Síðustu forvöð: Tilnefningar til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022

03.05.22 | Fréttir
miljøpris 2022 østergro
Photographer
Ritzau / Scanpix
Ábendingar um framúrskarandi verkefni óskast! Veist þú um einhvern sem ætti að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs? Þá eru nú síðustu forvöð – frestur til að skila tilnefningum rennur út þriðjudaginn 10. maí.

Í ár renna umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs til aðila á Norðurlöndum sem hefur lagt eitthvað sérstakt af mörkum í þágu líffræðilegrar fjölbreytni og baráttunnar við loftslagsvandann með náttúrumiðaðri lausn.

Þema ársins er ætlað að vekja athygli á því að náttúran og náttúrustjórnun eiga stóran þátt í að leysa loftslagsvandann og hnignun líffræðilegrar fjölbreytni og eru því mikilvægur liður í loftslagsbaráttunni. Einnig er bent á að náttúrumiðaðar lausnir efli ekki aðeins umhverfið heldur megi líka búa svo um að þær skapi félagslegt, menningarlegt og fjárhagslegt virði.

Öllum er heimilt að stinga upp á tilnefningum til verðlaunanna og koma 300.000 danskar krónur í hlut verðlaunahafans.

 

Veist þú um norrænt fyrirtæki, samtök eða einstakling sem verðskuldar verðlaunin í ár? Sendu tillögu að tilnefningu til umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs í síðasta lagi 10. maí.

Náttúrumiðaðar lausnir styðja við heimsmarkmið SÞ um sjálfbæra þróun nr. 14 og 15 sem snúa að lífi í vatni og lífi á landi. Með náttúrumiðuðum lausnum er hægt að styðja við þau markmið sem t.a.m. tengjast heilsu og vellíðan (3), hreinu vatni og hreinlætisaðstöðu (6), nýsköpun og uppbyggingu (9), sjálfbærum borgum og samfélögum (11) og aðgerðum í loftslagsmálum (13).

Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs

Verðlaunin voru fyrst veitt árið 1995 og markmiðið með þeim er að efla vitund um umhverfisstarf á Norðurlöndum. Þema umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2022 er líffræðileg fjölbreytni. Hver sem er getur komið með tillögu að tilnefningum til verðlaunanna. Umhverfisverðlaunin eru veitt norrænum samtökum, fyrirtæki eða einstaklingi sem öðrum til eftirbreytni hefur tekist að samþætta umhverfissjónarmið starfsemi sinni eða framtaki eða á annan hátt lyft grettistaki í þágu umhverfisverndar. Framlag hins tilnefnda verður að hafa norrænt sjónarhorn.

Tilkynnt verður um verðlaunahafann í tengslum við þing Norðurlandaráðs í Helsingfors í Finnlandi þann 1. nóvember 2022.