Nýjar heildarútgáfur Íslendingasagna og þátta á þremur tungumálum, dönsku, norsku og sænsku

28.04.14 | Fréttir
Hinn 28. apríl koma út hjá Saga forlagi í Reykjavík nýjar og glæsilegar heildarútgáfur Íslendingasagna og þátta á dönsku, norsku og sænsku. Þetta eru fyrstu samræmdu heildarútgáfur sagnanna 40 og 49 þátta á Norðurlöndunum. Sumar þessara sagna eru nú þýddar í fyrsta sinn á norsku og dönsku.

 Þýðingarnar eru allar nýjar, unnar á undanförnum sjö árum af fremstu fræðimönnum og þýðendum á hverja tungu og hafa verið vandlega yfirfarnar af fræðimönnum og rithöfundum með tilliti til nákvæmni og stíls. Verkið er fimm þykk bindi á hverri tungu og umfangið slíkt að hér er um að ræða eitt stærsta þýðingarverkefni sem ráðist hefur verið í á Vesturlöndum. Að því hafa starfað hátt í 100 norrænir þýðendur, fræðimenn og rithöfundar. Þá má nefna að þjóðhöfðingjar landanna þriggja, Margrét Þórhildur II Danadrottning, Haraldur V Noregskonungur og Carl XVI Gustav Svíakonungur rita heiðursformála í útgáfurnar.

Útgáfunni verður fagnað í Silfurbergi Hörpu mánudaginn 28. apríl kl. 14:30 með vandaðri hátíðardagskrá og kynningu á útgáfunni. Við það tækifæri munu Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra, Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra, Jóhann Sigurðsson útgefandi og Gísli Sigurðsson rannsóknarprófessor flytja ávörp, ritstjórar þýðinganna þriggja gera stuttlega grein fyrir verkunum og Jónas Ingimundarson píanóleikari og Sigrún Hjálmtýsdóttir óperusöngkona koma fram.  Dagskránni lýkur með því að Illugi Gunnarsson mennta- og menningarmálaráðherra afhendir  norrænum menningarmálaráðherrum fyrstu eintök þýðinganna.