Velferðarstefna og sjálfbærni eiga samleið

25.03.21 | Fréttir
Ret til sundhedsydelser i Danmark
Lögð var áhersla á norrænt velferðarhagkerfi af hálfu formennsku Finna á fundi félags- og heilbrigðismálaráðherra í dag. Lagt er til grundvallar að ef samfélag fjárfestir í velferð manna og náttúru sé það um leið efnahagsleg fjárfesting. Þegar Norðurlöndin vinna saman á þessi svið aukist gildi þess fyrir alla íbúa svæðisins.

„Við viljum skapa betri skilning á því að líta verði á fjárfestingu í velferð almennings sem áhrifaþátt í sjálfbærum hagvexti. Gegnum sjálfbæran hagvöxt er hægt á gagnkvæman hátt að styðja velferð fólks og umhverfis,“ segir Aino-Kaisa Pekonen, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands. Tilefnið var þemaumræður norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherranna þar sem velt var upp hvernig samspil velferðarstefnu og sjálfbærrar efnahagsstefnu gagnast Norðurlöndunum.

Ef fólki líður vel þá líður hagkerfinu vel

Velferðarhagkerfi er órofa hluti af allri stefnumótun í Finnlandi og á Íslandi. Aino-Kaisa Pekonen, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands, kynnti við umræðurnar hvernig líta má á velferðarhagkerfi sem þverfaglega nálgun þar sem vellíðan fólks tengist þjóðarhag með beinum hætti. Með örlítilli einföldun má draga eftirfarandi ályktun: Ef íbúar Norðurlanda eru hraustir, búa við jafnrétti, stunda nám eða starf, eru afkastamiklir og nýskapandi og síðast en ekki síst hafa aðgang að traustu félags- og heilbrigðiskerfi þá eru allar forsendur fyrir sjálfbæru hagkerfi á sínum stað. Þetta er stutt tölum úr OECD skýrslu sem sýna jákvæða fylgni milli góðs efnahags og sterks mennta-, og félags- og heilbrigðiskerfis og öruggs samfélags yfirleitt.

      

Horft til Finnlands

Þótt öll norrænu löndin vinni ekki út frá sömu skilgreiningu á hugtakinu velferðarhagkerfi er alls staðar lögð áhersla á málefnið. Astrid Krag, ráðherra félags- og öldrunarmála í Danmörku, greindi frá því að Danir hefðu litið til Finna og sett á laggirnar félagsmálasjóð og að þriðja hvert sveitarfélag vinni út frá fjárfestingarlíkani í félagsmálum. Í Svíþjóð og á Álandseyjum er sjónum beint að lýðfræðilegri samsetningu með tilliti til hækkandi meðalaldurs og norski ráðherrann lagði áherslu á samstarf yfirvalda og félagasamtaka. Frá Færeyjum voru skilaboðin þau að á sviði heilbrigðis- og félagsmála sé áhersla lögð á andlega heilsu. Kaj Leo Holm Johannesen, heilbrigðisráðherra Færeyja, undirstrikaði að þetta ætti ekki síst við á tímum COVID-19.

Líta ber á fjárfestingu í velferð almennings sem áhrifaþátt í sjálfbærum hagvexti.

Aino-Kaisa Pekonen, félags- og heilbrigðismálaráðherra Finnlands

Jafnréttisáskoranir af völdum COVID-19

Á fundinum var rætt um tengsl áskorana liðins árs vegna COVID-19 við velferðarhagkerfið. Fram kom að þó að Norðurlönd hefðu staðið sig betur en önnur lönd og aðrir heimshlutar væri enn hægt að gera betur. Sérstök áhersla var lögð á jafnréttismál og rætt var um að víða á Norðurlöndum hefði komið í ljós að faraldurinn bitnaði ekki með sama hætti á öllum. Neikvæðar afleiðingar COVID-19 koma harðar niður á ungu fólki, fólki með fötlun, konum og fólki í viðkvæmri félagslegri stöðu heldur en öðrum hópum fólks.

 

Velferðarhagkerfi og Framtíðarsýn fyrir 2030

Norrænu félags- og heilbrigðismálaráðherrarnir eru sammála um að vinna eigi saman og læra af aðgerðum hvers annars innan velferðarhagkerfisins og að í því muni felast virðisauki fyrir aðgerðir í löndunum á þessu sviði. Hugmyndin um velferðarhagkerfi tengist beint framtíðarsýn Norrænu ráðherranefndarinnar fyrir 2030 um græn, samkeppnishæf og félagslega sjálfbær Norðurlönd og Heimsmarkmiðum Sameinuðu þjóðanna og þeim velferðarmarkmiðum sem þar er að finna.