Kristin Roskifte

Kristin Roskifte
Photographer
Kristin Roskifte
Kristin Roskifte: Alle sammen teller. Myndabók, Magikon, 2018.

Strákur liggur í rúminu sínu og horfir út um gluggann. Manneskja. Hann liggur og telur slög hjartans. Hann veltir fyrir sér hve margir aðrir séu að horfa á sömu stjörnur á sömu stundu.

Í þessari bók eru margar persónur sem furða sig á hlutum, kvíða einhverju, hlakka til einhvers eða sýta það að einhverju verði senn lokið. Það er hægt að telja þær en líka hægt að skoða myndirnar og furða sig á því hve margar ólíkar manneskjur eru á jörðinni, þegar við höfum einu sinni komið auga á þær í fjöldanum. Og þær skipta allar máli, teljast allar með. Titill bókarinnar hefur nefnilega tvöfalda merkingu.

Í umhverfi sem aðeins er gefið í skyn með bláum strikum fylgjum við fjölda af alls konar þráðum og lífsfrásögnum og uppgötvum stöðugt nýja þræði og sögur. Tvær manneskjur sem standa sín hvorum megin við hillu á bókasafni gifta sig mörgum síðum seinna, og lesandinn þarf að fletta bæði fram og til baka til að koma aftur auga á konuna sem sækir brúðkaup og jarðarfarir annarra.

Kristin Roskifte sýnir mikla næmni fyrir smáatriðum og lætur persónur sínar tilheyra hópi en um leið bera eigin persónueinkenni. Auk hinna fjölmörgu sagna sem myndirnar segja opnar textinn á margar af grundvallarspurningum lífsins. Hinn knappi texti á hverri opnu fjallar um hópinn sem birtist á myndinni en jafnframt nánar um einhverja tiltekna persónu – oft með óvæntum hætti, af kímni og alvöru. Hér getur ýmist verið um að ræða smáatriði daglegs lífs eða stærri tilvistarspurningar. Leyndarmál sem við segjum engum, eða eitthvað í framtíðinni sem við vitum ekki enn. Þegar þúsund manns virða fyrir sér halastjörnu í lok bókarinnar eiga þau öll eitt sameiginlegt – ekkert þeirra veit fyrir víst hver tilgangur lífsins er.

Alle sammen teller er öðruvísi og einstök myndabók. Hægt er að lesa hana margoft, uppgötva ný smáatriði, kannast við ýmislegt í hugsunum persónanna og jafnvel koma auga á sjálfan sig.

Kristin Roskifte er myndskreytir og myndabókahöfundur sem hefur hlotið fjölda verðlauna fyrir störf sín. Alle sammen teller var tilnefnd til Brage-verðlaunanna og hefur þýðingarrétturinn verið seldur til fjölda landa.