2007 Sara Stridsberg, Svíþjóð: Drömfakulteten

2007 Sara Stridsberg, Sverige: Drömfakulteten

Um höfundinn

Fyrsta skáldsaga Söru Stridsberg, Happy Sally, kom út árið 2004. Hún hlaut góða dóma gagnrýnenda en þar segir frá Sally Bauer sem synti yfir Ermarsundið fyrst allra Norðurlandabúa. Sara Stridsberg hefur meðal annars þýtt SCUM-yfirlýsinguna á sænsku. Hún hefur einnig unnið við blaðamennsku og samið leikrit.

Um vinningsverkið

Drömfakulteten er önnur skáldsaga Söru Stridsberg og kom út árið 2006. Hún fjallar um Valerie Solanas, konuna sem gat sér frægðar fyrir að skrifa SCUM-yfirlýsinguna (Society for Cutting Up Men) í öfgafeminískum anda á 7. áratug síðustu aldar. Í Draumadeildinni kemur Sara Stridsberg því þannig fyrir að hún hittir Valerie Solanas rétt fyrir andlát hennar á hótelherbergi í vændishverfi í San Francisco. Þar segir Solanas höfundinum sanna sögu sína. Lesandinn fær innsýn í erfiða barnæsku Valerie Solanas og fylgir henni fram á fullorðinsár. Hún kynntist Andy Warhol á sjöunda áratugnum en samstarfi þeirra lauk þegar hún reyndi að ráða listamanninn af dögum. Valerie Solanas var dæmd til vistar á geðsjúkrahúsi en var færð yfir í fangelsi áður en hún lést 52 ára að aldri á hótelherberginu þar sem höfundurinn hittir hana í skáldsögunni.


Drömfakulteten

Útgáfa: Albert Bonniers Förlag 

Útgáfuár: 2006

Hér er rökstuðningur dómnefndarinnar

Draumadeildin er brennandi og margslungin skáldsaga um öfgafemínistann Valerie Solanas og dapurleg örlög hennar. Stridsberg blandar saman heimildum og skáldskap svo úr verður hrífandi verk. Draumadeildinn ber undirtitilinn „viðbót við kynlífsfræðina“ og er verkið átakanlegt uppgjör við ólíkar kúgunaraðferðir í samfélaginu. Þrátt fyrir alvarlegt viðfangsefni er Draumadeildin einstaklega kraftmikil skáldsaga með leikandi tungutaki.