Jakob Martin Strid
Fyrsta bók Jakob Martin Strid, sósíalíska teiknimyndasagan Vi hader alting, kom út 1997. Hann vakti fyrst verulega athygli með Strid, teiknimyndasyrpu sem var anarkísk háðsádeila og birtist í dagblaðinu Politiken frá 2000 til 2003. Áhugi hans á furðusögum og hinum mannlega þætti beindi honum þó eðlilega og örugglega í þá átt að skrifa fyrir börn.
Líkt og besta og ævintýralegasta sagnafólk kann Strid þá list að opna huga bæði barna og fullorðinna. Þar er lykillinn yfirleitt fágaður húmor.
Strid gjörþekkir hin sígildu verk barnabókmenntanna, svo sem Róbinson Krúsó, Lísu í Undralandi, Bangsímon, Andrés Önd, Gorm, Dýrin í Hálsaskógi, verk Sven Nordqvist og Ole Lund Kirkegaard, teiknimyndir Hayao Miyazaki og að sjálfsögðu veröld múmínálfanna eftir Tove Jansson. Hann sækir í þessi verk og blandar atriðum úr þeim við sinn eigin frumlega söguheim svo að lesandinn fær aðgang að undursamlegri, skakkri, ískyggilegri og ævintýralegri veröld sem er í senn jarðbundin og full af hugarflugi.
Í fyrstu barnabókum hans voru persónurnar fólk í furðulegum kringumstæðum en í seinni tíð hafa dýrin tekið yfir – þó ekkert í líkingu við dýr Richard Scarry í Erilborg, heldur dýr með mannlega eiginleika og persónuleika. Frásagnirnar í þessum síðari bókum hverfast um lítinn bláan fíl að nafni Mimbo Jimbo og vini hans.
Í bókinni sem nú er tilnefnd er vinur Mimbo Jimbos, flóðhesturinn Mumbo Jumbo, í aðalhlutverki. Hann er sendur út í skóg að tína kantarellur en lendir í því að smakka dularfullan svepp sem lætur hann vaxa svo gríðarlega að hann getur ekki einu sinni fengið hughreystandi faðmlag frá mömmu sinni lengur.
Atburðarásin gengur svo út á að minnka Mumbo Jumbo aftur í sína eðlilegu stærð, sem leiðir hann til Síberíu í fljúgandi baðkari. Þar kemur nornin Baba Jaga honum til hjálpar með kjarnorkuflugskeyti.
Bókin geislar af frásagnargleði en er jafnframt krökk af lágstemmdum vangaveltum um tilurð og eiginleika bókarinnar sjálfrar, til dæmis gegnum viðtöl við þátttakendur í atburðarásinni og spurningar sem höfundurinn beinir að sjálfum sér.
Jakob Martin Strid er á góðri leið með að verða átrúnaðargoð ungra sem aldinna lesenda. Með Da Mumbo Jumbo blev kæmpestor sýnir hann þann frumleika og bókmenntalegu gæði sem tryggðu honum menningarverðlaun danska krónprinsparsins árið 2012 og Silas-verðlaun Dönsku akademíunnar árið 2013.