráðherrarnir hafa komið sér saman um skýra og markvissa framtíðarstefnu. 

„Við munum vinna að því að LGBTI-fólk geti lifað frjálsu og opnu lífi á Norðurlöndum og að lífsgæði þeirra og lífsskilyrði séu eins góð og annarra borgara,“ sagði Mogens Jensen, jafnréttismálaráðherra Danmerkur þegar hann stýrði fundi jafnréttismálaráðherranna á fimmtudaginn. 

Ný úttekt sýnir hvar kreppir að

Staðan er þannig nú að LGBTI-fólk hefur ekki sömu tækifæri og réttindi og meirihluti fólks – það kemur fram í nýrri úttekt sem jafnréttismálaráðherrarnir hafa látið gera.

Neikvætt viðhorf og skortur á lagalegri vernd dregur úr lífsgæðum og hefur neikvæð áhrif á andlega heilsu LGBTI-fólks.

Vanþekking yfirvalda, í heilbrigðisþjónustu, skólum og félagsþjónustu þvingar eldra transfólk inn í skápinn á dvalarheimilum aldraðra og gerir að verkum að unga fólkið þorir ekki að koma út í skólanum.

Þetta kemur fram í úttektinni sem meðal annars byggir á spurningalistum og samtölum við samtök sem vinna að LGBTI-réttindum um öll Norðurlönd. 

Flóttafólk og regnbogafjölskyldur

Staða Norðurlandanna er góð í alþjóðlegum samanburði. Löndin veita meðal annars LGBTI-flóttafólki vernd og hafa náð langt þegar kemur að tækifærum LGBTI-fólks til að stofna fjölskyldu.

En Norðurlöndin hafa dregist aftur úr þegar kemur að því að viðurkenna lagalegt kyn og vernd gegn mismunun fólks með mismunandi afbrigði intersex. 


Í Finnlandi er enn gerð krafa um að fólk sem vill breyta lagalegu kyni sínu gangist undir ófrjósemisaðgerð. Í nokkrum af norrænu löndunum skortir vernd fyrir transfólk í lögum um hatursglæpi. Í Færeyjum og á Grænlandi er ekki hægt að breyta lagalegu kyni sínu. 

Ný lög í vinnslu

Unnið er að þessum málefnum heima fyrir í öllum löndunum. Á Íslandi voru nýlega samþykkt lög um kynrænt sjálfræði, í Danmörku er unnið að aukinni vernd gegn hatursglæpum og í Finnlandi stendur til að hætta að gera kröfu um ófrjósemisaðgerðir og setja lög þar sem kynrænt sjálfræði er virt. 


En jafnvel þótt lög og reglur séu bættar þá stendur eftir vanþekking og úrelt viðhorf.

Þrjú áherslusvið

Jafnréttismálaráðherrarnir samþykktu á fundi sínum 5. október sameiginlega stefnumótun til þess að takast á við þær áskoranir sem út af standa. Þrjú aðgerðasvið eru sett í forgang til þess að mæta þeim þörfum sem bent er á í úttektinni. 

Þetta eru aðgerðasviðin: 

  • Frelsi og hreinskilni hefur það markmið að allt fólk eigi að geta starfað og átt heima á Norðurlöndum án ótta við ofbeldi, hatur og mismunun. Nú á LGBTI-fólk sem hefur notið kynræns sjálfræðis eða stofnað fjölskyldu í einu landi á hættu að tapa þessu með því að flytja milli landanna.
  • Lífsgæði og lífsskilyrði tekur mið af þeim mikla mun sem er á andlegri og líkamlegri heilsu LGBTI-fólks og meirhlutans. Markmiðið er að bæði heilbrigðiskerfið og vinnumarkaðurinn sé aðgengilegur á jafnréttisgrunni.
  • Samstarfsnet og almenningur þar lofa jafnréttismálaráðherrarnir því að styðja starfsemi LGBTI-samtaka og vinna með þeim að útfærslu aðgerðanna.

Samstarf er nauðsynlegt

Stefnumótunin tekur gildi eftir áramótin þegar Finnland tekur við formennsku í ráðherranefndinni. 


„Ég fagna aukinni áherslu á LGBTI-málefni í norrænu samstarfi.  Til þess að almenningur finni fyrir þessum aðgerðum í daglegu lífi sínu verður stjórmálafólk að vinna með almenningi og LGBTI-samfélaginu,“ sagði Thomas Blomqvist, jafnréttismálaráðherra Finnlands. 

 

Neðanmálsgrein 1: Stefnumótunin á sviði LGBTI sem samþykkt var verður felld inn í núgildandi samstarfsáætlun jafnréttismálaráðherranna og gefin út árið 2021.

Neðanmálsgrein 2: LGBTI er samheiti fyrir samkynhneigð, tvíkynhneigð, trans og intersex.