Ragnar Aalbu

Krokodille i treet
Ragnar Aalbu: Krokodille i treet. Myndabók, Cappelen Damm, 2015

Lítill krókódíll er einn á ferð í skóginum. Það er þoka úti, og skyndilega finnst honum hann sjá úlf. Hann klifrar í snatri upp í tré og kemst ekki aftur niður.

Krokodille i treet (Krókódíllinn í trénu) er naíf myndabók, einföld frásögn af því að vera óttasleginn og öðruvísi, sögð á látlausan en öruggan hátt. Sögusviðið er ekki stórt; himinninn, skógurinn og tréð stóra sjást frá ýmsum hliðum, og rými og sjónarhorn eru nýtt með skapandi hætti. Texti og myndir renna saman í eitt og það er krókódíllinn sjálfur sem ávarpar lesandann, neðan úr trénu og í frjálsu falli niður á jörðina. Um leið vakna hugrenningatengsl hjá fullorðnum lesendum við dæmisögu Esóps um drenginn sem hrópaði „Úlfur, úlfur!“. Á lokaopnu bókarinnar leynast hressandi og óvænt sögulok, sem eru orðalaus með öllu.

Krokodille i treet er spennandi og skemmtileg saga fyrir ung börn, en býr jafnframt yfir fegurð og kímni sem fullorðnir lesendur kunna að meta.

Með orðum höfundarins: Þetta er saga um það að lenda á röngum stað. Og klárlega utan þægindarammans.

Ragnar Aalbu er myndskreytir og barnabókahöfundur sem hefur hlotið ýmis verðlaun fyrir mínímalískar og stílhreinar myndskreytingar. Hann hefur bæði gefið út myndabækur með eigin texta og í samstarfi við aðra höfunda. Aalbu stundaði nám við Statens håndverks- og kunstindustriskole í Ósló, deild sjónrænnar miðlunar, á árunum 1991 til 1996.