Á ferð með mömmu – Ísland

Á ferð með mömmu
Ljósmyndari
Ursus Parvus
Kvikmyndin „Á ferð með mömmu“ er tilnefnd til kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2023.

Samantekt Jón er rúmlega fimmtugur, einhleypur og býr með móður sinni á afskekktum og einangruðum bæ í Arnarfirði á Vestfjörðum. Sagan gerist á áttunda áratugnum og mæðginin lifa við sjálfsþurftarbúskap, samband þeirra er fáskiptið og tómlegt en blendingshundurinn Brésnef heldur uppi stemningu á bænum. Þegar móðirin deyr þarf Jón að standa við loforð sem hann gaf henni um hinstu hvílu á æskuslóðum suður með sjó. Hann klæðir hana upp í sitt fínasta púss, farðar hana og varalitar og reyrir í aftursætið á eldgömlu cortinunni, þar sem hún situr í pelsinum sínum með hatt og slör.

Brésneff situr við hlið hans og saman fer þríeykið í hinstu för móðurinnar, þangað sem hún hefði viljað lifa lífi sínu. Móðir Jóns er hvergi nærri horfin í anda og talar við hann hvössum rómi á langri leið sem gengur hægt. Líf þeirra saman og föðurins sem brann inni í fjárhúsum áratugum áður fer að taka á sig mynd í gegnum samtal mæðginanna, ástarsamband Jóns sem aldrei fékk að verða og aðrir draugar fortíðar verða æ fyrirferðarmeiri og Jón áttar sig smám saman á því að tilvist hans veltur á því að taka loksins af skarið og horfast í augu við sjálfan sig, staðreyndir og hvert hann ætlar að stýra sínu lífi héðan af.

Rökstuðningur

Í kvikmynd sinni, Á ferð með mömmu, nýtir leikstjórinn og handritshöfundurinn Hilmar Oddsson klassískt form vegamyndarinnar á einkar árangursríkan hátt til að lýsa innra ferðalagi aðalpersónunnar, Jóns. Í þeirri ferð neyðist Jón til að horfast í augu bæði við litleysi eigin fortíðar og það líf sem hann fór á mis við.

Sú aðferð að hafa myndina í svarthvítu hentar efninu vel og endurspeglar grámann í Jóni sjálfum um leið og hún skapar þá upplifun að hér sé á ferðinni nokkur konar fabúla fremur en fullkomlega raunsæ frásögn. Þessi speglun á innra lífi aðalpersónunnar og hvernig það þróast er svo undirstrikuð og efld með landslaginu sem Jón ekur um á leið sinni. Ferðin hefst í þröngum fjörðum með bröttum hvassleitum fjöllum og illfærum malarvegum, liggur svo um svarta eyðisanda og lífvana hraunbreiður, áður en við tekur gróin víðátta og malbikaðir þjóðvegir. Framvindan í myndlíkingunni lýsir því vel hvernig vitund Jóns víkkar smám saman um leið og hann gerir sér grein fyrir öllu því sem hann hefur misst af í lífinu.

Á ferð með mömmu er svört kómedía, súrrealísk á köflum. Þar sem útgangspunktur ytri frásagnarinnar er afar einfaldur og skýr, getur leikstjórinn auðveldlega leyft sér að bregða á leik innan þess ramma, án þess að framvindan missi dampinn og hann nýtir þetta frásagnarlega frelsi sannarlega vel og áreynslulaust. Frásögnin einkennist af léttleika og fjöri, þrátt fyrir hið harmræna innihald um vannýtt líf. Sirkushópurinn sem birtist hér og þar á vandlega völdum stöðum í myndinni er fulltrúi þeirrar gleði og hamingju, sem hvarf úr lífi Jóns fyrir ævalöngu og tónlistin hjálpar til við að koma öllu þessu til skila.

Sem margreyndur leikstjóri hefur Hilmar augljóslega alla þætti kvikmyndalistarinnar á valdi sínu og tekst að segja sögu um mannlegan harmleik, með hlýju og húmor, oft án orða þar sem hann nýtir sér myndræna frásögn á einkar fallegan hátt, ásamt sérlega vel útfærðri tónlist.

Handritshöfundur og leikstjóri – Hilmar Oddsson

Hilmar Oddsson (f. 1957) er kvikmyndaleikstjóri, handritshöfundur og tónlistarmaður.Hann lauk meistaragráðu í leikstjórn árið 1986 frá kvikmynda- og sjónvarpsháskólanum í München. Á ferli sínum hefur Hilmar skrifað, leikstýrt og framleitt fjölda kvikmynda og heimildarmynda, svo sem Sporlaust, sem hlaut tvær tilnefningar til Edduverðlauna árið 2002, og Kaldaljós sem hlaut þrenn Edduverðlaun, þar á meðal sem besta myndin árið 2004. Nýjasta mynd hans, Á ferð með mömmu, var heimsfrumsýnd á Black Nights-kvikmyndahátíðinni í Tallinn og vann þar til verðlauna sem besta myndin. Hilmar gegndi einnig starfi rektors Kvikmyndaskóla Íslands 2010–2017.

Framleiðandi – Hlín Jóhannesdóttir

Hlín Jóhannesdóttir (f. 1973) starfar sem framleiðandi hjá Sagafilm og er meðeigandi reykvíska framleiðslufyrirtækisins Ursus Parvus. Hún er útskrifuð úr mannfræði og fjölmiðlafræði frá Háskóla Íslands. Frá árinu 2000 hefur Hlín starfað við framleiðslu sem aðstoðarframleiðandi, framleiðandi, meðframleiðandi, framleiðslustjóri og haft yfirumsjón með framleiðslu (e. line producer) og hefur alls komið að yfir 30 kvikmyndum, sem margar hverjar voru framleiddar af Zik Zak. Hún framleiddi meðal annars Smáfugla, margverðlaunaða stuttmynd Rúnars Rúnarssonar frá 2008, Skrapp út eftir Sólveigu Anspach (2008) og Svaninn eftir Ásu Helgu Hjörleifsdóttur (2017).

Á ferð með mömmu eftir Hilmar Oddsson var heimsfrumsýnd á Black Nights-kvikmyndahátíðinni í Tallinn þar sem hún vann til aðalverðlauna hátíðarinnar sem besta myndin.

Hlín er einnig meðstofnandi og yfirmaður framleiðslu hjá JONAA.org. Hún er fagstjóri leikstjórnar og framleiðslu hjá Kvikmyndaskóla Íslands og hefur verið framkvæmdastjóri skólans frá 2016.

Upplýsingar um myndina

Titill á frummáli: Á ferð með mömmu

Alþjóðlegur titill: Driving Mum

Leikstjóri: Hilmar Oddsson

Handritshöfundur: Hilmar Oddsson

Framleiðandi: Hlín Jóhannesdóttir

Framleiðslufyrirtæki: Ursus Parvus

Lengd: 114 mínútur

Dreifing á Íslandi: Sena

Alþjóðleg dreifing: Alief