Yfirlýsing MR-K um verndun menningararfs í Úkraínu
Upplýsingar
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda fordæma stríðið sem geisar og brot Rússlands gegn fullveldi Úkraínu.
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda hvetja til verndar menningararfs í samræmi við samning UNESCO frá 1954 um vernd menningarverðmæta í vopnuðum átökum (Haag-samningsins) og tvær bókanir honum tilheyrandi og styðja yfirlýsingu UNESCO um vernd menningararfs.
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda undirstrika mikilvægi þess að staðið verði við skuldbindingarnar í samningi UNESCO frá 1970 um leiðir til að banna og hindra ólögmætan innflutning, útflutning og yfirfærslu eignarhalds á menningarverðmætum.
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda hvetja söfn á Norðurlöndum til að styðja við regluverk ICOM um söfn til að komast hjá ólöglegri verslun með menningarverðmæti.
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda viðurkenna starf aðila og stofnana úr norrænu menningarlífi í þágu þess að vekja athygli á þörfinni á tafarlausum stuðningi við vernd og varðveislu, og sameiginlega áeggjan norrænna safnasamtaka um að virða menningararfinn.
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda undirstrika að tjáningarfrelsi, listrænt frelsi, frelsi fjölmiðla og upplýsingfrelsi eru grundvallarreglur í virku lýðræði.
Menningarmálaráðherrar Norðurlanda undirstrika þörfina á því að vernda fréttamenn á svæðinu svo þeir geti stuðlað að frjálsri og óháðri umfjöllun fjölmiðla á meðan stríðið geisar, í samræmi við ályktun Sameinuðu þjóðanna 2222 (2015).