Næturlestin gengur enn í Norðurlandaráði

12.05.20 | Fréttir
Toglinje om natten
Ljósmyndari
Benjamin Suomela / Norden.org
Aukinn þrýstingur er á að næturlestartengingar milli höfuðborga norrænu ríkjanna og frá þeim til annarra Evrópulanda verði opnaðar á ný. Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin vill stuðla að því og leggur nú fram tillögu um að næturlestarsamgöngum verði komið aftur á.

Allt frá því á tíunda áratug síðustu aldar hefur fjöldi kílómetra sem hver farþegi ferðast með lest aukist gríðarlega í öllum norrænu ríkjunum. Norræn vinstri græn hafa því lagt fram tillögu um að norrænu ríkin starfi saman að því að innleiða næturlestarsamgöngur á ný. Þau telja afar mikilvægt að nýta þann skriðþunga sem fylgt hefur vaxandi áhuga á lestarsamgöngum.

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin fjallaði um tillögu Norrænna vinstri grænna á fjarfundi sínum miðvikudaginn 29. apríl 2020.

Formaður nefndarinnar, Pyry Niemi, segir ánægjulegt að nefndin hafi samþykkt tillöguna einróma.

- Þetta er skref í rétta átt að því að uppfylla framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030 og stuðlar að því að gera Norðurlönd að samþættasta og sjálfbærasta svæði heims. Þá eru góðar og umhverfisvænar samnorrænar lausnir alltaf velkomnar, segir Niemi.

Sænska ríkisstjórnin hefur þegar ákveðið að koma á næturlestartengingu til Danmerkur og áfram til fleiri Evrópulanda. Nú vill nefndin að næturlestarsamgöngur séu skoðaðar í víðu, norrænu samhengi.

Þetta er skref í rétta átt að því að uppfylla framtíðarsýn fyrir norrænt samstarf til ársins 2030 og stuðlar að því að gera Norðurlönd að samþættasta og sjálfbærasta svæði heims.

Pyry Niemi, formaður Norrænu hagvaxtar- og þróunarnefndarinnar

Þetta var samþykkt

Norræna hagvaxtar- og þróunarnefndin samþykkti eftirfarandi:

Norðurlandaráð beini tilmælum til ríkisstjórna Norðurlanda um:

  • að þær láti sameiginlega gera stöðulýsingu og þarfamat, meðal annars að því er varðar kostnað og fjármögnun, sem sýni tækifærin í og forsendurnar fyrir auknum næturlestarsamgöngum innan Norðurlanda og frá Norðurlöndum til annarra landa í Evrópu. Í slíkri greiningu ætti meðal annars að skoða hugsanleg áhrif á flug- og bifreiðasamgöngur auk hugsanlegra afleiðinga fyrir vöruflutninga.
  • að þær auki samstarf um að endurnýja næturlestartengingar milli norrænu höfuðborganna og frá þeim til annarra Evrópulanda, að því gefnu að greining leiði í ljós að þess háttar framtak stuðli að því að Norðurlönd verði sjálfbærasta og samþættasta svæði heims og að það verði til hagsbóta fyrir löndin.
  • að þær búi í haginn fyrir betri samræmingu á vöruflutningum innan Norðurlanda svo að flytja megi aukinn þunga frá akvegum yfir á járnbrautir og skip án þess að vöruflutningar með lestum þurfi að lenda í samkeppni við farþegaflutninga.
  • að þær greiði sameiginlega fyrir sameiginlegu stafrænu farmiðakerfi í löndunum og milli þeirra, jafnt fyrir lands- og svæðisbundnar almenningssamgöngur.