Leiðbeiningar: Að starfa í Finnlandi

Opas: työskentely Suomessa
Ljósmyndari
David Siglin on Unsplash
Á þessari síðu eru upplýsingar sem komið geta að notum ef þú hyggur á eða ert um það bil að hefja störf í Finnlandi.

Þessar leiðbeiningar geta komið þér á sporið ef þú leitar að upplýsingum um atvinnuleit í Finnlandi, atvinnuleysisbætur og atvinnuleysissjóði í landinu, stéttarfélög, almannatryggingar í ýmsum vinnutengdum aðstæðum, sjúkradagpeninga og endurhæfingu, réttindi og skyldur launafólks og skattlagningu á tekjum.

Kynntu þér einnig efni síðunnar Leiðbeiningar: Að flytja til Finnlands, sem inniheldur almennar ráðleggingar varðandi flutninga til Finnlands.

Ef þú ert útsendur starfsmaður til Finnlands frá öðru landi eiga leiðbeiningarnar á þessari síðu ekki við um þig. Kynntu þér efni síðunnar Útsendir starfsmenn frá Finnlandi og til Finnlands.

Starfstengd leyfi, réttindi og skyldur í Finnlandi

Ef þú ert ríkisborgari norræns ríkis þarft þú ekki dvalar- eða starfsleyfi í Finnlandi. Þó gilda ákveðin skilyrði fyrir ríkisborgara ESB- eða EES-landa utan Norðurlanda og borgara annarra ríkja sem vilja dvelja eða starfa í Finnlandi. Nánari upplýsingar eru á síðunni Dvalar- og starfsleyfi í Finnlandi.

Ef þú hefur námsgráðu frá öðru landi mun vinnuveitandi í flestum tilvikum leggja mat á þá færni sem gráðan veitir fyrir starfið sem um ræðir. Í sumum starfsgreinum þarf þó að fá formlega viðurkenningu á prófgráðu eða starfsréttindum. Nánari upplýsingar eru á síðunni Viðurkenning á starfshæfni og erlendum prófgráðum í Finnlandi

Upplýsingar um starfssamninga, ráðningarsamninga og fleira sem tengist starfskjörum eru á síðunni Réttindi og skyldur launafólks í Finnlandi. Upplýsingar um stéttarfélög sem gæta hagsmuna launafólks eru á síðunni Stéttarfélög í Finnlandi.

Atvinnuleit í Finnlandi

Hægt er að sækja um vinnu í Finnlandi frá öðru landi eða eftir að komið er til Finnlands. Nánari upplýsingar eru á síðunni Atvinnuleit í Finnlandi.

Einnig er hægt að koma til Finnlands meðan á atvinnuleit stendur og fá þar atvinnuleysisbætur, en þá þarf að skrá sig atvinnulausan í brottfararlandinu með góðum fyrirvara. Nánari upplýsingar eru á síðunni um atvinnuleysisbætur í þínu heimalandi.

Ef þú þiggur atvinnuleysisbætur frá Finnlandi og langar að halda til atvinnuleitar í öðru norrænu landi skaltu kynna þér efni síðunnar Atvinnuleysisbætur í Finnlandi.

Atvinnuleysistryggingar í Finnlandi

Í Finnlandi eru atvinnuleysisbætur greiddar eftir tveimur mismunandi kerfum. Ef þú verður atvinnulaus/t og átt aðild að atvinnuleysissjóði getur þú fengið tekjutengdar atvinnuleysisbætur úr þínum sjóði. Eigir þú ekki réttindi í neinum atvinnuleysisjóði átt þú rétt á grunnbótum frá finnsku almannatryggingastofnuninni (Kansaneläkelaitos eða Kela). Eigir þú ekki rétt á neinum atvinnuleysisbótum getur þú fengið vinnumarkaðsstyrk. Nánari upplýsingar um þetta eru á síðunni Atvinnuleysisbætur í Finnlandi.

Almannatryggingar vinnandi fólks í Finnlandi

Þú getur smellt á tenglana hér að neðan og fundið frekari upplýsingar um almannatryggingar í Finnlandi.

Átt þú rétt á almannatryggingum í Finnlandi?

Flytjir þú til Finnlands vegna vinnu átt þú almennt tilkall til finnskra almannatrygginga frá upphafi vinnutímabils. Þó eru ýmsar undantekningar frá þeirri reglu. Nánari upplýsingar eru á síðunni Almannatryggingar í Finnlandi fyrir fólk sem býr þar eða starfar. 

Ef þú ert útsendur starfsmaður finnur þú réttar upplýsingar á síðunni Útsendir starfsmenn frá Finnlandi og til Finnlands. Ef þú ert fræðimaður eða þiggur styrk vegna náms eða fræðilegra rannsókna finnur þú upplýsingar á síðunni Rannsóknastarf og styrkþegar í Finnlandi.

Hvað ef ég vinn í Finnlandi og veikist?

Upplýsingar um almannatryggingar og rétt á heilbrigðisþjónustu í Finnlandi, svo og sjúkradagpeninga og endurhæfingu, eru á síðunum hér fyrir neðan.

Skattar í Finnlandi

Almenna reglan er sú að þú greiðir skatt í því landi sem þú býrð eða aflar þér tekna í. Búir þú í öðru landi en tekna er aflað í geta tekjurnar haft áhrif á skattlagningu þína í búsetulandinu. Þess vegna þarf að telja allar tekjur frá bæði búsetulandinu og starfslandinu fram til skatts.

Nánari upplýsingar eru á síðunni Skattar í Finnlandi eða á norrænu skattagáttinni, Nordisk eTax.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna