Til mikils að vinna með samstarfi um gervigreind

25.10.19 | Fréttir
Tog
Ljósmyndari
norden.org
Á samkeppnishæfum og sjálfbærum Norðurlöndum er samstarf um tækniþróun styrkleiki sem leggja á rækt við. Í nýútkominni skýrslu er greint frá því hvernig sveitarfélög á Norðurlöndum hafa unnið með gervigreind. Mörg þeirra hafa prófað slíkar lausnir. Um leið er lítið um samstarf milli sveitarfélaga í löndunum.

Heimurinn og Norðurlönd standa á þröskuldi byltingarkenndrar tækniþróunar sem opnar á mikla möguleika. Gervigreind mun koma að gagni við lausn á mörgum þeirra viðfangsefna sem Norðurlöndin standa nú frammi fyrir. Hana má nýta til að bæta opinbera þjónustu, bjarga lífum innan heilbrigðiskerfisins og berjast gegn loftslagsbreytingum.

Sveitarfélög á Norðurlöndum vinna nú að því að tileinka sér slíka tækni. Því fylgja ýmis siðferðisleg álitamál. Eigum við til dæmis að nýta okkur gervigreind til að greina neyð fólks og hjálpa því fyrr en við hefðum annars getað gert? Yrði litið á slíkt sem góða þjónustu við íbúa landanna eða sem öfgafengið eftirlit? Meðferð álitamála af þessu tagi mun hafa áhrif – jákvæð eða neikvæð – á traust almennings á hinu opinbera. Það getur svo aftur haft áhrif á samfélagslegt traust á breiðari grundvelli, sem er almennt mjög mikið á Norðurlöndum og snar þáttur í hinni norrænu samfélagsgerð.

Skýrslan „Nordiske kommuners arbeid med kunstig intelligens“ („Starf norrænna sveitarfélaga að málefnum gervigreindar“) er rituð af greiningar- og gagnadeild Norrænu ráðherranefndarinnar. Í henni er því lýst hvernig valin sveitarfélög hafa unnið með málefni gervigreindar og hvaða áhrif það hefur á traust á Norðurlöndum. Truls Stende, aðalhöfundur skýrslunnar og ráðgjafi hjá Norrænu ráðherranefndinni, segir að ýmsar áhugaverðar niðurstöður komi fram í skýrslunni.

„Við höfum komist að því að þær leiðir sem sveitarfélögin fara í vinnu sinni með gervigreind geta haft allt að segja um það hvort traustið sem borið er til viðkomandi sveitarfélags verður fyrir neikvæðum eða jákvæðum áhrifum. Um leið var áberandi að mörg þeirra sveitarfélaga sem við ræddum við höfðu unnið með svipuð álitamál og lausnir, án þess þó að hafa kynnt sér hvert annars störf. Hér eru mikil sóknarfæri til samstarfs milli norrænu landanna,“ segir Stende.

Í skýrslunni er lögð áhersla á að samstarf milli norrænna sveitarfélaga geti stuðlað að því að innleiðing gervigreindarlausna verði liprari og skilvirkari en ella. Með samstarfi geti sveitarfélögin sameinað krafta sína og fyrirbyggt óæskileg atvik sem veiki traust almennings til þeirra. Með því að leggja færni sína og reynslu í púkk geti þau ennfremur tryggt betri útkomu þegar taka þurfi erfiðar ákvarðanir. Í skýrslunni er því lagt til að sveitarfélög miðli reynslu sín á milli reglulega og kerfisbundið, að norræn stefnumið verði þróuð og sameiginlegum rannsóknar- og þróunarverkefnum ýtt úr vör.

„í framtíðarsýn okkar fyrir 2030 leggja forsætisráðherrarnir meðal annars áherslu á að við stefnum að samkeppnishæfni og félagslegri sjálfbærni á Norðurlöndum. Þá er samstarf um tækniþróun afar mikilvægt. Eins og þessi skýrsla sýnir eru miklir ónýttir möguleikar á vettvangi sveitarfélaganna sem þróa má áfram,“ segir Paula Lehtomäki, framkvæmdastjóri Norrænu ráðherranefndarinnar.