Áhersla á matvæli og dýrafóður til að auka viðnámsþol Norðurlanda

24.06.20 | Fréttir
grässkörd
Photographer
Scanpix
Þrátt fyrir að viðskipti heimsins hafi raskast og fólk hamstrað mat á tímabili hefur heimsfaraldurinn ekki tæmt hillur matvöruverslana á Norðurlöndum. Hann hefur hins vegar sýnt okkur hvar við erum veik fyrir þegar matvæli eru annars vegar. Við erum að miklu leyti háð erlendu vinnuafli og innfluttum matvælum og dýrafóðri. Nú vilja norrænu ráðherrarnir á sviði landbúnaðar, skógræktar, matvæla, fiskveiða og fiskeldis auka viðnámsþol fæðuöryggis á Norðurlöndum.

40 prósent þess matar sem neytt er á Norðurlöndum eru innflutt. Dýraeldi er að nokkru leyti háð innflutningi á sojafóðri. 

Norðurlönd eru háð snurðulausum heimsviðskiptum bæði hvað snertir mat til manneldis og fóður til dýraeldis. 
Á uppskerutímum er landbúnaðurinn háður erlendu vinnuafli, sem útheimtir opin landamæri og frjálsa för.

Auk þess eru atvinnuvegir landbúnaðar, skógræktar, fiskveiða og fiskeldis háðir innflutningi – allt frá danska svínakjötinu til norska, grænlenska, færeyska og íslenska fisksins auk sænska og finnska kornsins og skógarafurðanna.

Þróum staðbundin matvælakerfi!

Áhrifa faraldursins hefur gætt bæði í fæðuöryggi og -framleiðslu, sögðu norrænu ráðherrarnir sem fara með þessi mál á rafrænum fundi sínum á miðvikudaginn. 

 
„Raskanir á heimsviðskiptum af völdum Covid19-heimsfaraldursins hefur leitt í ljós mikilvægi þess að standa vörð um, efla og þróa sjálfbær og samþætt Norðurlönd. Þróun staðbundinna og sjálfbærra matvælakerfa mun efla viðnámsþol okkar, einnig á dreifbýlum svæðum,“ segir Helgi Abrahamsen, umhverfis- og viðskiptaráðherra Færeyja og gestgjafi á fundinum.

Nýjar leiðir að viðskiptavinum og vinnuafli 

Faraldurinn hefur einnig orsakað breytingar. Þegar veitingastaðir lokuðu fóru fyrirtæki sem framleiða matvæli í smáum stíl að heimsenda vörur sínar til viðskiptavina. 
Landbúnaðarfyrirtæki hafa fundið vinnuafl í nærumhverfi. 
Áhugi á fóðurprótíni sem ræktað er í heimabyggð hefur aukist. 

 

Verkefni um að auka viðnámsþol

Norrænu ráðherrarnir ákváðu að láta greina það hvar við erum veikust fyrir, og hvernig nýta megi norrænt samstarf til að auka viðnámsþol okkar.
 
Svipað greiningarstarf fór af stað eftir að hættuástand ógnaði síðast hinum grænu atvinnugreinum Norðurlanda – þurrkarnir miklu sumarið 2018. Þá var uppskerubrestur á bilinu 20–50 prósent og ellefur þúsund skógareldar geisuðu í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð. 

Landbúnaður og skógrækt aðlöguð breyttu loftslagi

Þá skipaði Norræna ráðherranefndin tvo viðbragðshópa sem skrásettu reynslu landanna af þurrkinum.

Í niðurstöðum hópanna var fjallað um hvernig norrænu löndin geta lagað landbúnað sinn og skógrækt að breyttu loftslagi (sjá tengla neðst í frétt).

Á fundi sínum nú ræddu ráðherrarnir hvaða hlutverki grænar atvinnugreinar geti gegnt í því að gera Norðurlönd að sjálfbærasta svæði heims fyrir 2030 – sem er framtíðarsýnin í norrænu samstarfi.

Vannýtt tækifæri til þess að binda kolefni liggja bæði í landbúnaði og skógrækt. Kolefnisbinding dregur ekki aðeins úr losun út í andrúmsloftið, hún bætir einnig ræktunarlandið. Aukin kolefnisbinding er þegar orðinn liður í áætlunum allra norrænu ríkjanna til þess að verða kolefnishlutlaus.

Prótín úr grasi og þangi

Ráðherrarnir ræddu möguleikann á að auka innlenda framleiðslu prótína, meðal annars til að geta smám saman hætt að notast við innflutt sojafóður. 

Grasprótín, þang og aðrar aukaafurðir hafsins eru betri fyrir umhverfið og auk þess myndi notkun á slíkum afurðum auka sjálfsnægtastig Norðurlanda.

„Í Danmörku ýtum við aðgerðaáætlun gegn skógeyðingu úr vör í ár – og nú leitum við vitanlega innblásturs hjá nágrönnum okkar. Mér finnst að við ættum að fylkja liði til stuðnings framleiðslu á skógarafurðum sem ekki stuðla að skógeyðingu, svo og nýjum prótíngjöfum,“ sagði Mogens Jensen, ráðherra fiskveiða og fiskeldis, matvæla og norræns samstarfs í Danmörku.