Hvatt til að samræma klukkuna á Norðurlöndum

15.12.20 | Fréttir
Arbeta i flera länder samtidigt
Norðurlandaráð vill að meginland Norðurlandanna verði í sama tímabelti. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs ákvað á fundi sínum 15. desember að hvetja allar ríkisstjórnir á Norðurlöndum til þess að vinna saman að því að tímamismunur verði ekki meiri á Norðurlöndum en nú er.

Áhyggjurnar í Norðurlandaráði koma til af því að Evrópuþingið hefur þegar samþykkt að klukkunni verði ekki lengur breytt milli sumar- og vetrartíma. Ef ekki kemur til samhæfingar getur tímamismunur milli Norðurlandanna aukist. Samþykktinni var ætlað að taka gildi frá og með árinu 2021. Undirbúningur hefur hins vegar tekið lengri tíma en gert var ráð fyrir. Tímann sem gefst vegna þessa verður að nota skynsamlega að mati Norðurlandaráðs.

Á Íslandi var hætt að breyta klukkunni árið 1968 og ef önnur Norðurlönd samhæfa sig áður en hætt verður að breyta klukkunni í öllum Evrópusambandsríkjum þá mun það styrkja samþættingu Norðurlandanna.

Pyry Niemi formaður norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar sem einnig á sæti í forsætisnefnd telur að norrænu ríkisstjórnirnar verði að finna lausnir sem eru til bóta fyrir öll Norðurlönd.

„Evrópusambandið mun leggja af sumar- og vetrartíma fyrr eða síðar. Þá er eina vitið að Finnland, Svíþjóð, Noregur og Danmörk séu í sama tímabelti. Ísland hefur aldrei breytt klukkunni og með því að önnur norræn lönd hætti því líka þá styrkist samþætting Norðurlandanna. Við einföldum hreinlega málin fyrir íbúana í löndum okkar,“ segir Pyry Niemi.

Helsta áskorunin er sú að Finnland er nú í sama tímabelti og Eystrasaltsríkin. Mikilvægt er fyrir Finnland að það verði áfram svo vegna hinna rótgrónu tengsla sem eru milli Finnlands og Eystrasaltsríkjanna. Það á eftir að koma í ljós hvernig gengur að leysa þetta. Forsætisnefnd Norðurlandaráðs telur að mikilvægast sé að Norðurlöndin standi saman þegar hætt verður að breyta klukkunni.