Tíu hápunktar frá COP26

16.12.21 | Fréttir
COP26 Helsinki
Photographer
Seppo Samuli

Frá viðburðinum „We have a dream – Solutions and demands by young people“ sem Norðurlandaráð stóð fyrir í norrænu miðstöðinni í Helsingfors.

Frá aðild Grænlands að Parísarsáttmálanum til kynjaðrar loftslagsstefnu og kynningar á nýjum 115 milljarða evra fjárfestingarsamtökum, Climate Investment Coalition. Hér er stiklað á stóru um það sem gerðist í norræna skálanum á nýafstaðinni loftslagsráðstefnu í Glasgow.

Sjötta árið í röð heyrðist rödd Norðurlanda hátt á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna. Á tveimur vikum tóku aðilar úr öllum heimshornum, þ. á m. stofnanir SÞ, skoskar ríkisstofnanir og norræn stjórnvöld og stofnanir, höndum saman til að vinna að loftslagsvandanum.

Í ár var systurskáli einnig staðsettur í Helsingfors, þar sem hægt var að komast bakdyramegin að COP-ráðstefnunni og haldnir voru margir loftslagsviðburðir, til viðbótar við aðalskálann í Glasgow. Skálarnir tveir náðu vel til fjöldans en alls voru haldnir ríflega 100 viðburðir og 3000 manns heimsóttu skálann í Glasgow og tæplega tvær milljónir fylgdust með beinum vefútsendingum.

Daglegir fréttamannafundir og mikilvægar tilkynningar

1. Lykilþáttur í dagskránni voru daglegir fréttamannafundir í hádeginu með norrænum sendifulltrúum og öðrum sérfræðingum. Á fréttamannafundunum fékkst innsýn í stöðu viðræðnanna og kynning á verkefnum í loftslagsmálum.

2. Skálinn var einnig vettvangur tilkynninga um nokkrar beinar aðgerðir í loftslagsmálum. Á fyrsta degi ráðstefnunnar lýsti Múte B. Egede, forsætisráðherra Grænlands, því t.a.m. yfir að Grænland ætlaði að gerast aðili að Parísarsáttmálanum eftir margra ára umhugsun.

Nordic Talks

3. Umræðuröðin „Nordic talks“, sem ætlað er að skapa umræður þvert á heimsálfur var með okkur í Glasgow. Yfirskriftin var „Inspire to Act – Act to inspire“ og fyrirkomulagið og hlaðvarpið passaði fullkomlega við markmið skálans. Umræðurnar á COP26 fjölluðu um fjölbreytt málefni, frá forystu Norðurlanda í loftslagsmálum til grænna og lífvænlegra borga í Afríku.

Fjármál – lykilatriði

Fjármögnun nýrra loftslagsaðgerða og bætur fyrir það tap og tjón sem þegar hefur orðið, einkum hjá þeim þjóðum sem veikast standa, var í brennidepli á loftslagsráðstefnunni. Tvö stór verkefni sem ýta eiga undir loftslagsfjárfestingar voru kynnt í norræna skálanum.

4. Norrænu forsætisráðherrarnir tilkynntu um 115 milljarða evra fjárfestingar norrænna og breskra lífeyrissjóða í þágu hreinnar orku og loftslagstengdra verkefna fyrir árið 2030 í gegnum fjárfestingarsamtökin Climate Investment Coalition. Um er að ræða gott dæmi um það hlutverk sem samstarf hins opinbera og einkaaðila leikur í því að flýta fyrir loftslagsaðgerðum. Norræna ráðherranefndin styður verkefnið með beinum hætti með fjárveitingu til að fá fleiri fjárfesta að borðinu.

5. Það er ekki síður kostnaðarsamt að fylgjast með áhrifum loftslagsbreytinga og Alþjóðaveðurfræðistofnunin ýtti ásamt UNEP og UNDP úr vör nýju fjárveitingakerfi sem nýtur mikils stuðnings nokkurra norrænu landanna og ætlað er að bæta eftirlit með öfgakenndu veðri í þeim löndum heims sem veikast standa.

Áhersla á framlag ungra sérfræðinga og samþætting kynja- og jafnréttissjónarmiða innan ramma sjálfbærrar þróunar skipaði veigamikinn sess í dagskránni.

Kyn og grasrótin

6. Jafnrétti kynjanna er forgangsmál á Norðurlöndum. Á jafnréttisdaginn á loftslagsráðstefnunni mátti sjá þess stað í umræðum um niðurstöður nýrrar rannsóknar sem studd var af Norræna starfshópnum um loftslagsmál og loftgæði um það hvernig betur megi tryggja kynjajafnrétti í loftslagsstefnu.

7. Heilt á litið var öflug þátttaka ungra sérfræðinga og aðgerðasinna á loftslagsráðstefnunni áberandi. Þetta kom vel í ljós á viðburðinum „We have a dream – Solutions and demands by young people“ sem Norðurlandaráð stóð fyrir þar sem samstarfsnetið Nordic Youth Biodiversity Network kynnti stöðuskýrslu sem byggð er á framlagi frá 3000 einstaklingum og lögð var fyrir norrænu ríkisstjórnirnar.

Náttúrumiðaðar lausnir og sjálfbært líferni

Loftslagsvandinn kallar á að við endurhugsum hvernig við lifum og notum náttúruauðlindir. Á loftslagsráðstefnunni voru kynnt tvö ný verkefni sem miða að þessu.

8. Stór hluti grænna umskipta á sér stað á heimilum fólks og Norðurlönd eiga langt í land þegar kemur að sjálfbærri neyslu. Verkefnið „Sustainable Lifestyle“ er þverlægt verkefni sem miðar að því að hjálpa fólki að taka grænar ákvarðanir og endurhugsa neyslumynstur sitt.

9.Úrbætur náttúrulegra kolefnisviðtaka eins og hafsins, skóga og mómýra geta haft mikil og jákvæð áhrif á loftslagsbreytingar og líffræðilega fjölbreytni. Á loftslagsráðstefnunni kynnti verkefnið „The Nature-Based Solutions Vision 2030 Project“ átta raundæmarannsóknir og tíu stefnumótandi valkosti frá norrænu löndunum og færð voru góð rök fyrir því að náttúrumiðaðar lausnir væru rétta leiðin til árangurs.

10. Um miðbik ráðstefnunnar fjallaði umræðuþátturinn Nordic Climate Action Talk Show um nokkur mikilvægustu málefnin og sérstök áhersla var lögð á umskipti, hlutverk sjálfbærra matvælakerfa og menningarlífið sem breytingarafl sem býður upp á mikla möguleika til að fjölga loftslagsaðgerðum. Einnig var rætt um hlutverk loftslagssamskipta við yfirmenn samskiptamála hjá skrifstofu rammasamnings SÞ um loftslagsbreytingar (UNFCCC) og milliríkjanefnd SÞ um loftslagsbreytingar (IPCC).

Þetta voru þeir tíu hápunktar sem við tíndum til. Ef þú vilt sjá alla norrænu viðburðina á loftslagsráðstefnunni geturðu heimsótt samstarfsaðila okkar, We Don’t Have Time, sem er stærsta samfélagsmiðlanet heims sem fjallar um loftslagsmál:

Árið 2019 skrifuðu norrænu forsætisráðherrarnir undir yfirlýsingu þess efnis að Norðurlönd stefndu að því að verða sjálfbærasta svæði heims fyrir árið 2030. Hluti af þessari framtíðarsýn er fólginn í þátttöku í loftslagsmálum á heimsvísu. Hvergi fæst betra tækifæri til þess en á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, COP26, sem fram fór í Glasgow dagana 1.–12. nóvember.