Andlát aðstandanda í Finnlandi

Omaisen kuolema Suomessa
Hér er sagt frá því hvernig tilkynna á andlát í Finnlandi og hvernig senda á þær upplýsingar áfram til annars norræns lands. Einnig segir frá erfðamálum, skrá yfir eignir dánarbús og erfðafjárskatti þegar aðstandandi fellur frá í Finnlandi. Einnig er greint frá því hvernig panta á opinbert vottorð vegna skráningar á eignum dánarbús í Finnlandi og hinum norrænu löndunum.

Ólíkt hinum norrænu löndunum þarf að leggja fram skrá yfir allar eignir látinnar manneskju sem hafði fasta búsetu í Finnlandi fyrir andlátið. Í Finnlandi er greiddur erfðafjárskattur af erfðafé.

Tilkynning um andlát til annars norræns lands

Ef borgari annars norræns lands deyr í Finnlandi eftir að hafa haft þar fasta búsetu, berast upplýsingar um andlátið almennt ekki beint til yfirvalda í hinu landinu. Ef liggur á að koma upplýsingum um andlátið til þjóðskrár í upprunalandinu þurfa ættingjarnir sjálfir að útvega staðfestingu á andlátinu hjá þjóðskrá dánarlandsins, og mögulega dánarvottorð frá sjúkrahúsi, og senda það þjóðskrá eða sambærilegri stofnun í fyrrum búsetulandi hins látna. Í Finnlandi fæst slík staðfesting hjá stofnuninni um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto).

Ef sænskur ríkisborgari með tímabundna búsetu í Finnlandi (án finnskrar kennitölu) deyr í Finnlandi er upplýsingum um andlátið komið til sænsku þjóðskrárinnar með milligöngu sænska sendiráðsins í Finnlandi, á grundvelli samnings Finnlands og Svíþjóðar um upplýsingamiðlun.

Tilkynning um andlát í Finnlandi

Beri andlát að höndum á sjúkrahúsi eða annarri heilbrigðisstofnun í Finnlandi sér viðkomandi stofnun um að tilkynna finnsku þjóðskránni og öðrum stofnunum um andlátið. Beri andlát sviplega að skal tilkynna það lögreglu. Þar að auki þarf að tilkynna andlát sérstaklega til stofnana á borð við viðskiptabanka og tryggingafélag hins látna.

Útför og útfararaðstoð

Í Finnlandi gefa læknar út útfararleyfi. Útfararleyfi er ýmist veitt aðstandanda sem sér um útför hins látna eða fulltrúa útfararstofu.

Kirkjugarðarnir sem finnskir kirkjusöfnuðir hafa umsjón með eru almennir kirkjugarðar, sem þýðir að fólk sem ekki tilheyrir viðkomandi söfnuði er jarðsett þar fyrir sama verð og safnaðarmeðlimir. Einnig er hægt að fá greftrunarstað í reit fyrir utan hinn vígða hluta kirkjugarðsins.

Séu líkamsleifar brenndar þarf að jarða öskuna eða koma henni varanlega fyrir á einum stað innan árs frá brennslu. Ösku má aðeins koma fyrir utan kirkjugarðs ef eigandi jarðarinnar hefur gefið leyfi og ef líkbrennsluaðila hefur verið gerð skriflega grein fyrir staðsetningunni.

Tekjulágar fjölskyldur geta sótt um útfararaðstoð hjá félagsmálayfirvöldum síns sveitarfélags. Ættingjar hermanna sem hafa særst eða veikst í stríði Finnlands gegn öðru ríki geta fengið útfararaðstoð úr ríkissjóði Finnlands.

Arfur, skrá yfir eignir dánarbús og erfðafjárskattur

Erfðaréttur

Sé annað ekki tekið fram í erfðaskrá erfast eignir hins látna samkvæmt finnskum lögum um erfðarétt. Fyrstu arfþegar eru börn eða afkomendur hins látna. Sé hinn látni barnlaus rennur arfurinn til maka, sé hann fyrir hendi. Ef hvorki maka né börnum er til að dreifa rennur arfurinn til foreldra hins látna, systkina hans, foreldra foreldra hans eða systkina foreldranna. Erfðaréttur nær ekki lengra en til systkina foreldra hins látna. Þau geta fengið arf, en það geta frændsystkin hins látna ekki.

Eftirlifandi maki á rétt á að búa áfram í sameiginlegu húsnæði, eigi hann ekki annað húsnæði sem hæft er til búsetu.

Látist einstaklingur án lögerfingja og erfðaskrár renna eignir hans til ríkissjóðs.

Erlendir ríkisborgarar eiga erfðarétt í Finnlandi til jafns við finnska ríkisborgara.

Skrá yfir eignir dánarbús

Ef hinn látni hafði fasta búsetu í Finnlandi við andlátið þarf að gera skrá yfir eignir dánarbús, þar sem gerð er grein fyrir eignum og skuldum hins látna og eftirlifandi maka hans. Skrá yfir eignir dánarbús þarf að vera tilbúin innan þriggja mánaða frá andláti og hana þarf að senda meðal annars skattayfirvöldum. Hægt er að sækja um aukinn frest til að skila skrá yfir eignir dánarbús. Rökstuðningur skal fylgja umsókninni. Nánari upplýsingar á vefsvæði skattayfirvalda í Finnlandi.

Opinbert vottorð með þeim upplýsingum úr þjóðskrá sem þarf til að ganga frá skrá yfir eignir dánarbús í Finnlandi, fæst hjá stofnuninni um stafræna væðingu og lýðfræðigögn (Digi- ja väestötietovirasto). Ef hinn látni bjó erlendis á lífsleiðinni þarf að panta opinbert vottorð frá öllum þeim löndum sem hann bjó í. Á vefsvæðinu „Finland abroad“ má finna greinargóðar upplýsingar um það hvernig sótt er um slíkt vottorð í norrænu löndunum.

Erfðafjárskattur

Greiða þarf erfðafjárskatt í Finnlandi af fé og eignum sem fólk erfir eða er ánafnað, ef arfláti eða erfingi hans bjó í Finnlandi við andlátið. Erfðafjárskattur er ákvarðaður á grundvelli skattframtals eða skrár yfir eignir dánarbús.

Hlutfall erfðafjárskatts er reiknað út frá virði arfsins og tengsla erfingja við hinn látna. Nánari upplýsingar um erfðafjárskatt veita skattayfirvöld í Finnlandi.

Fjölskyldulífeyrir

Einstaklingur sem misst hefur aðstandanda kann að eiga rétt á fjölskyldulífeyri. Nánari upplýsingar um fjölskyldulífeyri eru á síðunni Dánarbætur í Finnlandi.

Nánari upplýsingar

Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna