Svona er erfiðum viðfangsefnum samtímans lýst í norrænum barnabókmenntum

09.02.22 | Fréttir
Illustration av Sara Lundberg
Ljósmyndari
Illustratör: Sara Lundberg
Rótleysi og ný fjölskyldumynstur, að vera utanveltu, margbreytileiki og átök. Í nýju safnriti er kafað ofan í það hvernig sjálfbærni birtist í norrænum bókmenntum sem ætlaðar eru börnum og unglingum. Í rannsóknarritgerðum, myndum og sögum er greint frá straumum og sjónarhornum samtímans á Norðurlöndum.

Safnritið „På tværs af Norden – Social holdbarhed i nordisk børne- og ungdomslitteratur“ (Þvert á Norðurlönd – Félagsleg sjálfbærni í norrænum barna- og unglingabókmenntum) er afurð einstaks samstarfs norrænna fræðimanna, rithöfunda og myndskreyta. Þau hafa kannað í víðu samhengi hvernig erfið viðfangsefni á borð við ofbeldi, andlát og sjúkdóma, en einnig kímni og draumurinn um betri veröld, birtast í þeim bókmenntum sem fylla hillur ungra Norðurlandabúa. Þetta safnrit er hið síðasta í þriggja binda röð.

Sjálfbærni sem hugsjón

Á tímum þar sem fyrirsagnir um loftslagsvanda og umhverfisspjöll tröllríða öllu getur verið erfitt að takast á við svo víðtækt hugtak sem sjálfbærni er út frá bókmenntafræðilegu sjónarhorni. Almennt er sjálfbærni lýst út frá þríþættu sjónarhorni, þ.e. félagslegu, efnahagslegu og umhverfislegu, þar sem félagsleg sjálfbærni leggur áherslu á manninn.

„Sjálfbærni er ofarlega á baugi. Hvort sem horft er til efnahags, framleiðslu, neyslu, fólksflutninga eða innan- og utanríkisstefnu er sjálfbærni haldið á lofti sem hugsjón sem tryggi langtímahugsun og stöðugleika (kjarnann í sjálfbærni),“ skrifar Peter Kostenniemi, doktorsnemi í bókmenntafræði við Stokkhólmsháskóla.Hann nefnir einnig dæmi um það hvernig ósjálfbærni birtist í bókum:

„Sögur af uppvakningum í kjölfar heimsendis lýsa ósjálfbærni í sinni öfgakenndustu mynd: hinir lifandi dauðu nærast á þeim lifandi, auðlindir þverra í kjölfar hömlulausrar neyslu og mannleg sambönd fjara út í fjandskap og samkeppni.“

Raunveruleikinn eins og hann er

Hvernig ávarpa norrænar barna- og unglingabókmenntir þessa hugsjón, þessa félagslegu sjálfbærni? Og er það á annað borð hægt? Anna Karlskov Skyggebjerg (fil.dr.) og varadeildarstjóri hjá DPU í Árósarháskóla segir norrænar myndabækur tiltölulega ófeimnar:

„Þótt norrænar myndabækur fáist oft við bannhelg viðfangsefni er oft rætt um hvort hægt sé að skrifa um áföll, þar á meðal stríð, fyrir börn.“

Í safnritinu er það rætt út frá mismunandi sjónarhornum hvort bókmenntir fyrir ungt fólk eigi að vera bætandi fyrir samfélagið og greint er frá því að þótt bókmenntirnar vilji vel þýði það ekki að sagan þurfi að vera mjúkmál.

„Félagsleg sjálfbærni í barnabókmenntum snýst ekki um pólitísk slagorð heldur birtir fagurfræðilega sýn um að eitthvað sé að og að það sem er ætti í raun að vera öðruvísi,“ segir Olle Widhe, prófessor í bókmenntafræði við háskólann í Gautaborg.

Björn Sundmark, prófessor í ensku við háskólann í Malmö, lýsir hinu kyrrstæða og hinu kvika sem tveimur grundvallarsjónarmiðum um hvernig ná megi félagslegri sjálfbærni sem stefna í ólíkar áttir. Sjónarmið sem einnig megi greina í bókmenntunum:

„Annars vegar er það fortíðarþrá í anda Ólátagarðs og miðaldaveraldar fantasíunnar þar sem hlutverkin eru (oftast) föst, fyrirsjáanleg og örugg. Hins vegar loforð bókmennta hinseginleikans og margbreytileikans um breytingar, möguleika og tækifæri. Það eru tvö gerólík stef við félagslega sjálfbærni.“

Nadia Mansour (fil.dr.), yfirmaður kennaranáms í Árósum, rannsakar hvernig minnihlutahópar koma fyrir í barna- og unglingabókmenntum:

„Í skilgreiningu minni á fjölmenningarlegum bókmenntum færi ég rök fyrir því að leggja áherslu á innlendar fjölmenningarlegar frásagnir. Ég leitast við að efla þjóðlega samheldni með því að skrifa um minnihlutahópa sem eru hluti af sjálfsmynd landsins.“

Sex frásagnir og sjálfbær hringrás

Jesper Wung-Sung og Jenny Lucander, Zakiya Ajmi og Sara Lundberg ásamt Karen Siercke og Adam O. eru í hópi þeirra höfunda og myndskreyta sem lagt hafa til verk á borð við „Mif’s verden“, „Liv i rummet“ og „Lagkaos“ sem eru á meðal þeirra sex einstöku frásagna sem er að finna í safnritinu. Safnritið inniheldur einnig rannsóknarritgerðir um félagslegan óstöðugleika, minnihlutahópa og margbreytileika og sjálfbæra hringrás. Ritstjórinn og verkefnisstjórinn Sofie Hermansen Eriksdatter segir:

„Málstofurnar sem haldnar hafa verið í kringum safnritin hafa verið kjörinn fundarstaður þar sem fræðifólk, rithöfundar, miðlarar og myndskreytar frá öllum Norðurlöndum hafa getað komið saman og skipst á reynslu og hugmyndum. Þær hafa verið þverfaglegur og þverfagurfræðilegur vettvangur þar sem hugsjón verkefnisins hefur veitt innblástur þvert á fagsvið.“

Ritstjórarnir Mia Österlund og Maria Lassén-Seger líta björtum augum til framtíðar norrænna barna- og unglingabókmennta:

„Það þarf frjóan jarðveg ef takast á að rækta upp risa í barnabókmenntaheiminum sem skora norræna velferðarsamfélagið á hólm, fara ofan í saumana á því og skrifa og teikna ógleymanlegar bókmenntaverur og -umhverfi. Það er grundvallarstoð félagslega sjálfbærra barnabókmennta.“

Um verkefnið På tværs af Norden

På tværs af Norden er þriggja binda safnritaröð sem er hluti af Lyftet, átaksverkefni norrænu menningarmálaráðherranna á sviði barna- og unglingabókmennta. Meginverkefnið felst í árvissu þverfaglegu málþingi um norrænar barna- og unglingabókmenntir samtímans sem gefur af sér þrískipt safnrit um þemu málþingsins og önnur málefni sem við eiga. Textarnir í safnritinu eru skrifaðir á dönsku, norsku og sænsku.