Handhafi Umhverfisverðlauna Norðurlandaráðs 2020

Jens-Kjeld Jensen
Ljósmyndari
Jens-Kjeld Jensen
Umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs 2020 hlýtur Jens-Kjeld Jensen frá Færeyjum. Þema verðlaunanna í ár er líffræðileg fjölbreytni og þau eiga að renna til norræns frumkvæðis sem tryggir auðugri náttúru fyrir framtíð okkar allra. Þemað endurspeglar og styður við 14. og 15. heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna um líf í hafi og á landi.

Rökstuðningur dómnefndar

Jens-Kjeld Jensen hlýtur verðlaunin fyrir viðleitni sína til að vekja athygli á fjölbreytileikanum í færeyskri náttúru.

Í meira en fjörutíu ár hefur Jens-Kjeld sankað að sér þekkingu og skrásett fróðleik um allt frá flóm, músum og fuglum til steingervinga, sveppa og runnagróðurs í færeysku fjalllendi.

Sem sjálflærður rannsakandi og miðlari hefur hann ritað bækur og mörg hundruð greinar sem birst hafa bæði í vísindatímaritum og tímaritum sem fjalla um vísindi á mannamáli. Þannig hefur hann upplýst færeyskan almenning og fagfólk, og – þegar þess hefur gerst þörf – varað við skaðlegum áhrifum ágengra tegunda og inngripa á hina viðkvæmu náttúru Færeyja.

Jens-Kjeld á í samstarfi við náttúruvísindafólk um allan heim og hefur komið að kortlagningu á yfir 350 nýjum tegundum í Færeyjum. Störf hans hafa aflað honum virðingar bæði Færeyinga og vísindafólks víða um heim og einnig hefur tegund náttfiðrilda verið nefnd í höfuðið á honum.Fjöldi færeyskra barna og fullorðinna hefur fengið innsýn í hinn undursamlega heim náttúrunnar í vettvangsferðum leik- og grunnskóla á heimili Jens-Kjelds á eynni Nólsey. Því finnst sömu börnum oft nærtækt að hugsa og leita til hans þegar þau sjá eitthvað spennandi úti í náttúrunni síðar á ævinni.

Framlag Jens-Kjelds Jensens til þess að auka skilning á fjölbreytileika færeyskrar náttúru og stuðla að varðveislu hennar er ómetanlegt og hann er fyrirmyndardæmi um það hverju sannur eldhugi getur komið til leiðar fyrir auðugri náttúru til framtíðar.

Það er því niðurstaða dómnefndar að Jens-Kjeld Jensen eigi að hljóta umhverfisverðlaun Norðurlandaráðs árið 2020.