Vinnumarkaðsgreiðslur vegna veikinda á Grænlandi

Man in Nuuk
Photographer
Mads Schmidt Rasmussen / norden.org
Hér er að finna upplýsingar um gildandi reglur um rétt til vinnumarkaðsgreiðslna vegna veikinda á Grænlandi.

Í öllum grænlenskum bæjum er þjónustumiðstöð á vegum Majoriaq, sem er tengiliður sveitarfélaga á milli atvinnulífs, vinnumarkaðar og menntastofnana. Starfsfólk Majoriaq sinnir ráðgjöf og málsmeðferð í tengslum við atvinnuleysi og veikindi og getur aðstoðað þig við að finna námskeið, nám og aðrar leiðir til endurmenntunar, ef þú vilt bæta horfur þínar á vinnumarkaði eða hefja nýtt nám.

Hvenær áttu rétt á vinnumarkaðsgreiðslum vegna veikinda á Grænlandi?

Til að fá vinnumarkaðsgreiðslur á Grænlandi vegna veikinda þarftu að uppfylla eftirfarandi skilyrði:

  • Hafa náð 18 ára aldri eða hafa einhvern á framfæri þínu
  • Vera skráð/ur í þjóðskrá á Grænlandi

Hafa verið í starfi sem launþegi í a.m.k. 182 klukkustundir á undanförnum 13 vikum.

Hvað áttu rétt á mörgum veikindadögum?

Þú getur fengið vinnumarkaðsgreiðslur í 13 vikur og þær eru greiddar frá þriðja degi veikinda. Ef þú ert atvinnulaus eða hefur verið sagt upp og ef þú þiggur þegar vinnumarkaðsgreiðslur vegna atvinnuleysis, munu greiðslur vegna veikinda berast áfram í beinu framhaldi af atvinnuleysisgreiðslunum eftir að þú hefur tilkynnt veikindin.

Í sumum tilfellum er hægt að fá vinnumarkaðsgreiðslur strax frá fyrsta degi veikinda. Það á við ef orsökin er vinnuslys, eða ef þú ert í veikindaleyfi í tvær vikur eða lengur.

Sért þú oft í veikindaleyfi í skemmri tíma í senn, eða lengur en í þrjár vikur, taka yfirvöld í sveitarfélaginu ákvörðun um hvort að bjóða eigi þér annars konar aðstoð.

Hvernig er sótt um um vinnumarkaðsgreiðslur vegna veikinda?

Þú færð aðstoð við að sækja um vinnumarkaðsgreiðslur vegna veikinda hjá þjónustumiðstöð Majoriaq á þínu svæði. Þú þarft að hafa meðferðis:

  • Vottorð þess efnis að þú getir ekki unnið sökum veikinda, t.d. læknisvottorð. Ef þú ert í vinnu á vinnustaðurinn að greiða læknisvottorðið. Ef þú ert atvinnulaus getur þú fengið Majoriaq til að greiða læknisvottorðið.

Eða:

  • Vottorð þess efnis að þú sért í veikindaleyfi frá vinnustað þínum og fáir ekki laun a veikindatímabilinu.

Starfsfólk Majoriaq metur á staðnum hvort þú eigir rétt á vinnumarkaðsgreiðslum og upphæð greiðslna. Þú færð strax svar við umsókn þinni.

Eigir þú ekki rétt á vinnumarkaðsgreiðslum getur Majoriaq aðstoðað þig við að sækja um annars konar aðstoð frá hinu opinbera, ef þú:

  • Ert í veikindaleyfi vegna vinnuslyss og átt hvorki rétt á launum né vinnumarkaðsgreiðslum á veikindatímabilinu.
  • Ert í löngu veikindaleyfi eða með langvinnan sjúkdóm og átt hvorki rétt á launum né vinnumarkaðsgreiðslum á veikindatímabilinu.
Samband við yfirvöld
Spurning til Info Norden

Ef þú ert með spurningu eða ef þú hefur rekist á hindrun í norrænu landi skaltu fylla út eyðublað okkar.

ATH: Ef spurningin þín varðar afgreiðslu tiltekins máls eða umsóknar eða annarra persónulegra mála skaltu hafa samband við viðkomandi yfirvald.

Info Norden er upplýsingaþjónusta Norrænu ráðherranefndarinnar. Við gefum upplýsingar til fólks sem vill flytja, vinna, stunda nám, leita styrkjum eða hefja rekstur í öðru norrænu landi.
Leitaðu að skrifstofu Info Norden hérna